Merkjaskipt greinasafn: tove jansson

Að læra að skilja veturinn, eða múmínálfurinn sigrast á fordómum

Á síðustu vikum hef ég dundað mér við að lesa allar bækurnar um múmínálfana sem komnar eru út á íslensku, það er að segja textabækurnar en ekki myndasögurnar (ég á þær eftir). Innblásturinn var ný múmínbók sem kom út hjá Máli og menningu í fyrra en í henni eru þrjár sögur, Halastjarnan og Pípuhattur galdrakarlsins, sem komu fyrst út í þýðingu Steinunnar Briem 1971 og 1968, og svo fyrsta sagan, Litlu álfarnir og flóðið mikla, sem birtist þarna í fyrsta skipti á íslensku í þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Þessi nýja bók er bæði frábær og falleg og ég hlakka mjög til að fá í hendurnar næsta bindi en í Kiljunni á miðvikudagskvöldið var sagði Þórdís að það væri væntanlegt. Í því verða Örlaganóttin og Vetrarundur í Múmíndal, sem komu út í þýðingu Steinunnar 1970 og 1969, og svo glæný þýðing Þórdísar á Endurminningum múmínpabba.

Það er skemmst frá því að segja að ég er hugfangin og upprifin – þetta eru einfaldlega bestu bókmenntir sem ég hef lesið mjög lengi. Þetta eru kannski gamlar fréttir, vita ekki allir að Tove Jansson var snillingur og þessar bækur eru ódauðlegar? Jú, líklega, nóg er látið með þær og allt persónugalleríið, en samt, hversu oft verðum við ekki fyrir vonbrigðum þegar við endurlesum barnabækur æskunnar?

Ég las bækurnar líklega flestar (allavega eru þær til á bókasafninu í Mývatnssveit og ég las flest sem þar var) en var samt alltaf hrifnari af japönsk-hollensku teiknimyndaþáttunum. Ég man til dæmis vel daginn þegar fyrsti þátturinn var sýndur á RÚV, ég átti afmæli og allir gestirnir hlupu inn í stofu að horfa, með mig í fararbroddi. Þetta hefur líklega verið í byrjun tíunda áratugarins.

Núna er þessu þveröfugt farið. Þegar kona á fertugsaldri fellur fyrir barnabók er nokkuð óhætt að slá því föstu að bókin sé í fyrsta lagi vel skrifuð og í öðru lagi á fleiri en einu plani og með fleiri en einn innbyggðan lesanda, það er hún sé skrifuð fyrir bæði börn og fullorðna. Þótt sagan og persónurnar í slíkum bókum séu einfaldar og höfði til barna eru þær líka flóknar og kalla á dýpri túlkun. Múmínbækurnar eru einmitt þannig – í þeim er gríðarmikil heimspeki, pólitík og tilvistarlegar pælingar. Já, og þær eru heilmikið hinsegin.

Tove Jansson átti í ástarsamböndum við konur og lífsförunautur hennar var kona, Tuulikki Pietilä. Þetta er staðreynd sem lengst af var ekki mikið rætt um en er þekkt í dag, ekki síst eftir að ævisaga Tove, skrifuð af Boel Westin kom út árið 2007 og í enskri þýðingu 2014: Tove Jansson: Life, Art, Words. Boel, sem er bókmenntafræðingur, ræðir þar opinskátt um ástir og sambönd Tove og nefnir til dæmis hvernig ýmsar persónur í Múmíndal eiga sér ákveðnar fyrirmyndir í fjölskyldu hennar og vinum. Hún fléttar líka umfjöllun og greiningar á myndverkum og textum Tove inn í frásögnina sem dýpkar ævisöguna mjög.

Þórdís Gísladóttir hefur skrifað afskaplega skemmtilega grein um litlu verurnar sem birtast allt í einu í Múmíndal í Pípuhatti galdrakarlsins og bera gælunöfn Tove og ástkonu hennar, Vivicu Bandler, Tofslan og Vifslan, eins og kemur fram í ævisögunni. Á íslensku heita verurnar reyndar talsvert minna krúttlegum nöfnum, Þöngull og Þrasi, auk þess sem þær eru ótvírætt karlkyns. Í frumútgáfunni eru þær af óræðu kyni og þær klæðast kjólum á öllum myndum. Ég get ekki annað en grátið þá möguleika sem hér fóru forgörðum hjá Steinunni, þeim annars ágæta múmínþýðanda. Tófsla og Vífsla eða Tósla og Vísla – hvort tveggja passar vel við „sla-tungumálið“ þeirra. (Reyndar heita þessar elskulegu verur Thingumy og Bob á ensku – má ég þá frekar biðja um Þöngul og Þrasa). En hvað um það, grein Þórdísar, „Litbrigði ástarinnar – um samkynhneigð í heimi múmínálfanna“, birtist í tímaritinu Börn og menning árið 2008 og var síðar birt á bloggsíðu Druslubóka og doðranta svo það er ekki eftir neinu að bíða – lesið hana!

Þöngull og Þrasi / Tósla og Vísla gleðja múmínsnáðann með því að sýna honum leyndarmálið sitt: konungsrúbíninn sem er ótvírætt tákn ástarinnar, ekki síst þeirrar ástar sem þarf að fela.

Vetrarundur í Múmíndal er önnur bók með hinsegin undirtexta en í henni segir frá því þegar múmínsnáðinn vaknar af vetrardvalanum langt á undan áætlun og þarf að takast á við líf um miðjan vetur; eitthvað sem hann hefur aldrei upplifað áður. Hann er einmana, því fjölskyldan og vinirnir eru sofandi, og pirraður og reiður út í þennan nýja og framandi heim: snjóinn, myrkrið og kuldann og ekki síst þá staðreynd að Múmíndalur er fullur af ókunnugum verum sem gera sig heimakomnar þar. Þessar verur eru skrýtnar og skilja hann ekki, hafa engan áhuga á að heyra um sólina og sumarið, sundferðir og epli sem vaxa á trjánum, heldur láta eins og veturinn sé eðlilegt ástand. „Hérna ráfar maður inn í eitthvað alveg nýtt og hittir ekki eina einustu lifandi veru sem hefur áhuga á að spyrja hvers konar heimi maður hafi lifað í hingað til. Meira að segja Mía litla hefur enga löngun til að tala um alvöruheiminn,“ kvartar hann. (Mía vaknaði sem sagt líka en hún hefur vitanlega enga samúð með múmínsnáðanum.) Við þessu fær hann mikilvægt svar, sem hann reyndar er ekki tilbúinn að taka alvarlega (strax). Það kemur frá Tikku-tú, konunni í rauðröndóttu peysunni sem býr í því sem áður var baðhús múmínálfanna: „Og hvernig er hægt að vita hvor heimurinn er alvöruheimur?“ (bls. 40)

Tikka-tú, múmínálfurinn og snjórinn.

Tikka-tú er vetrarvera sem lítur ekki svo á að baðhúsið sé eign múmínálfanna – á veturna á hún það. Á veturna gilda nefnilega aðrar reglur og önnur viðmið og hún reynir að útskýra fyrir múmínsnáðanum að það sé ýmislegt fleira til en það sem hann þekkir – að það sé fleira „alvöru“ en það sem hann viðurkennir:

Þessi vetrarheimur er hinsegin heimur; veröld þeirra sem ekki passa inn í sumrin, vorin og haustin og lifa því í felum en blómstra þegar þeirra árstíð kemur. Tikka-tú er sú sem hjálpar múmínsnáðanum að skilja að hans viðmið eru ekki þau einu réttu og undir hennar leiðsögn lærir hann að hætta að vera hræddur og reiður út í það sem hann skilur ekki eða er honum framandi. Hann lærir líka að vera gjafmildur og gestrisinn og sigrast á eiginhagsmunasemi; um veturinn fyllist Múmíndalur af flóttadýrum af svæðum þar sem enga fæðu er að fá og eftir langa umhugsun og mikla tregðu býður hann þeim að búa í húsinu og borða sultubirgðirnar í kjallaranum. Múmínsnáðinn lærir sem sagt að elska veturinn og allt sem honum fylgir, rétt eins og aðrar árstíðir, og þegar upp er staðið er hann himinsæll yfir því að hafa öðlast þessa lífsreynslu: „Ég á allt árið. Já, líka veturinn. Ég er fyrsti múmínálfurinn sem hefur lifað í heilt ár samfleytt“ (bls. 107). Vetrarundur í Múmíndal er sem sagt, í þessum skilningi, þroskasaga þess sem horfist í augu við eigin fordóma og lærir að fagna fjölbreytileika lífsins – og ein mikilvægustu skilaboðin eru að við þurfum ekki að fella allt og alla inn í sama mót. Heterónormið er ekki meira alvöru en hvað annað.

Aumingja morrinn, svo misskilinn.

Tikka-tú er líka líklega fyrsta persónan í múmínbókunum sem er ekki hrædd við morrann og bendir á að hann er fyrst og fremst einmana og óhamingjusamur. Í Pípuhatti galdrakarlsins er morrinn á höttunum eftir rúbíninum sem Þöngull og Þrasi gæta eins og sjáaldurs auga síns og hann er þar eins konar óvinur ástarinnar, ískaldur, eyðileggjandi og hættulegur. Í Vetrarundrum í Múmíndal segir Tikka-tú hins vegar múmínsnáðanum að ástæðan fyrir því að morrinn sæki í eld og ljós – sem hann drepur ef hann getur með því að setjast á það og frysta það – sé að honum sé kalt og hann sé einmana. Hann er bara klaufalegur í samskiptum greyið. Seinna á múmínsnáðinn svo eftir að vingast við morrann í Eyjunni hans múmínpabba. Hluti af visku Tikku-tú og þroska múmínsnáðans er því að heimurinn er ekki svart-hvítur, góður eða illur, heldur getur víðsýni og samkennd, einnig með þeim sem virðast hranalegir og ógnandi, kallað fram það besta í fólki.

Skissa af Tikku-tú í bréfi frá Tove til Tuulikki sumarið 1956. Boel Westin –Tove Jansson: Life, Art, Words, 11. kafli.

Í bók Boelar Westin (11. kafla) kemur fram að Vetrarundur í Múmíndal var skrifuð veturinn sem Tove varð ástfangin af Tuulikki og samband þeirra hófst. Rómantísk saga fylgir: á ísköldu vetrarkvöldi í Helsinki í mars 1956 drukku Tove og Tuulikki vínflösku og hlustuðu á tónlist og ekki varð aftur snúið, Tove gekk ástfangin heim og „ferðalag hennar um Helsinki varð að ferðalagi um vetrarundur í Múmíndal.“ Persónan Tikka-tú er skilgetið afkvæmi þessara kynna; „sambandið milli konunnar Tuulikki og persónunnar Tikka-tú er augljóst öllum þeim sem geta og vilja sjá það,“ segir Boel. Hún vitnar í bréf Tove til hennar sjálfrar árið 2000 þar sem segir:

„Rétt eins og í bókinni kenndi hún [Tuulikki] mér að skilja veturinn. Ég yfirgaf hina skelfilega hversdagslegu sumarverönd múmínfjölskyldunnar og hætti að skrifa um það sem var elskað heitt og myndi ávallt verða eins, og reyndi að skrifa bók um hversu helvítlegir hlutirnir geta orðið.“

Boel greinir Vetrarundur í Múmíndal reyndar ekki með hinsegin gleraugu á nefinu, líkt og ég hef gert hér, en það er ljóst að upprunasaga bókarinnar og ævisaga Tove mælir í það minnsta ekki gegn slíkri túlkun, þvert á móti. Slíkt skiptir þó ekki öllu máli – bækur má vitanlega greina óháð höfundi og samhengi. Hinsegin þemu og undirtextar í bókum Tove Jansson eru sannarlega til staðar – og eru miklu fleiri en hefur verið rakið hér – jafnvel þótt við vissum ekkert um hana sjálfa eða skyldleika persóna hennar og ástkvenna.