Texti dagsins er blátt áfram og óheflaður, fullur af gremju og vanlíðan, niðurlægingu og nikótínþörf. Sögukonan er (líklega) einstæð móðir, sögusviðið er Reykjavík á 7. áratugnum, aðfaranótt mánudags, og sagan er texti dagsins af því að í þessum heimi býr lesbía – sjaldséður hvítur hrafn í íslenskum bókmenntum 20. aldar. Höfundurinn er Ásta Sigurðardóttir, eins og glöggum lesendum hefur kannski dottið í hug strax við lestur þessara inngangsorða, en sagan er þó ekki „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ heldur „Eldspýtur“, sem birtist fyrst í Vikunni í ágúst 1967 og síðar í Sögur og ljóð (1985).
Lesbían í „Eldspýtum“ er í litlu aukahlutverki, sem er þó kannski veigameira en virðist við fyrstu sýn, og kemur ekki við sögu fyrr en í sögulok. Aðalpersónan, sem segir söguna, er kona sem þráir ekkert heitar en að kveikja sér í sígarettu en á engar nothæfar eldspýtur. Þar sem það er búið að loka öllum sjoppum, og það hefur ekki borið árangur að nota brauðristina eða eldavélarhelluna, heldur hún út á dimmar götur Reykjavíkur í leit að góðhjartaðri sál sem geti gefið eða lánað henni eld. Og hún er tilbúin að leggja býsna margt í sölurnar.
Þá tekur við frásögn af bílunum sem hún stöðvar. Þeir eru af ólíkum gerðum og litum en ökumenn þeirra eru allir karlmenn sem ýmist gefa í þegar þeir sjá konuna eða hreyta í hana ónotum. Þar sem sagan er sögð af konunni sjálfri vitum við lesendur ekki hvernig hún lítur út eða ber sig (eða í hvers konar andlegu eða líkamlegu ástandi hún er) en viðbrögðin sem hún vekur hjá þessum mönnum benda til að þeir dragi ákveðnar ályktanir um hana út frá útliti, það er að hún sé róni, mella, veik á geði eða í það minnsta manngerð sem verðskuldar ekki góðvild:
Nóttin líður, konan er þreytt og sár yfir framkomu mannanna og ennþá þjáist hún af sígarettulöngun og vonleysi – og lesandinn með henni. Henni er líka skítkalt. Þá rennur enn einn bíllinn upp að henni. Ökumaður hans er að mörgu leyti frábrugðinn hinum, því í fyrsta lagi er hann kona og í öðru lagi stoppar hún og bregst betur við (fyrst í stað) en karlarnir:
Gjörið svo vel, hér er lesbían mætt á svæðið, fögur en flámælt og hljóðvillt. Og að sjálfsögðu er flámæltri konu ekki treystandi. Hún er falleg, það sér sögukonan, en hún er líka dópuð, æst og áfjáð og gengur hreint til verks: „Veltu ekki koma heim með mér?“ spyr hún (já, einmitt, hún er flámælt); „komdu með mér heim – gerðu það“. Þegar sögukonan færist undan ummyndast daman bókstaflega af bræði:
Sögunni lýkur á því að sögukonan gefst upp og gengur heim með sársaukatár í augum, eldlaus og miður sín. Samúð sögunnar er með henni, það fer ekki á milli mála – hún er niðurlægð af karllægu smáborgaraveldi sem ríkir á götum Reykjavíkur þessa nótt (og aðrar) og það er undirstrikað að hún eigi heima úti á jaðri samfélagsins.
En skoðum lesbíuna aðeins nánar; það er jú vegna hennar sem þessi pistill er skrifaður. Hún er flámælt, hljóðvillt, árásargjörn, dópuð, klámfengin, bitur og reið og birtist sögukonunni sem eins konar norn. Hún er þar að auki síðasti hlekkurinn í langri röð persóna sem niðurlægja sögukonuna og allar þessar persónur, nema lesbían, eru karlar. Það má því segja að lesbían birtist í þessari sögu annars vegar sem hálfgert skrýmsli eða norn og hins vegar sem hluti af karlaveldinu sem kúgar og niðurlægir þá sem minna mega sín, því þótt hún sé kvenleg í útliti og fögur er hún hættuleg og tekur sér vald, beitir ofbeldi og er kynferðislega krefjandi og aggressíf. Það er sannarlega lítil sögusamúð með henni og kynhneigð hennar; biturleiki hennar og reiði út í gagnkynhneigðar konur sem skilja „ekke sanna ást“ og „velj[a] allar það sama – eitthvað langleitt með hnúð á endanum“ er ekki sympatísk heldur ógeðfelld.
Það að lesbíur birtist í bókmenntum og listum í gervi vera sem eru í senn kynferðislegar og ógnvekjandi er ekki nýtt og alls ekki einangrað við þessa sögu. Fræðikonan Lillian Faderman, sem rannsakað hefur ástir kvenna í vestrænum bókmenntum, hefur til dæmis bent á að fram að fyrri heimsstyrjöld hafi náin sambönd kvenna oft birst á nokkuð fordómalausan hátt en frá og með 3. áratugnum hafi viðhorf til lesbískra ásta sýnilega orðið fordómafyllri og það sjáist einnig í bókmenntunum, þar sem hinsegin konur birtust gjarnan sem sjúkar verur eða skrýmsli og þá oft sem vampírur eða eins konar mannætur:
„These two images – the lesbian as a medical anomaly and the lesbian as a carnivorous flower – dominated openly lesbian literature, particularly fiction, until the 1970’s“ („What is lesbian literature?“ í Professions of Desire (1995), bls. 50)
Líta má á þessar hættulegu og sjúku lesbíur sem birtingarmynd hómófóbíu, það er hræðslu við það sem ekki samræmist gagnkynhneigðum normum og ögrar hefðbundnum hugmyndum um karlmennsku og kvenleika.
Dæmi um þetta má einnig sjá í íslenskum skáldverkum eins og Dagný Kristjánsdóttir hefur bent á í stórgóðri grein, „Hinsegin raddir. Sannar og lognar lesbíur í bókmenntum og listum,“ sem birtist í Skírni haustið 2003. „Það voru gagnkynhneigðir íslenskir karlmenn sem tóku það að sér að skrifa um veruleika íslenskra lesbía,“ bendir Dagný á, og vísar þar helst til Guðlaugs Arasonar og skáldsögunnar Eldhúsmellur (1978) og Feilnótu í fimmtu synfóníunni (1975) eftir Jökul Jakobsson. Í þeirri síðarnefndu er lesbísk hliðarsaga en bókin fjallar um Önnu Dóru sem er að brjótast út úr vonlausu hjónabandi og hrífst meðal annars af Söndru, ungri hippastúlku. Aldrei verður þó úr sambandi þeirra á milli og bókin er því ekki lesbísk ástarsaga; þráin í sögunni er gagnkynhneigð, segir Dagný, og í henni birtist jafnframt ógeð á konum sem fara út fyrir kvenleikarammann. Sagan inniheldur nefnilega aðra lesbíu, karlmannlega butch týpu sem bæði konur (nema Sandra) og karlar hræðast eða fyrirlíta. Nafn konunnar segir í raun allt sem segja þarf: Volga Fress. Hún er dimmrödduð, situr gleitt, dulbýr sig sem karlmann, tilheyrir undirheimunum og sögukonunni býður við henni – og því á hún ýmislegt sameiginlegt með lesbíunni í „Eldspýtum“.

Grein Dagnýjar er gott og fróðlegt yfirlit yfir lesbíur og birtingarmyndir þeirra í íslenskum skáldverkum fram að síðustu aldamótum. Það er ekki tæmandi, enda var því örugglega ekki ætlað að vera það, og það væri vel þess virði að gera aðra ítarlega rannsókn á þessu efni og reyna að þefa uppi fleiri verk. Eins er verðugt viðfangsefni að skoða ástir kvenna í 21. aldar verkum en ég held að það megi fullyrða að birtingarmyndir lesbía hafa breyst frá því fyrir aldamót með breyttum samfélagsviðhorfum og aukinni umræðu um hinsegin málefni. Svo ekki sé talað um hve mikið þeim hefur fjölgað! Mér finnst næstum eins og það sé hinsegin kona í annarri hverri bók sem ég fletti þessa dagana.
Ég auglýsi hér með eftir rannsókn á ástum kvenna í samtímabókmenntum okkar. Býður sig einhver fram?