Í lok október varð ég fyrir hýrri hugljómun og ákvað að hella í mig kaffi og vekja Kynvillta bókmenntahornið til lífsins. Síðan hefur ekkert gerst á þessum vettvangi en ég hef þó drukkið ótæpilega mikið kaffi og skrifað ýmislegt annað. Ég er líka komin á þá skoðun að það sé óáhugavert og stundum óþægilegt að taka þátt í umræðu um bókmenntir á Íslandi í nóvember og desember. Jólabókaflóðið er ágætt að mörgu leyti en álagið og áreitið á útgefendur, höfunda, gagnrýnendur og lesendur þessar fáu vikur er fáránlegt og áherslan á stjörnugjöf og söluvænlegar setningar í ritdómum sem hægt er að slá upp í auglýsingum og á bókakápum fer vægast sagt í taugarnar á mér. Það er því ekki leti sem hefur valdið þögninni á þessari síðu heldur miklu fremur mótþrói og fýla, þótt ég búist reyndar ekki við að neinn hafi áhuga á að vitna í þessi amatöraskrif mín. En nú er kominn janúar, sem betur fer, og við getum farið að tala um eitthvað skemmtilegt.

Mundu, líkami er safn þýðinga Þorsteins Vilhjálmssonar á grískum og rómverskum ljóðum sem fæst hafa birst áður á prenti á íslensku, enda eru þau þess eðlis að þau hafa oft orðið ritskoðun að bráð. Þetta eru, með öðrum orðum, ljóð sem hafa á síðustu tveimur árþúsundum og rúmlega það gjarnan þótt ósæmileg og höfundunum til ósóma. Sum eru níðkvæði, önnur hugljúf ástarljóð og nokkrum er líklega best lýst sem gredduljóðum en öll eiga þau sameiginlegt að fjalla opinskátt um ýmsar hliðar kynferðislífsins – til dæmis samkynja ástir og kynlíf.
Ég heyrði og sá Þorstein lesa upp úr bókinni tvisvar fyrir jól og skemmti mér mjög vel. Í fyrsta lagi þekkir hann ljóðin auðvitað inn og út (hoho), kann að taka listrænar, merkingarþrungnar pásur og hlær ekki þótt áheyrendur flissi eða frussi yfir dónaskapnum. Ég mæli sem sagt með Þorsteini og ljóðunum ef einhver ykkar vantar skemmtiatriði í afmæli eða við önnur tækifæri – það mun ekki klikka.
Í öðru lagi heillaðist ég af því hvað þetta er hressandi og gott framtak: að þýða eldgömul dónaljóð eftir grísk og rómversk skáld sem sum hafa verið tekin í kanónutölu, kannski ekki síst af því að það hefur tekist að ýta dónaljóðunum til hliðar og fela þau fyrir heiminum. Þorsteinn byrjaði að þýða ljóðin þegar hann var að kenna í Menntaskólanum í Reykjavík og fannst skorta áhugavert lesefni á íslensku handa nemendunum. Í stað þess að gefast upp og nota það sem til var þýddi hann einfaldlega það sem hann vildi kenna. Þetta er algjör snilldarhugmynd – ég get ekki ímyndað mér betri aðferð til að vekja áhuga syfjaðra menntaskólanema á klassískum fræðum og forngrískri og rómverskri ljóðlist. Ímyndið ykkur drungalegan mánudagsmorgun og kennslan hefst á þessu:
Þú þrýstir rassinum sem allir voru að glápa á upp að veggnum.
Elsku drengur! Af hverju freistarðu steinsins? Hann getur ekkert gert.
(Straton frá Sardis, AG 12.213, bls. 45)
Í þriðja lagi er þessi bók svo auðvitað áhugaverð í mínum augum af því að þar birtast á íslensku ljóð um kvenna- og drengjaástir sem eru ómetanlegar heimildir um samkynja ástir og kynferðislíf til forna – hugmyndaheim sem er gjörólíkur samtímahugmyndum okkar um samkynhneigð en hefur engu að síður haft mjög mikil áhrif á það hvernig við hugsum um kynferðisleg samskipti fólks. Sögu- og menningarlegt gildi þessara þýðinga er því mikið.*

Í inngangi að bókinni fjallar Þorsteinn stuttlega um drengjaástir að fornu og þann grundvallarmun sem var á þeim og ástum karla til kvenna. Samkvæmt hefðum og hugmyndaheimi þessa tíma voru ástir fullorðinna karla og ungra drengja samþykktar og í raun upphafnar en um þessi sambönd giltu mjög ákveðnar reglur, tengdar til dæmis aldri og samfélagslegri stöðu, og þau eru ekki nema að hluta til sambærileg við samkynhneigð og samkynja sambönd 20. og 21. aldar. Um ljóðahefðir tengdar ástum karlskálda til drengja og kvenna segir Þorsteinn (bls. 10):
Drengjaástirnar eru okkur afar framandi í dag, en þær voru hefðbundinn hluti hins forna feðraveldis og fóru fram eftir ákveðnum óskrifuðum leikreglum sem sumar eru kunnuglegar, aðrar ekki. Karlskáldið átti að eltast við sér yngri dreng, sem var æsandi og fagur eingöngu á hinu stutta tímabili frá kynþroska og fram að skeggvexti. Drengurinn átti að láta elta sig en ekki láta of auðveldlega undan skáldinu; það var til vitnis um lauslæti. Skáldaástir karla til kvenna fylgdu öðrum reglum. Þær beindust að konu sem átti að vera gift öðrum og fjölluðu ljóðin jafnan um þau brögð og brellur sem þurfti til að leyna sambandinu.
Á öðrum tímum og í samfélögum þar sem kynferðisleg sambönd karla eru litin hornauga, ólögleg eða fordæmd hafa grísku og rómversku ljóðin um drengjaástirnar gjarnan orðið ritskoðun að bráð. Dæmi um það eru ljóð Catullusar frá 1. öld f.kr. en Þorsteinn greinir frá því að þeim hafi oft verið ýtt til hliðar í rannsóknum á verkum hans – til dæmis þessu hugljúfa standpínuljóði um unglinginn Juventinus (bls. 25):
48.
Hunangssæt augu þín, Juventinus –
ef mér væri leyft að kyssa þau enn oftar –
þrjúhundruðþúsund sinnum oftar –
ég held að ég yrði samt þá ekki fullsaddur.
Ekki einu sinni ef uppskera kossa okkar
yrði þykkari en fullþroska kornstönglar.
Það sækir óþægileg perralykt á við þennan lestur en samt er líka eitthvað hrífandi við drengjaástaljóðin. Kannski er það hin sögulega fantasía eða draumsýn sem hefur lengi fylgt forngrísku textunum; það er að segja sú staðreynd að ljóðin eru ort í tíma og rúmi sem er okkur fjarlægt og bera vitni um samfélag þar sem ástir karlmanna – af mjög ákveðnu tagi, vissulega – voru upphafnar. Sem aftur minnir okkur á að tímarnir breytast og mannfólkið með og það sem einu sinni var litið jákvæðum augum gæti sem best fallið aftur í kramið í framtíðinni þótt það sé fordæmt í augnablikinu. Grísku drengjaástirnar voru, og eru sjálfsagt enn, söguleg fyrirmynd karla sem löðuðust að öðrum körlum og
þangað hafa margir leitað til að fá staðfestingu á því að tilfinningar þeirra og kynlíf eigi rétt á sér. Upphafning þeirra hefur án nokkurs vafa ýtt undir vafasöm sambönd fullorðinna karla og ungra drengja og misnotkun líka – ég ætla ekki að gera tilraun til að líta framhjá því – en hún hefur líka verið haldreipi í hómófóbískum, einmanalegum heimi. Og þá er ég komin í heilan hring með þessa umræðu. Ætli niðurstaðan sé ekki sú að það megi bæði hrífast og hrylla sig yfir sama ljóðinu?
Næsta ljóð eftir Catullus sem birtist í Mundu, líkami er allt annars eðlis og dregur skýrt fram andstæðurnar milli þess sem var samfélagslega samþykkt og þess sem var fordæmt eða niðurlægjandi í samskiptum karla. Það hefst á eftirfarandi línum (bls. 26):
16.
Ég mun ríða ykkur í munn og rass,
Aurelius undirlægja og Furius rassálfur,
sem hélduð – út frá ljóðunum mínum,
því þau eru eitthvað væmin –
að ég væri einhvers konar pervert.
Hér er um að ræða hótanir en ekki ástarorð; kvæðið er níð þar sem ljóðmælandi lýsir því hvernig hann ætlar að niðurlægja andstæðinga sína eða óvini með því að serða þá. Þótt drengjaástir væru samþykktar var mikil niðurlæging fólgin í því fyrir fullorðinn karlmann að verða uppvís að því að hafa verið riðið af öðrum karlmanni. Sá sem var „gerandinn“ í slíkum aðstæðum var aftur á móti í annarri stöðu og ekki endilega bendlaður við öfuguggahátt; til forna og á miðöldum gat það verið til marks um vald og karlmennsku að serða annan karl. Þessi tvö ljóð Catullusar sýna því hversu miklu máli samhengið skiptir þegar um er að ræða samkynja kynlíf, ástir og þrár að fornu.
Með hvað er ég ánægðust í þessu ljóðasafni? Eru það drengjaljóðin eða níðkvæðin, gegnsósa af karlmennsku? Nei, ekki þau.
Eldheit heteróerótík eins og í ljóði Ovidiusar um Corinnu með hvíta hálsinn í efnislitla náttkjólnum (bls. 31–32)? Ekki heldur.
Þýðingarnar sjálfar? Nei, þótt þær séu skemmtilegar og, að því ég best fæ séð frá mínu sjónarhorni sem skil ekki staf í grísku, vel gerðar. Mér fannst við fyrstu sýn Þorsteinn nota fremur nútímalegt orðalag sem ég hélt að væri í mótsögn við aldur ljóðanna en þegar ég fór að kanna málið og leita að dæmum um þetta nútímaorðfæri fann ég fátt. Ég er helst á því að það sem orkaði á mig sem nútímalegt og óvenjulegt við þessar þýðingar hafi verið skortur á tepruskap. Þorsteinn notar einfaldlega orð eins og ríða, graður, píka, typpi og drusla; orð sem við erum ekki vön að sjá í gömlum ljóðum (eða ljóðum yfirhöfuð?) en eru líklega einmitt nákvæmar þýðingar á því sem ort var í upphafi.** Og það er vel.

Uppáhaldið mitt í þessari bók, og skyldi kannski engan undra, eru ljóðabrotin fjögur eftir Saffó; skáldkonuna sem bjó á eynni Lesbos á 7.–6. öld f. kr. Hún orti meðal annars ástarljóð til kvenna, sem hún er einna best þekkt fyrir, en þau hafa ekki verið til í íslenskum þýðingum nema hið svokallaða brot 31. Um það brot og þýðingasögu þess hefur Þorsteinn ritað grein sem birtist í greinasafni um hinsegin sögu sem er væntanlegt síðar á þessu ári.*** Ég ætla ekki að segja neitt um brot 31 – því þið eigið að lesa greinina þegar þar að kemur – annað en að það hefur orðið fyrir barðinu á hinu íslenska gagnkynhneigða og hómófóbíska regluveldi og þær samkynja ástir og þrár sem birtast í frumtextanum hafa í sumum tilfellum verið þurrkaðar út eða gerðar gagnkynhneigðar. Viðhorf þýðenda, samfélagsleg gildi á þeim tíma þegar texti er þýddur og aðferðir við þýðinguna hafa gríðarleg áhrif á viðtökur texta og hugmyndir lesenda um þá og höfunda þeirra og því er mjög mikilvægt að fá íslenskar þýðingar á ástarljóðum Saffóar sem leitast ekki við að fela að þau eru ort til kvenna.

Eitt af því áhugaverða við ljóð Saffóar er að þau eru aðeins varðveitt í brotum og stundum vantar inn í þau orð eða heilar línur, jafnvel margar, af því að sandormar nöguðu sig í gegnum papýrushandritin (sjá inngang að kaflanum um Saffó bls. 13). Það er fátt eins táknrænt og ormur sem étur ljóð eftir konu um kvennaástir – þetta er ritskoðun hins gagnkynhneigða feðraveldis í hnotskurn! En afleiðingarnar eru sem sagt þær að lesendur þurfa að nota ímyndunaraflið til að búa til það sem er horfið eða ósagt og það er alls ekkert slæmt – jafnvel enn betra. Í Mundu, líkami eru eyðurnar táknaðar með bilum, til dæmis í þessum lokalínum brots 94 (bls. 16):
og á mjúku rúminu
mjúku
svalaðirðu þrá þinni
og ekki finnst nokkur né nokkuð
hof
sem við heimsóttum ekki
eða laut dans
Dramatískari lok á ljóði eru vandfundin. Hvað gerist í lautinni? Eða milli hennar og dansins? ÉG VIL VITA MEIRA UM DANSINN!
Í ástarljóðum Saffóar er enginn eltingaleikur í gangi eða (augljóst) valdamisræmi milli ljóðmælanda og ástarviðfangsins heldur tjá þau heita ástarþrá og oft söknuð vegna þess að konan sem ljóðmælandi þráir er ekki lengur nálægt henni. Og það er verulega magnað að lesa 2700 ára gamlan texta sem fjallar um djúpar tilfinningar sem við þekkjum svo vel og getum tengt við.
Þráin skók hjartað
í brjósti mér, eins og vindur sem skellur á fjallaeik.
(Saffó, brot 47, bls. 15)
* Ég ætla ekki að þykjast vita sérlega mikið um forngríska eða -rómverska menningu eða sögu. Það sem ég tel mig vita um drengjaástir að fornu hef ég til dæmis úr síðari tveimur bindum Michel Foucaults um sögu kynverundarinnar, The Use of Pleasure (L’Usage des plaisirs, 1984) og The Care of the Self (Le Souci de soi, 1984), og bókinni One Hundred Years of Homosexuality and Other Essays on Greek Love (1990) eftir David Halperin.
** Ég ítreka að þegar kemur að þýðingunum hef ég ekki hugmynd um um hvað ég er að tala þar sem ég skil ekki grísku. Þorsteinn hefði alveg eins getað ort þetta allt sjálfur, otað að mér grískum Eurovision-söngtexta til samanburðar og ég hefði samt trúað því að hann hefði verið að þýða forngrísk ljóð. Þetta er spurning um traust, gott fólk.
*** Greinasafnið um hinsegin sögu verður gefið út af Sögufélagi og er ritstýrt af Írisi Ellenberger, Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur og undirritaðri. Það verður fyrsta greinasafnið á sviði hinsegin rannsókna í hugvísindum.