Merkjaskipt greinasafn: Stella Blómkvist

Stella Blómkvist: hinsegin frumkvöðull

Síðan ég skrifaði inngangsorðin að pistlaröðinni um Stellu okkar Blómkvist hefur ýmislegt gerst. Í fyrsta lagi hafa þau merku tíðindi orðið að tíunda Stellubókin er komin út, Morðið í Snorralaug, og í öðru lagi er Stella rithöfundur orðin vinkona mín á Facebook. Það er gósentíð framundan.

Í þriðja lagi átti Stella stórafmæli því hún er fædd þann merka dag 19. júní 1969, kvenréttindadaginn árið 69 – enda sjálfstætt kjarnakvendi og mikið fyrir kynlíf. Það eru engar tilviljanir til þegar hún er annars vegar. Til hamingju Stella!

Þessi tvö atriði, kjarnakvendið og kynlífið, eru líka með því hressilegasta við bækurnar um Stellu og marka þeim ákveðna sérstöðu. Í upphafskafla fyrstu bókarinnar, Morðsins í Stjórnarráðinu (1997), er Stella timbruð og hundfúl því næturgagnið, folinn sem hún tók með heim kvöldið áður, sofnaði í miðju kafi og stóðst alls ekki gæðakröfur. (Hér er reyndar rétt að setja vávörun og varnagla: hún beitir manninn ofbeldi, sem er vitanlega mjög vafasamt og verðskuldar nánari umfjöllun síðar.) Næsta bók, Morðið í sjónvarpinu (2000), hefst svo á þessum orðum:

„Aaaah!“
Heitur straumurinn spýtist af ofsakrafti út um örmjóu kringlóttu götin á silfurgráa handfanginu og þrýstir sér inn. Lengra og lengra. Harður og mjúkur í senn. Krefjandi, Gælir við hungrað holdið eins og fingrafimur foli.
„Ummmm! “
Ég legg aftur augun, slaka á og opna upp á gátt fyrir þessum freka, heita, vota elskhuga. Leyfi honum að leika sér að vild. Kveikja æsilega elda. Magna upp ástríðufullt bál sem rís hærra og hærra. Allt þar til hámarkinu er náð.
Næstum því.

Betri sjálfsfróunarsena en vandfundin í íslenskum bókmenntum, leyfi ég mér að slengja fram, og fáar bækur byrja á svo hressilegum kynlífslýsingum (Mánasteinn eftir Sjón skákar þessari reyndar. Það keppir fátt við það upphaf.)

Stella er sem sagt mikil kynvera og í hinsegin samhengi er hún frumkvöðull. Hún er bæði með körlum og konum og lýsingarnar á ástríðum hennar í garð kvenna og kynlífi með þeim eru dálítið magnaðar þegar hugað er að því að svo opinská og ítrekuð umfjöllun um þau málefni var fremur sjaldséð á þessum tíma.

Þegar fyrsta bókin kom út leit samt ekki út fyrir að neitt hinsegin væri þar á ferð. Morðið í Stjórnarráðinu var kynnt svo:

Hér er á ferðinni ný íslensk spennusaga úr samtímanum sem fjallar um lögfræðinginn Stellu, sem er orðheppin og harðsoðin, nokkuð upp á karlhöndina og finnst viskísopinn góður. Hún brynjar sig með spakmælum frá mömmu og sérhæfir sig í að innheimta skuldir sem hún hefur keypt.

Hér er Stella í fyrsta skipti kynnt fyrir íslenskum lesendum og helstu eiginleikum hennar er lýst, sem margir einkenna hana í gegnum allar bækurnar: hún er góð í að koma fyrir sig orði, lætur ekki valta yfir sig, safnar grimmt í Stellusjóðinn (bankareikninginn), finnst fátt betra en að drekka viskí og vitnar oft í spakmæli mömmu sinnar. Hins vegar er hér ein öskrandi þögn: Stella er sannarlega upp á karlhöndina en kvenhöndina líka – það vitum við núna. Umfjöllunin um kvennaástir Stellu í Morðinu í Stjórnarráðinu er varfærin og líta má á hana sem eins konar formála að þeim söguþræði. Undir lok bókarinnar sefur hún í fyrsta skipti hjá konu og eitthvað vaknar innra með henni:

Eiginlega verð ég ekki einu sinni hissa. Það er engu líkara en að é ghafi innst inni búist við þessu. Bara neitað að hugsa um það. (180)

Engar lýsingar á kynlífinu fylgja í þetta skiptið, sem er óvenjulegt, og mögulega er þetta í fyrsta og eina skipti sem Stella leyfir bólfélaganum að ráða förinni, því yfirleitt er það hún sem stýrir – harðri hendi. Eftir þetta verður svo ekki aftur snúið; í bókunum sem á eftir koma er hún bæði með körlum og konum en áhuginn á konum er jafnan ástríðufyllri og tilfinningaríkari. Sérstaða Stellu í íslenskri hinsegin bókmenntasögu felst ekki síst í því hversu hreinskilin og opinská hún er með sínar þrár og langanir – hræðsla eða efasemdir um réttmæti samkynja ásta og kynlífs eru ekki til í hennar hugarheimi.

Stella okkar Blómkvist

Ég er dálítið í því þessa dagana að taka fyrir bókaseríur. Um daginn las ég Múmínálfabækurnar í tímaröð; nú er það flokkur sem er vissulega dálítið öðruvísi en engu minni snilld: bækurnar um Stellu Blómkvist. Þessi lestur er verkefni sem ég lofaði sjálfri mér að takast á við fyrir nokkrum mánuðum síðan eftir frábært kvöld með bókmenntaklúbbi Samtakanna ’78 (sem er öllum opinn og tekur fagnandi á móti nýjum lestrarhestum). Þar var Stelluþema; allar viðstaddar höfðu valið sér eina eða fleiri af Stellubókunum níu og svo ræddum við þær af miklum ákafa í tvo tíma – svo æstar vorum við að við fórum heim með metnaðarfull áform um Stelluinnblásið ritunarverkefni og stofnuðum (lokaðan og leynilegan) Facebook-hóp helgaðan Stelluást. Afraksturinn kemur mögulega í ljós einhvern tímann við gott tilefni, þegar vel liggur á okkur.

Upplýsingar um Stellu eru ekki alltaf sérlega aðgengilegar.

Verkefnið felur sem sagt í sér að lesa níu glæpasögur eftir Stellu Blómkvist, sem er ekki til nema sem dulnefni óþekkts íslensks rithöfundar, um Stellu Blómkvist, sem er harðsoðið lögfræðingskvendi sem elskar kynlíf, mótorhjól og viskí og er nokkuð sama um kyn þeirra sem hún sefur hjá – bara að þau séu sexí og standi sig í rúminu.

Nei, þetta er reyndar ekki alveg rétt, því nú rétt áðan komst ég að því að verkefnið hefur stækkað að umfangi. Haldið ykkur fast, tíunda Stellubókin er á leiðinni:

Já, Stella rithöfundur er nefnilega á Facebook og búin að vera í mörg ár, líklega lengur en ég. (Við erum ekki vinir, sem útskýrir af hverju ég var fyrst núna að sjá þessa merku frétt. Ég var hins vegar rétt í þessu að mana mig upp í að senda vinabeiðni og bíð með hjartað í buxunum.) Hún hegðar sér þar eins og hver annar höfundur, póstar viðtölum við sjálfa sig, dómum um bækur og fréttum af metsölulistum, skrifum, útgáfusamningum og sjónvarpsþáttaaðlögunum. Hún elskar Sinéad O’Connor, Sylviu Plath og John Lennon – já og svo hefur hún gert okkur þann greiða að safna saman „spakmælum mömmu“ úr fyrstu bókunum. Þau eru betri en flestir málshættir og þurfa að rata inn í páskaegg ekki síðar en árið 2020. Morgundagurinn byrjar ekki fyrr en á morgun. Sagði mamma.

Vonda málshætti er gott að Stella svolítið upp. Sagði mamma.

En Stella rithöfundur er samt engin Stella Blómkvist og ber fá persónueinkenni hennar – hún er skapari hennar fyrst og fremst. Þetta kemur vel fram í viðtölum sem mjög oft snúast um stóra leyndarmálið, nafn höfundarins, frekar en bækurnar sjálfar og efni þeirra. (Druslubókadömurnar tóku reyndar fantafínt viðtal við Stellu um árið og spurðu mun áhugaverðari spurninga, á borð við með hvaða íslenska rithöfundi hún vildi helst deila viskíflösku. Svarið var auðvitað Vigdís Gríms.) Netið er líka fullt af spjallþráðum sem bera fyrirsögnina „Hver er Stella Blómkvist?“ En ég er sem sagt orðin frekar þreytt á þeirri umræðu og gladdist mjög í fyrrnefndum bókaklúbbi því þar ræddum við lítið sem ekkert um manneskjuna á bak við dulnefnið. Það var ekki planað eða skipulagt markmið, umræðan þróaðist bara þannig. Það kom nefnilega upp úr dúrnum að það voru bækurnar sjálfar, persónusköpunin og stíllinn, sem við vorum hrifnar af. Skítt með höfundinn – er hann ekki dauður hvort sem er?

(Jú, auðvitað er líka gaman að fabúlera um höfundinn en samt aðallega um fabúlasjónirnar sjálfar. Ein af algengum kenningum sem ég hef heyrt undanfarið er að Stella sé Lilja Sigurðardóttir, sem nú er að gera garðinn frægan víða um heim með sínum eigin glæpasögum. Ég er svolítið hrifin af þeirri kenningu, þótt ég hafi reyndar enga trú á að hún sé sönn, því það fer ekki framhjá neinum að Lilja er heitasti aðdáandi Stellu á Facebook, lækar og kommentar með ástarorðum og hjörtum í gríð og erg. Það er eitthvað fallegt við slíkan narsissisma.)

Stella er nefnilega dálítið mögnuð og bækurnar merkilegar. Þær eru skrifaðar í upphafi glæpasagnabylgjunnar á Íslandi, sú fyrsta kom út árið 1997 um leið og fyrsta bók Arnaldar Indriðasonar. Þær hafa verið þýddar á nokkur tungumál, eru vinsælar t.d. í Þýskalandi og sjónvarpsþáttaserían sem gerð var eftir þeim hefur líka gengið vel erlendis. Þessar bækur eru því alveg jafnmikill hluti af íslenska glæpasagnavorinu og -sumrinu og bækur Arnaldar. Þær hafa samt verið talaðar dálítið niður, eða kannski er frekar eins og það sé ekki tekið almennilegt mark á þeim. Þetta segi ég án þess að hafa lagt á mig að lesa ritdómana alla og kannski er þetta byggt á mínum eigin fyrirframgefnu (rang)hugmyndum. Lausleg leit að skrifum um Stellubækurnar, öðrum en ritdómum, leiddi fátt í ljós annað en eina ágæta BA-ritgerð og það er auðvelt að bölsótast yfir slíku, en svo mundi ég eftir því að forsætisráðherra vor skrifaði um Stellu og fleiri í lokaritgerðum sínum um íslenskar glæpasögur, svo líklega er ekki yfir miklu að kvarta.

En hvað um það. Alltaf má gott bæta. Á næstunni munu birtast hér misalvarlegir pistlar um Stellubækurnar, ekkert endilega í tímaröð eða neinni lógískri röð. Áherslan verður væntanlega oft, en ekki alltaf eða endilega, lögð á aðalpersónuna en persónusköpunin – Stella sjálf – er jú það sem gerir bækurnar einstakar. Hún er aðalmálið.

Það er ekki öllum gefið að ljúga með stæl. Sagði mamma.