Merkjaskipt greinasafn: saga

Mundu, líkami

Í lok október varð ég fyrir hýrri hugljómun og ákvað að hella í mig kaffi og vekja Kynvillta bókmenntahornið til lífsins. Síðan hefur ekkert gerst á þessum vettvangi en ég hef þó drukkið ótæpilega mikið kaffi og skrifað ýmislegt annað. Ég er líka komin á þá skoðun að það sé óáhugavert og stundum óþægilegt að taka þátt í umræðu um bókmenntir á Íslandi í nóvember og desember. Jólabókaflóðið er ágætt að mörgu leyti en álagið og áreitið á útgefendur, höfunda, gagnrýnendur og lesendur þessar fáu vikur er fáránlegt og áherslan á stjörnugjöf og söluvænlegar setningar í ritdómum sem hægt er að slá upp í auglýsingum og á bókakápum fer vægast sagt í taugarnar á mér. Það er því ekki leti sem hefur valdið þögninni á þessari síðu heldur miklu fremur mótþrói og fýla, þótt ég búist reyndar ekki við að neinn hafi áhuga á að vitna í þessi amatöraskrif mín. En nú er kominn janúar, sem betur fer, og við getum farið að tala um eitthvað skemmtilegt.


mundulikamicopy
Mundu, líkami. Óritskoðuð grísk og rómversk ljóð – Útgefandi: Partus, 2016 – Þýðandi: Þorsteinn Vilhjálmsson

Mundu, líkami er safn þýðinga Þorsteins Vilhjálmssonar á grískum og rómverskum ljóðum sem fæst hafa birst áður á prenti á íslensku, enda eru þau þess eðlis að þau hafa oft orðið ritskoðun að bráð. Þetta eru, með öðrum orðum, ljóð sem hafa á síðustu tveimur árþúsundum og rúmlega það gjarnan þótt ósæmileg og höfundunum til ósóma. Sum eru níðkvæði, önnur hugljúf ástarljóð og nokkrum er líklega best lýst sem gredduljóðum en öll eiga þau sameiginlegt að fjalla opinskátt um ýmsar hliðar kynferðislífsins – til dæmis samkynja ástir og kynlíf.

Ég heyrði og sá Þorstein lesa upp úr bókinni tvisvar fyrir jól og skemmti mér mjög vel. Í fyrsta lagi þekkir hann ljóðin auðvitað inn og út (hoho), kann að taka listrænar, merkingarþrungnar pásur og hlær ekki þótt áheyrendur flissi eða frussi yfir dónaskapnum. Ég mæli sem sagt með Þorsteini og ljóðunum ef einhver ykkar vantar skemmtiatriði í afmæli eða við önnur tækifæri – það mun ekki klikka.

Í öðru lagi heillaðist ég af því hvað þetta er hressandi og gott framtak: að þýða eldgömul dónaljóð eftir grísk og rómversk skáld sem sum hafa verið tekin í kanónutölu, kannski ekki síst af því að það hefur tekist að ýta dónaljóðunum til hliðar og fela þau fyrir heiminum. Þorsteinn byrjaði að þýða ljóðin þegar hann var að kenna í Menntaskólanum í Reykjavík og fannst skorta áhugavert lesefni á íslensku handa nemendunum. Í stað þess að gefast upp og nota það sem til var þýddi hann einfaldlega það sem hann vildi kenna. Þetta er algjör snilldarhugmynd – ég get ekki ímyndað mér betri aðferð til að vekja áhuga syfjaðra menntaskólanema á klassískum fræðum og forngrískri og rómverskri ljóðlist. Ímyndið ykkur drungalegan mánudagsmorgun og kennslan hefst á þessu:

Þú þrýstir rassinum sem allir voru að glápa á upp að veggnum.
Elsku drengur! Af hverju freistarðu steinsins? Hann getur ekkert gert.

(Straton frá Sardis, AG 12.213, bls. 45)

Í þriðja lagi er þessi bók svo auðvitað áhugaverð í mínum augum af því að þar birtast á íslensku ljóð um kvenna- og drengjaástir sem eru ómetanlegar heimildir um samkynja ástir og kynferðislíf til forna – hugmyndaheim sem er gjörólíkur samtímahugmyndum okkar um samkynhneigð en hefur engu að síður haft mjög mikil áhrif á það hvernig við hugsum um kynferðisleg samskipti fólks. Sögu- og menningarlegt gildi þessara þýðinga er því mikið.*

1024px-wallpaintingtomb_paestum_italy_greekcolony_sm
Veggmynd í forngrísku grafhýsi í bænum Paestum á Ítalíu

Í inngangi að bókinni fjallar Þorsteinn stuttlega um drengjaástir að fornu og þann grundvallarmun sem var á þeim og ástum karla til kvenna. Samkvæmt hefðum og hugmyndaheimi þessa tíma voru ástir fullorðinna karla og ungra drengja samþykktar og í raun upphafnar en um þessi sambönd giltu mjög ákveðnar reglur, tengdar til dæmis aldri og samfélagslegri stöðu, og þau eru ekki nema að hluta til sambærileg við samkynhneigð og samkynja sambönd 20. og 21. aldar. Um ljóðahefðir tengdar ástum karlskálda til drengja og kvenna segir Þorsteinn (bls. 10):

Drengjaástirnar eru okkur afar framandi í dag, en þær voru hefðbundinn hluti hins forna feðraveldis og fóru fram eftir ákveðnum óskrifuðum leikreglum sem sumar eru kunnuglegar, aðrar ekki. Karlskáldið átti að eltast við sér yngri dreng, sem var æsandi og fagur eingöngu á hinu stutta tímabili frá kynþroska og fram að skeggvexti. Drengurinn átti að láta elta sig en ekki láta of auðveldlega undan skáldinu; það var til vitnis um lauslæti. Skáldaástir karla til kvenna fylgdu öðrum reglum. Þær beindust að konu sem átti að vera gift öðrum og fjölluðu ljóðin jafnan um þau brögð og brellur sem þurfti til að leyna sambandinu.

Á öðrum tímum og í samfélögum þar sem kynferðisleg sambönd karla eru litin hornauga, ólögleg eða fordæmd hafa grísku og rómversku ljóðin um drengjaástirnar gjarnan orðið ritskoðun að bráð. Dæmi um það eru ljóð Catullusar frá 1. öld f.kr. en Þorsteinn greinir frá því að þeim hafi oft verið ýtt til hliðar í rannsóknum á verkum hans – til dæmis þessu hugljúfa standpínuljóði um unglinginn Juventinus (bls. 25):

48.

Hunangssæt augu þín, Juventinus –
ef mér væri leyft að kyssa þau enn oftar –
þrjúhundruðþúsund sinnum oftar –
ég held að ég yrði samt þá ekki fullsaddur.
Ekki einu sinni ef uppskera kossa okkar
yrði þykkari en fullþroska kornstönglar.

Það sækir óþægileg perralykt á við þennan lestur en samt er líka eitthvað hrífandi við drengjaástaljóðin. Kannski er það hin sögulega fantasía eða draumsýn sem hefur lengi fylgt forngrísku textunum; það er að segja sú staðreynd að ljóðin eru ort í tíma og rúmi sem er okkur fjarlægt og bera vitni um samfélag þar sem ástir karlmanna – af mjög ák800px-pederastic_courtship_louvre_ca3096_n2veðnu tagi, vissulega – voru upphafnar. Sem aftur minnir okkur á að tímarnir breytast og mannfólkið með og það sem einu sinni var litið jákvæðum augum gæti sem best fallið aftur í kramið í framtíðinni þótt það sé fordæmt í augnablikinu. Grísku drengjaástirnar voru, og eru sjálfsagt enn, söguleg fyrirmynd karla sem löðuðust að öðrum körlum og
þangað hafa margir leitað til að fá staðfestingu á því að tilfinningar þeirra og kynlíf eigi rétt á sér. Upphafning þeirra hefur án nokkurs vafa ýtt undir vafasöm sambönd fullorðinna karla og ungra drengja og misnotkun líka – ég ætla ekki að gera tilraun til að líta framhjá því – en hún hefur líka verið haldreipi í hómófóbískum, einmanalegum heimi. Og þá er ég komin í heilan hring með þessa umræðu. Ætli niðurstaðan sé ekki sú að það megi bæði hrífast og hrylla sig yfir sama ljóðinu?

Næsta ljóð eftir Catullus sem birtist í Mundu, líkami er allt annars eðlis og dregur skýrt fram andstæðurnar milli þess sem var samfélagslega samþykkt og þess sem var fordæmt eða niðurlægjandi í samskiptum karla. Það hefst á eftirfarandi línum (bls. 26):

16.

Ég mun ríða ykkur í munn og rass,
Aurelius undirlægja og Furius rassálfur,
sem hélduð – út frá ljóðunum mínum,
því þau eru eitthvað væmin –
að ég væri einhvers konar pervert.

Hér er um að ræða hótanir en ekki ástarorð; kvæðið er níð þar sem ljóðmælandi lýsir því hvernig hann ætlar að niðurlægja andstæðinga sína eða óvini með því að serða þá. Þótt drengjaástir væru samþykktar var mikil niðurlæging fólgin í því fyrir fullorðinn karlmann að verða uppvís að því að hafa verið riðið af öðrum karlmanni. Sá sem var „gerandinn“ í slíkum aðstæðum var aftur á móti í annarri stöðu og ekki endilega bendlaður við öfuguggahátt; til forna og á miðöldum gat það verið til marks um vald og karlmennsku að serða annan karl. Þessi tvö ljóð Catullusar sýna því hversu miklu máli samhengið skiptir þegar um er að ræða samkynja kynlíf, ástir og þrár að fornu.

Með hvað er ég ánægðust í þessu ljóðasafni? Eru það drengjaljóðin eða níðkvæðin, gegnsósa af karlmennsku? Nei, ekki þau.

Eldheit heteróerótík eins og í ljóði Ovidiusar um Corinnu með hvíta hálsinn í efnislitla náttkjólnum (bls. 31–32)? Ekki heldur.

Þýðingarnar sjálfar? Nei, þótt þær séu skemmtilegar og, að því ég best fæ séð frá mínu sjónarhorni sem skil ekki staf í grísku, vel gerðar. Mér fannst við fyrstu sýn Þorsteinn nota fremur nútímalegt orðalag sem ég hélt að væri í mótsögn við aldur ljóðanna en þegar ég fór að kanna málið og leita að dæmum um þetta nútímaorðfæri fann ég fátt. Ég er helst á því að það sem orkaði á mig sem nútímalegt og óvenjulegt við þessar þýðingar hafi verið skortur á tepruskap. Þorsteinn notar einfaldlega orð eins og ríða, graður, píka, typpi og drusla; orð sem við erum ekki vön að sjá í gömlum ljóðum (eða ljóðum yfirhöfuð?) en eru líklega einmitt nákvæmar þýðingar á því sem ort var í upphafi.** Og það er vel.

saffo
Saffó

Uppáhaldið mitt í þessari bók, og skyldi kannski engan undra, eru ljóðabrotin fjögur eftir Saffó; skáldkonuna sem bjó á eynni Lesbos á 7.–6. öld f. kr. Hún orti meðal annars ástarljóð til kvenna, sem hún er einna best þekkt fyrir, en þau hafa ekki verið til í íslenskum þýðingum nema hið svokallaða brot 31. Um það brot og þýðingasögu þess hefur Þorsteinn ritað grein sem birtist í greinasafni um hinsegin sögu sem er væntanlegt síðar á þessu ári.*** Ég ætla ekki að segja neitt um brot 31 – því þið eigið að lesa greinina þegar þar að kemur – annað en að það hefur orðið fyrir barðinu á hinu íslenska gagnkynhneigða og hómófóbíska regluveldi og þær samkynja ástir og þrár sem birtast í frumtextanum hafa í sumum tilfellum verið þurrkaðar út eða gerðar gagnkynhneigðar. Viðhorf þýðenda, samfélagsleg gildi á þeim tíma þegar texti er þýddur og aðferðir við þýðinguna hafa gríðarleg áhrif á viðtökur texta og hugmyndir lesenda um þá og höfunda þeirra og því er mjög mikilvægt að fá íslenskar þýðingar á ástarljóðum Saffóar sem leitast ekki við að fela að þau eru ort til kvenna.

saffohandrit
Brot úr ljóði eftir Saffó, varðveitt á Altes Museum Berlin. Mynd: Masur – CC BY-SA 2.5, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=2648372

Eitt af því áhugaverða við ljóð Saffóar er að þau eru aðeins varðveitt í brotum og stundum vantar inn í þau orð eða heilar línur, jafnvel margar, af því að sandormar nöguðu sig í gegnum papýrushandritin (sjá inngang að kaflanum um Saffó bls. 13). Það er fátt eins táknrænt og ormur sem étur ljóð eftir konu um kvennaástir – þetta er ritskoðun hins gagnkynhneigða feðraveldis í hnotskurn! En afleiðingarnar eru sem sagt þær að lesendur þurfa að nota ímyndunaraflið til að búa til það sem er horfið eða ósagt og það er alls ekkert slæmt – jafnvel enn betra. Í Mundu, líkami eru eyðurnar táknaðar með bilum, til dæmis í þessum lokalínum brots 94 (bls. 16):

og á mjúku rúminu
mjúku
svalaðirðu þrá þinni
og ekki finnst nokkur        né nokkuð
hof
sem við heimsóttum ekki
eða laut         dans

Dramatískari lok á ljóði eru vandfundin. Hvað gerist í lautinni? Eða milli hennar og dansins? ÉG VIL VITA MEIRA UM DANSINN!

Í ástarljóðum Saffóar er enginn eltingaleikur í gangi eða (augljóst) valdamisræmi milli ljóðmælanda og ástarviðfangsins heldur tjá þau heita ástarþrá og oft söknuð vegna þess að konan sem ljóðmælandi þráir er ekki lengur nálægt henni. Og það er verulega magnað að lesa 2700 ára gamlan texta sem fjallar um djúpar tilfinningar sem við þekkjum svo vel og getum tengt við.

Þráin skók hjartað
í brjósti mér, eins og vindur sem skellur á fjallaeik.

(Saffó, brot 47, bls. 15)


* Ég ætla ekki að þykjast vita sérlega mikið um forngríska eða -rómverska menningu eða sögu. Það sem ég tel mig vita um drengjaástir að fornu hef ég til dæmis úr síðari tveimur bindum Michel Foucaults um sögu kynverundarinnar, The Use of Pleasure (L’Usage des plaisirs, 1984) og The Care of the Self (Le Souci de soi, 1984), og bókinni One Hundred Years of Homosexuality and Other Essays on Greek Love (1990) eftir David Halperin.

** Ég ítreka að þegar kemur að þýðingunum hef ég ekki hugmynd um um hvað ég er að tala þar sem ég skil ekki grísku. Þorsteinn hefði alveg eins getað ort þetta allt sjálfur, otað að mér grískum Eurovision-söngtexta til samanburðar og ég hefði samt trúað því að hann hefði verið að þýða forngrísk ljóð. Þetta er spurning um traust, gott fólk.

*** Greinasafnið um hinsegin sögu verður gefið út af Sögufélagi og er ritstýrt af Írisi Ellenberger, Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur og undirritaðri. Það verður fyrsta greinasafnið á sviði hinsegin rannsókna í hugvísindum.

Sölvi og álfarnir

 

Sökum anna er bókmenntahorn dagsins bæði seint á ferðinni og endurunnið en ég fékk leyfi til að endurbirta hér grein sem ég skrifaði fyrir hið merka rit Spássíuna fyrir þremur árum síðan. Ástæðan fyrir því að þessi grein, eða efni hennar, leitaði á mig núna var umræða um álfa og álfakynlíf sem spratt upp úr kennslustund um vistrýni með íslensku- og bókmenntafræðinemum í síðustu viku (allt mjög eðlilegt við það). En hér er sem sagt um að ræða umfjöllun um eina hómóerótískustu senu sem ég hef komið auga á í íslenskum bókmenntatextum – og að sjálfsögðu er annar aðilinn álfur.

Höfundarréttur á þessari grein tilheyrir Spássíunni og allar tilvísanir skulu vísa í þá útgáfu, hausthefti 2012, bls. 22–25.

– – – – – –

Það var sem undraeldur brynni: Um mögulega hinsegin skáldsögu

Íslensk skáldverk sem kalla má hinsegin bókmenntir eru sundurleitur og illa afmarkaður hópur.[1] Á síðustu árum hefur umfjöllunarefnið orðið æ algengara en fátt er aftur á móti vitað um hinsegin bókmenntir á íslensku fyrir 1970. Það þýðir þó ekki að þær séu ekki til. Ástæðurnar fyrir þögninni sem ríkir um þær eru margar; umræðuefnið var tabú, erfitt var að fá gefnar út bækur um efnið og höfundar þurftu því ýmist að gefa út bækur undir dulnefni,[2] fela viðfangsefnið milli línanna – eða hreinlega sleppa því að skrifa um það. Ef þeir skrifuðu of opinskátt um samkynja ástir og þrár áttu þeir á hættu að vera fordæmdir eða, sem var jafnvel líklegra, þaggaðir. Allt veldur þetta því að telja má líklegt að í íslenskum bókahillum og kössum leynist bækur sem hingað til hafa ekki verið taldar hinsegin en eru það samt.

Eitt umhugsunarefnið varðandi leitina að hinsegin bókmenntum tengist þeim mun sem er á samkynhneigð í nútímaskilningi og þeim hugmyndum sem fólk hafði um kynlíf og ástir fólks af sama kyni fyrr á öldum og fram á 20. öld. Eldri textar, sem nútímalesanda finnst augljóst að fjalla um samkynja ástir, þurfa ekki að hafa verið skrifaðir með slíkt í huga. Við getum því staðið frammi fyrir því að hafa bók í höndunum sem augljóslega fjallar um samkynja ástir í nútímaskilningi en gerir það kannski ekki ef litið er til ritunartímans og þeirrar bókmenntahefðar sem textinn er skrifaður inn í. Hér verður fjallað um eina slíka skáldsögu.

 

Undraeldur

„„Viltu þá yfirgefa mig?“ spurði hann með dýpri tilfinningu en Kjartan hafði grunað, að hann ætti. „Nei, mig langar líka til að vera með þjer, því jeg elska þig, bróðir, meir en nokkurn annan í heiminum […].“ Þá greip Ísvaldur í sárri hugaræsingu utan um Kjartan, og þeir fjellust í faðma, og Kjartan grjet heitum tárum, sem hrundu niður á brjóst Ísvaldi, og hann hjelt honum föstu taki og þrýsti löngum og heitum kossi á varir hans. En þá sleit Ísvaldur sig lausan og stóð eins og agndofa. Hann var eins og sá, sem algjörlega er frá sjer numinn, og yfir andlit hans brá fagnaðarljóma, og óvenjulegur roði kom á vanga hans. Hann tók báðum höndum um brjóst sjer og kallaði upp yfir sig: „Hvað er þetta! Hvað er þetta! Það er eins og sjóðheitur straumur læsi sig um mig allan! Og það er eitthvað, sem berst svo hræðilega um hjerna inni! Og þó líður mjer svo vel.“ Hann stóð grafkyrr, og það var sem undraeldur brynni úr augum hans. „Hvað er þetta! Ætli það sje dauðinn?“[3]

Þessi sena er vissulega bæði dramatísk og hómóerótísk. Vinirnir eru í uppnámi, aðskilnaður er yfirvofandi en um leið og samband þeirra verður líkamlegt birtir til í huga annars þeirra, ástin/girndin flæðir um æðar hans og hann reynir að átta sig á þessum óvæntu tilfinningum sem hann hefur ekki fundið fyrir áður, í það minnsta ekki svo greinilega. Flestir lesendur koma væntanlega auga á hvort tveggja ást og líkamlega þrá milli þessara tveggja karla og flest bendir til þess að þessi texti fjalli um ástir homma. Málið er þó ekki svo einfalt.

serafrikriksegirfra

Sagan um Sölva

Textinn sem hér um ræðir er tekinn úr skáldsögunni Sölvi (1947–1948) eftir séra Friðrik Friðriksson (1868–1961), æskulýðsfrömuð og einn áhrifamesta og virtasta Íslending fyrri hluta 20. aldar.[4] Séra Friðrik var hámenntaður maður, kennari og prestur, og hann helgaði líf sitt félagsstarfi fyrir drengi og unga menn. Hann stofnaði Kristilegt félag ungra manna (KFUM) árið 1899 og raunar einnig Kristilegt stúlknafélag sama ár, sem síðar varð KFUK. Út frá unglingastarfi KFUM stofnaði hann Knattspyrnufélagið Val árið 1911 og seinna átti hann upptök að sumarbúðastarfi, stofnun fyrsta karlakórsins á Íslandi, skátahreyfingar, lúðrasveitar, taflfélags og fleira. Hann var afar virtur og vinsæll maður og var meðal annars sæmdur stórkrossi Hinnar íslensku fálkaorðu.

Sagan um Sölva varð til þegar Friðrik vantaði fundarefni handa unglingadeild KFUM. Í eftirmála að skáldsögunni segist hann hafa skrifað fyrsta kaflann fyrir fund í byrjun nóvember 1926 og lesið kafla á hverjum fundi þar til í febrúar 1930. Hann segist aldrei hafa skipulagt hana fram í tímann og að hann hafi verið jafnspenntur fyrir framhaldinu og drengirnir. Skáldsagan ber þess glögg merki að hafa orðið til á þennan hátt; byggingin er lausleg og útúrdúrar margir, enda sagðist séra Friðrik aldrei hafa ætlast til þess að hún kæmi út.[5] Margir Íslendingar þekktu söguna um Sölva því vel áður en hún kom út og biðu þess með óþreyju að hún birtist á prenti, enda seldist fyrra bindið upp á örstuttum tíma fyrir jólin 1947.

Sölvi er söguleg skáldsaga og gerist á 18. öld. Þar segir frá Sölva, ungum munaðarlausum dreng sem finnst nær dauða en lífi á flótta frá vondum húsbændum og er tekinn í fóstur af góðhjörtuðum manni og syni hans í Kaldárseli, nálægt Hafnarfirði. Sagan fylgir honum fram á fullorðinsár en Sölvi fer í vinnumennsku norður í Skagafjörð þar sem hann finnur móðurfólk sitt, er styrktur til náms, eignast jörð og verður trúnaðarsendimaður biskupsins á Hólum. Hann er loks sendur í nám til Danmerkur, ferðast vítt og breitt um Evrópu og í ljós kemur að hann er hvorki meira né minna en sonur dansks greifa. Sölvi er þannig gerður að allir elska hann og vilja hjálpa honum; hann er óskaplega næmur ungur maður, hrífst af fallegri náttúru og er trúr öllum kristilegum siðferðisgildum. Hann breytir alltaf rétt, fyrirgefur óvinum sínum, er góður við alla, bjargar oftar en ekki fólki úr lífsháska, handsamar glæpamenn og tekur á áfengisvandamáli rektorsins á Hólum, svo fátt eitt sé nefnt. Sölvi er þannig afar dæmigerð söguhetja drengjabóka frá fyrri hluta 20. aldar: fullkomin fyrirmynd ungra drengja og tekst allt sem hann tekur sér fyrir hendur, en er engu að síður einsleitur – og fremur leiðinlegur – karakter.

 

Ástir Sölva

Greinilegt er að Sölvi hefur mun meiri áhuga á körlum en konum og hið sama má segja um söguhöfund skáldsögunnar, því sárafáar konur eru nefndar á þeim 700 blaðsíðum sem skáldsagan telur og þær hafa lítil áhrif á gang mála eða Sölva sjálfan. Sölvi á aftur á móti náinn vin, Sigurð, en þeir deila rúmi, ganga í fóstbræðralag að fornum sið og eru saman öllum stundum áður en Sölvi fer til Danmerkur í skóla. Í upphafi seinna bindis er Sölvi orðinn fullorðinn og kemur aftur heim til Íslands en þá kemst hann að því að Sigurður hefur snúist gegn honum, logið upp á hann og gifst heitkonu hans, Steinunni. Ekki nóg með það heldur kemur Sigurður af stað orðrómi um að Sölvi sé göldróttur, Sölvi verður smám saman óvinsæll og ofsóttur og að lokum kærður fyrir morð. Að lokum sannast þó sakleysi hans og þeir Sigurður sættast fullum sáttum.

Samband Sölva og Sigurðar er annar af tveimur meginspennuvöldum í skáldsögunni[6] og í raun eins upp byggt og sambönd gagnkynja para í hefðbundnum ástarsögum: parið er ástfangið, misskilningur eða rógur verður til að þeim sinnast þótt ástin hverfi aldrei og að lokum kemst sannleikurinn upp á yfirborðið og parið sameinast á ný. Sambönd Sölva og Sigurðar við konur eru aftur á móti fá og fyrirferðarlítil og mun tilfinningasnauðari en vinátta fóstbræðranna. Sölvi og Steinunn tala saman í örfá skipti áður en hann fer út og heitbindast án þess að nokkur snerting hafi átt sér stað. Eftir að Steinunn giftist Sigurði er Sölvi aldrei við kvenmann kenndur og sýnir í raun engan áhuga á konum þar til hann hittir barónsdótturina Agnesi sem hann er trúlofaður í sögulok. Innilegustu samskipti Sölva og Agnesar sem sagt er frá eru þó aðeins eitt faðmlag og samtöl en engir kossar.

Þegar Sölvi er á heimleið eftir skólavistina í Danmörku er Sigurður honum efstur í huga en honum virðist vera nokkuð sama um Steinunni. Þegar hann fréttir svik Sigurðar verður hann ekki reiður heldur sorgmæddur, þráir ekkert heitar en að þeir verði vinir á ný og segir meðal annars við vin sinn:

„Jeg elskaði þig sem drengur heitar en hægt er að elska bróður. Þú varst upphaf hamingju minnar. Þú varst mjer það, sem Jónatan var Davíð, meir mat jeg vináttu þína en konuást.“[7]

Þegar þeir loksins ná sáttum eftir langa mæðu, dómsmál og harkaleg slagsmál, eru tilfinningarnar sterkar:

„Sölvi settist niður og tók höfuð Sigurðar og lagði það upp að sjer. Hann strauk með hendinni um enni hans, og í strokunum lá nákvæmni og ástúð næstum því móðurlegra atlota. Þeir voru í þessum sömu skorðum nokkra stund alveg þegjandi. Hönd Sölva hvíldi ljett á enni Sigurðar, og inni fyrir ómuðu ótöluð orð: „Bróðir minn, vinur minn!“ Báðir voru eitthvað svo undur sælir, án þess að geta gjört sjer grein fyrir tilfinningum sínum. Þeir reyndu ekki til þess einu sinni. […] Loks um miðaptan stóðu þeir upp og tókust í hendur fast og innilega; þeir horfðust í augu, og svo lagði Sölvi hendur um háls Sigurði, og þeir föðmuðust og kysstust bróðurkossi, hinum fyrsta síðan þeir voru unglingar.“[8]

Samband fóstbræðranna er því bæði tilfinningaþrungið og líkamlegt – og gerólíkt samböndum þeirra við konur. Áður en sú ályktun er dregin að Sölvi og Sigurður séu samkynhneigðir er þó nauðsynlegt að glöggva sig á hugmyndum um rómantíska vináttu karla.

 

Rómantísk karlavinátta

Kossar, faðmlög og önnur líkamleg atlot milli karla hafa ekki alltaf verið tengd við samkynhneigð eða kynvillu og í raun er mjög stutt síðan slíkt þótti eðlilegt. Bandaríski sagnfræðingurinn Anthony Rotundo hefur fjallað um rómantíska vináttu karla í Bandaríkjunum á 19. öld og segir að náin – og oft líkamleg – vináttusambönd ungra karla hafi meðal annars þjónað því hlutverki að móta sjálfsmynd þeirra og búa þá undir fullorðinsárin. Þessi rómantíska vinátta átti aftur á móti að vera tímabundin og ljúka þegar mennirnir giftust.[9] Náin og rómantísk vinátta kvenna sem bjuggu jafnvel saman var einnig lengi vel látin óátalin, líkt og meðal annars má lesa um í bók fræðikonunnar Lillian Faderman, Surpassing the Love of Men (1985).

Rotundo segir ýmsa þætti hafa valdið því að náin vináttusambönd karla voru svo algeng á 19. öld en einnig hafi margs konar menningar- og samfélagslegar breytingar orðið undir lok aldarinnar og valdið því að ungir menn sneru sér í auknum mæli til ungra kvenna með tilfinningar sínar og innileika. Eitt af því sem þar skipti máli, segir Rotundo, var orðræðan um samkynhneigð sem hluta af sjálfsmynd og persónuleika sem varð til á síðari hluta 19. aldar. Áður voru hugmyndir um kynvillu fyrst og fremst bundnar við verknaðinn, það er kynmök, en ekki tilveru einstaklingsins í stærra samhengi. Eftir þetta segir Rotundo að rómantísk vináttusambönd karla hafi átt í vök að verjast:

Eftir þessar breytingar á hugsunarhætti var samkynhneigð ekki lengur sett í samband við verknað heldur persónuleika og félagslega sjálfsmynd. Verknaðurinn, einstaklingurinn og sjálfsmyndin var fordæmd og flestir karlmenn reyndu að forðast þetta allt. Hugmyndin um að kyssa annan karlmann eða deila rúmi með honum varð ógnvænleg og hið rómantíska tungumál karlavináttunnar dó út. [10]

Rotundo tekur fram að náin vinátta karla hafi að sjálfsögðu ekki horfið með 19. öldinni, heldur sú tegund sambanda karla sem hann fjallar um undir heitinu „rómantísk vinátta“, það er vinátta sem tjáð er með ástúðlegum orðum og loforðum um tryggð, gefur undir fótinn möguleikanum um líkamlega nánd og veitir öryggi á uppvaxtarárunum.[11] Sömuleiðis segir Faderman að um og upp úr fyrri heimsstyrjöld hafi konur hætt að geta tjáð opinberlega ást sína á öðrum konum.[12]

Hið nána samband Sölva og Sigurðar er nokkuð dæmigert 19. aldar rómantískt vináttusamband, þótt sagan eigi að gerast á 18. öld en sé skrifuð á 20. öld. Orðræðan um samkynhneigð er hvergi nærri og ekkert óeðlilegt virðist vera við kossa og atlot karlanna tveggja, hvorki innan söguheims skáldsögunnar né í raunheiminum á útgáfutímanum, því sögunni var eins og áður segir mjög vel tekið og aldrei leiddar að því líkur að um nokkuð ósiðlegt væri að ræða. Báðir giftast þeir konum og hefja gagnkynhneigt fjölskyldulíf og þótt það komi ekki fram má telja líklegt að þeir segi skilið við hið rómantíska samband. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að áhugi þeirra á konum er hverfandi og hómóerótíkin er vissulega til staðar í sögunni.

 

Hómóerótík

Samskipti Kjartans og Ísvaldar sem vitnað var til fremst í greininni eru úr sögu sem Sölvi semur og segir gestum í jólaboði þegar hann er unglingur. Sagan fjallar um smaladrenginn Kjartan sem villist í stórhríð og er bjargað af ungum, karlmannlegum manni sem fer með hann í stóra höll. Ungi maðurinn reynist vera álfaprins og heita Ísvaldur og þeir Kjartan verða perluvinir. Álfadrottningin, móðir Ísvalds, fagnar komu Kjartans og segist hafa seitt hann til sín því hún vilji fræðast um það sem álfafólkið vantar, nefnilega gleðina sem fylgir kristinni trú og því að hafa sál. Hún vill að Ísvaldur öðlist þessa kristilegu gleði og biður Kjartan að uppfræða hann, sem hann og gerir. Hin dramatíska kveðjustund á sér stað þegar Kjartan vill fara til aftur mannabyggða. Koss hans reynist gæða Ísvald sál og „mannsbjarma“ og þeir vinirnir fara saman til mannabyggða þar sem þeir búa saman í „afhýsi“ á meðan Ísvaldur lærir til prests. Að lokum flytur Ísvaldur þó aftur til álfabyggða og stofnar kirkju en þeir Kjartan eru ávallt vinir.

Boðskapur þessarar sögu er vitanlega fyrst og fremst kristilegur en engu að síður eru ástir Kjartans og Ísvaldar í forgrunni. Þeir búa reyndar ekki saman til æviloka en í sögunni eru tákn um eitthvað annað og meira en rómantíska vináttu, þar sem Kjartan umbreytir lífi Ísvalds með kossi sínum og flytur hann yfir í sinn heim. Álfasagan er „saga inni í sögu“ og líta má á hana sem frásagnarspegil eða mise en abyme, eins konar vasaútgáfu af skáldsögunni sjálfri og lykil að túlkun hennar.[13] Kjartan er líkt og Sölvi hin kristilega fyrirmynd en fær að vera mun erótískari og lifa í nánara ástarsambandi við ástvin sinn en Sölvi; hafa djúpstæð áhrif á líf hans og búa með honum á fullorðinsárum. Þótt Sölvi sé að draga sig saman við Steinunni í þessu sama jólaboði eru það ástir tveggja ungra manna sem fá rúm í sögu hans, sem styður þá tilgátu að álfafantasían sé birtingarmynd þeirra hómóerótísku tilfinninga sem ríkja í huga hans.

Í ljósi þessa er athyglisvert að í eftirmála segir séra Friðrik eftirfarandi um það hvernig sagan af Sölva varð til:

„Það fór sem rafstraumur gegnum mig, jeg sá drenginn fyrir mjer og sagði hátt við sjálfan mig: „Hvað í ósköpunum var drengurinn að gera uppi á háfjöllum um vetur, aleinn!“ Öll þreyta rann af mjer, og jeg sá allt í einu, að þetta gæti verið byrjun að æfintýri. Jeg gæti látið drenginn villast og komast að Helgafelli við Kaldá og finna þar höll álfakonungsins, uppljómaða, lenda þar í veizlu í dýrðlegum sölum. Jeg þóttist hafa fundið efni í álfasögu, sem jeg gæti lesið upp um kvöldið.“[14]

Álfasagan virðist því einnig hafa verið kjarni skáldsögunnar í huga höfundarins.

 

Hinsegin skáldsaga?

Er Sölvi hinsegin skáldsaga? Já og nei. Sú rómantíska vinaást sem þar birtist var ekki endilega tengd samkynhneigð á þeim tíma sem sagan var samin en engu að síður er ljóst að skáldsagan fjallar um samkynja ástir og þrár og að því leyti er hún hinsegin í nútímaskilningi. Séra Friðrik var sjálfur ókvæntur og barnlaus en ól upp tvo fóstursyni og eins og áður segir var hans ástríða í lífinu sú að vinna með drengjum og ungum mönnum. Af viðtölum við hann að dæma hafði hann lítinn sem engan áhuga á stúlkum og uppeldi þeirra og í minningargreinum sem birtust í Bókinni um Séra Friðrik (1968) er aldrei nefnt að hann hafi verið við kvenmann kenndur. Þó skal tekið fram að ekkert bendir heldur til þess að Friðrik hafi átt í kynferðislegu sambandi við neina af drengjunum sem hann starfaði með. Kannski var séra Friðrik samkynhneigður, kannski ekki – en áhugi hans virðist í það minnsta hafa legið hjá körlum fremur en konum og það birtist afar skýrt í skáldsögunni um Sölva.

Vel má velta því fyrir sér hvort eins nánu vináttusambandi tveggja karlpersóna og birtist í Sölva hefði verið tekið öðruvísi ef einhver annar en séra Friðrik hefði skrifað bókina. Hann var eins og áður segir einn virtasti maður Íslands og ímynd hins kristilega siðgæðis – og slíkt samfélagslegt vald hefur oftar en ekki dugað til að breiða yfir ýmislegt. Á sama tíma gaf Elías Mar út skáldsöguna Man eg þig löngum árið 1949, sem er mjög hreinskilin um samkynhneigð aðalpersónunnar. Bókin fékk lítil sem engin viðbrögð og viðfangsefnið var þagað í hel. Af því má dæma að íslenskt samfélag hafi ekki verið tilbúið til að viðurkenna eða ræða samkynhneigð í bókmenntum um miðja síðustu öld og því verður að telja líklegt að fáum hafi dottið í hug að ræða slíkt í tengslum við skáldsögu séra Friðriks. Sú þögn sem ríkti um hinsegin málefni langt fram eftir 20. öld veldur því að oft er fátt hægt að fullyrða en það er á ábyrgð bókmenntaáhugafólks 21. aldar að geta í eyðurnar og fylla þannig smátt og smátt inn í íslenska hinsegin bókmenntasögu.

– – – – – –

[1] Hér verður gengið út frá afar víðri skilgreiningu á hinsegin bókmenntum, það er að það séu bókmenntir sem fjalla á einhvern hátt um reynsluheim homma, lesbía, tvíkynhneigðra, transfólks eða annarra sem hafa kynvitund eða kynverund sem fellur ekki að hinu gagnkynhneigða regluveldi.

[2] Nýlega kom í ljós að ljóðabókin Kirkjan á hafsbotni, sem kom út árið 1959 undir höfundarnafninu Arnliði Álfgeir og inniheldur meðal annars ástarljóð til kvenna, er í raun eftir konu. Sjá: Ásta Kristín Benediktsdóttir. 2012. „Bókin sem kom út úr skápnum.“ Dagskrárrit Hinsegin daga í Reykjavík, bls. 16–18.

[3] Friðrik Friðriksson. 1947. Sölvi I. Bókagerðin Lilja, Reykjavík. Bls. 195.

[4] Höfundur vill þakka Þorvaldi Kristinssyni fyrir að benda henni á séra Friðrik og skáldsöguna Sölva, sem og yfirlestur og góð ráð.

[5] Friðrik Friðriksson. 1948. „Raunverulegur eptirmáli.“ Sölvi II. Bókagerðin Lilja, Reykjavík. Bls. 312–314.

[6] Hinn er óvissan um faðerni Sölva sem ekki gefst tækifæri til að fjalla nánar um hér.

[7] Friðrik Friðriksson. 1948. Sölvi II. Bókagerðin Lilja, Reykjavík. Bls. 30. Frá Jónatani og Davíð segir í Biblíunni í fyrri Samúelsbók en þeir voru afar nánir vinir og ýmsir hafa síðar bent á erótískar hliðar sambands þeirra. Þegar Oscar Wilde sat fyrir rétti árið 1895 og var spurður að því hver hún væri, „ástin sem ekki vogar að nefna nafn sitt“, svaraði hann: „[Það er] sú djúpa ást fullorðins manns til ungs manns, er var milli Davíðs og Jónatans, sú sem Plató grundvallaði heimspeki sína á og sem finna má í sonnettum Michelangelos og Shakespeares.“[7] Þótt Wilde hafi einungis dregið fram tilfinningaleg hlið þessarar forboðnu ástar er vitað mál að hún var í huga hans einnig erótísk. Hvort séra Friðrik hafði ummæli Wildes í huga skal ósagt látið en vísunin í Jónatan og Davíð styrkir þá túlkun að samband Sölva og Sigurðar sé erótískt.

[8] Sama rit, bls. 186–87.

[9] Á síðustu árum hefur nokkuð verið skrifað um rómantísk vináttusambönd íslenskra karla. Sjá t.d.: Sigrún Sigurðardóttir. 1998. „Tveir vinir. Tjáning og tilfinningar á nítjándu öld.“ Einsagan – Ólíkar leiðir. Ritstj. Erla Hulda Halldórsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon. Háskólaútgáfan, Reykjavík, bls. 145–169; Þorsteinn Antonsson. 1990. „Sveinaást Ólafs Davíðssonar.“ Vaxandi vængir. Aftur í aldir um ótroðnar slóðir. Fróði, Reykjavík, bls. 103–109; og Þorvaldur Kristinsson. 2009. „Loksins varð ég þó skotinn!“ Dagskrárrit Hinsegin daga í Reykjavík, bls. 29­–32.

[10] Rotundo, E. Anthony. 1989. „Romantic friendship. Male intimacy and middle-class youth in the Northern United States, 1800-1900.“ Journal of Social History, 23,1:1-25, hér bls. 20. Þýðing greinarhöfundar.

[11] Sama rit, bls. 21

[12] Faderman, Lillian. 1985. Surpassing the Love of Men. London, The Women’s Press Ltd, bls. 20.

[13] Ítarlega íslenska umfjöllum um frásagnarspegla sjá: Jón Karl Helgason. 2006. „Deiligaldur Elíasar.“ Ritið 6,3: 101–30.

[14] Friðrik Friðriksson. 1948. „Raunverulegur eptirmáli.“ Sölvi II. Bókagerðin Lilja, Reykjavík. Bls. 312.

Að búa eða búa ekki til homma

Fyrir nokkrum árum síðan var ég stödd á háskólaviðburði í Reykjavík og hitti mann sem spurði mig út í doktorsverkefnið, eins og gengur. Ég nefndi íslenskan miðaldatexta (sem varð þó á endanum ekki hluti af minni rannsókn) og að ég væri að skoða tvær karlpersónur og náið samband þeirra. Viðbrögðin sem ég fékk voru:

„Nú já, ætlarðu að fara að gera þá að hommum?“

Þessi athugasemd er lýsandi fyrir þá stöðu sem bókmenntarýnar sem skoða samkynja ástir og þrár í bókmenntaverkum eru oft í, það er að þurfa að velta fyrir sér hvort þeir eigi á hættu að verða gagnrýndir fyrir að oftúlka eða lesa „of mikið“ í verkin og í framhaldi af því hvort þeir séu jafnvel að móðga höfundinn eða minningu hans með því að bendla hann við samkynhneigð. Hér finnst mörgum mikilvægt að stíga varlega til jarðar en ég er á þeirri skoðun að það sé – eða ætti í það minnsta að vera – algjör óþarfi. Og ég skal segja ykkur af hverju.

Vinaást

Tökum sem dæmi ljóð eftir eitt virtasta skáld þjóðarinnar, Stephan G. Stephansson, sem Stephanssérfræðingurinn og öðlingurinn Viðar Hreinsson benti mér á. Ljóðið heitir „Frá æskudögunum“ og er ort árið 1882 þegar Stephan var 29 ára gamall og fluttur vestur um haf. Þar ávarpar ljóðmælandi æskuvin sinn sem hann hefur ekki séð lengi en saknar mjög. Hann fer fögrum orðum um vininn, traust hans og hreina sál og þær sterku tilfinningar sem hann ber í brjósti. „Langt er síðan nú við fundumst fyrst. / – Fyrri þú mér réttir vinarhendi, / svo er okkar ástasaga styzt, / elska þig sem bróður mér það kenndi, –“ segir hann og heldur áfram:

Screenshot 2015-10-09 09.12.58

(Andvökur, IV. bindi, 1958, bls. 148–152)

Stöldrum aðeins við hér og spyrjum nokkurra spurninga.


1) Eru ljóðmælandinn og vinur hans hommar?

Nei, það er hægt að fullyrða að þeir séu ekki hommar ef við göngum út frá því að samkynhneigð sé hugmynd og/eða orðræða sem er samfélags- og menningarlega mótuð frekar en eðlisþáttur mannsins sem hefur alltaf verið til. Þegar um er að ræða hugtök eins og samkynhneigð í sögulegu samhengi takast með öðrum orðum á, eins og svo oft, mótunarhyggja og eðlishyggja og um þetta er fólk alls ekki sammála. Mótunarhyggjan hefur þó undanfarið yfirleitt orðið ofan á, held ég að megi segja, meðal þeirra sem vinna á sviði hinsegin fræða og rannsókna og ég fylgi henni, sér í lagi kenningu Foucaults um að samkynhneigði einstaklingurinn hafi „fæðst“ eða orðið til í vestrænni orðræðu undir lok 19. aldar.

Ég skal reyna að orða þetta á mannamáli: Foucault og þeir sem honum fylgja líta svo á
að þótt fólk hafi stundað kynlíf með aðilum af sama kyni frá alda öðli varð hugmyndin um samkynhneigða einstaklinginn sem sérstaka „tegund“ af manneskju – sem sefur ekki bara hjá heldur hefur ákveðin persónueinkenni og sjálfsmynd og skilgreinir sig eða er skilgreind á ákveðinn hátt – ekki til fyrr en seint á 19. öld og hún breiddist mishratt út. Á Íslandi var hún ekki komin inn í hugarheim almennings fyrr en á 3. áratug 20. aldar í fyrsta lagi – líklega síðar. Þess vegna er mjög vafasamt að nota orð eins og samkynhneigð, hommi og lesbía um fólk og persónur fyrir þennan tíma, þar sem í því felst að þröngva hugmyndum og hugsunarhætti síðari hluta 20. aldar upp á fortíðina og það býður upp á misskilning og mistúlkun.

2) En þeir kyssast og faðmast og ljóðmælandinn segist elska vin sinn. Sýnir það ekki að þeir séu elskhugar?

Nei, ekki endilega. Kannski.

Við lifum í vestrænum heimi 21. aldar þar sem fólk er oftast flokkað sem gagnkynhneigt og samkynhneigt* þar sem hið fyrrnefnda er normið og hið síðarnefnda er í besta falli pínulítið öðruvísi og í versta falli óæskilegt, hættulegt eða ógeðslegt. Hómófóbía er hræðsla við samkynhneigð og hún felur í sér sterka þörf til að draga skýrar línur milli þess gagnkynhneigða og þess samkynhneigða, vegna þess að ef línurnar eru skýrar er minni hætta á að lenda „vitlausu megin“ og auðveldara að halda þeim samkynhneigðu í öruggri fjarlægð. Þessar línur snúast mikið til um að skilgreina hvað sé kynferðislegt og hvað ekki. Þess vegna gilda víða ákveðnar óskráðar reglur í samskiptum fólks af sama kyni. Mörgum karlmönnum finnst til dæmis óþægilegt eða rangt að kyssa vini sína, faðma þá alúðlega eða tjá þeim tilfinningar sínar – af því að þá eru þeir komnir hættulega nálægt línunni sem ekki má fara yfir án þess að vera talinn samkynhneigður.

Aftur á móti er hómófóbía ekki til (eða mun áhrifaminni) í heimi þar sem tvískiptingin í gagn- og samkynhneigð er ekki ríkjandi (eða jafnvel ekki til) og þar af leiðandi eru reglurnar um ásættanlega hegðun öðruvísi. Ef þú veist ekki að þú stendur á bjargbrún ertu ekki hrædd við að detta fram af, er það? Og þá er engin ástæða til að hegða sér á ákveðinn hátt til að forðast að detta. Að sama skapi má álykta að ljóðmælandinn í ljóði Stephans G. árið 1882 hafi ekki þurft að óttast að segja frá ást sinni eða kossum því það var lítil hætta á að hann yrði fordæmdur fyrir það. Það eru til mýmörg dæmi um ljósmyndir frá þessum tíma þar sem karlmenn stilla sér upp í mjög innilegum stellingum og þessar myndir benda til þess að reglurnar eða mörkin í samskiptum vina af sama kyni hafi verið aðrar en í dag.** Þá má færa rök fyrir því að það hafi ekki verið þörf á því að draga skýra línu á milli þess kynferðislega og þess ókynferðislega – milli elskhuga og „bara vina“ – því önnur hliðin á þessum peningi var ekki til í hugum fólks.

(Þessi mynd er úr bók eftir John Ibson, Picturing Men: A Century of Male Relationshipsin Everyday American Photography, 2006)

Það er sérlega áhugavert við lokalínurnar í erindinu sem ég vitnaði í hér að ofan að ljóðmælandinn tekur fram að kyn vinarins skipti máli hvað varðar hvernig hegðun þeirra er túlkuð. Hann segir sem sagt að ef vinurinn hefði verið kona hefðu kossar þeirra og faðmlög verið túlkuð sem ósiðlegt athæfi eða í það minnsta verið tilefni til slúðurs. Þetta styður að mínu mati þá kenningu að hugmyndin um tvo karla sem elskhuga hafi ekki verið möguleg í hugarheimi ljóðmælandans og þess vegna var ekki ástæða til að óttast hana.

Screenshot 2015-10-09 09.18.23Ekkert af ofangreindu útilokar hins vegar að ljóðmælandinn og vinurinn hafi verið elskhugar. Það er allt undir túlkun lesandans komið.

3) Er ég að oftúlka ljóðið ef ég segi að það fjalli um samkynja ást eða þrá?

Nei, ekki að mínu mati. Þótt ekki sé viðeigandi að tala um homma fyrr á öldum og við komumst að þeirri niðurstöðu að ljóðmælandinn og vinurinn hafi líklega verið „bara vinir“ og ekki elskhugar má samt sem áður vel tala um samkynja ást í þessu samhengi. Því það er það sem þetta er, ekki satt? Tveir karlar sem elska hvor annan.

Hugtakið samkynja félagsþrá*** (e. homosocial desire) sem Eve Kosofsky Sedgwick þróaði og setti fram í bókinni Between Men er hjálplegt í þessu samhengi. Hún lagði til að öll sambönd og tengsl aðila af sama kyni væru hugsuð út frá skala frekar en flokkum. Á öðrum enda skalans eru þá kynferðisleg tengsl (homosexual) og á hinum tengsl sem eru félagsleg en ekki kynferðisleg (homosocial). Öll þessi tengsl falla undir samkynja félagsþrá eða þrá fólks eftir samskiptum og samböndum við aðila af sama kyni. Ef unnið er út frá þessum hugmyndum er hægt að tala almennt um sambönd aðila af sama kyni án þess að skilgreina hvort þau séu kynferðisleg eða ekki. Það er nefnilega oftar en ekki sambandið sjálft sem er áhugavert en ekki hvort það er „bara vinátta“ eða „eitthvað meira“. Skiptir það til dæmis einhverju máli varðandi upplifun og túlkun lesandans á ljóði Stephans? Skiptir máli hvort þeir kysstust á munninn eða kinnina? Með tungu eða ekki? Hvort þeir struku hvor öðrum um vangann eða hvort þeir höfðu samfarir? Er ekki mun áhugaverðara að einblína á tilfinningarnar, söknuðinn, ástina, sektarkenndina, nándina, fjarlægðina?

Ég kýs að nota hugtakið eða orðalagið „samkynja ástir og þrár“ í svipuðum skilningi og Sedgwick talar um samkynja félagsþrá og ég geri ekki þá kröfu að þessar ástir og þrár séu kynferðislegar. Stundum er kynlífið hluti af rannsóknarefninu og stundum ekki en það á ekki að þurfa að vera atriðið sem sker úr um það hvort ákveðinn bókmenntatexti er valinn sem viðfangsefni eða ekki.

4) Ef ljóðið fjallar um samkynja ást, var Stephan G. þá hommi eða fyrir karlmenn?

Það ætti að vera óþarfi að svara þessari spurningu en þetta er engu að síður algeng hugsun. Svo höfum eitt á hreinu: það er engin bein eða sjálfgefin tenging milli umfjöllunarefnis ljóðs og skáldsins sjálfs. Það að ljóð fjalli um samkynja ástir gefur okkur ekki ástæðu til að draga ályktun um kynhneigð höfundarins. Það getur vakið upp hugsanir og vangaveltur, vissulega, og oft er tenging þarna á milli en ljóð eru ekki ævisögur. Ég hef enga ástæðu til að ætla að Stephan G. hafi verið fyrir karlmenn en það getur vel verið – það kemur bara málinu lítið sem ekkert við.

Lokaorð

Í fyrsta lagi: Bókmenntarýnar sem skoða hinsegin bókmenntir eru ekki að fara gera neina að hommum, því það er ekki á okkar færi (sem betur fer). Í öðru lagi: Hræðslan við að fjalla um samkynja ástir og þrár í bókmenntum og „oftúlka“ þær er að mínu viti sprottin af sama meiði og hómófóbía – gott ef hún er ekki bara ein tegund af hómófóbíu. Ég sé hins vegar enga ástæðu til að stíga varlega til jarðar þegar fjallað er um samkynja ástir og þrár í bókmenntum af þeirri einföldu ástæðu að það er ekkert að hræðast.

– – –

*Þetta er reyndar að breytast og hinsegin aktívismi er farinn að hafa þau áhrif að fólk er í auknum mæli flokkað í marga flokka en ekki bara tvo, þ.e. sú hugmynd að það séu ekki bara til tvær kynhneigðir heldur margar og að fólk eigi að fá að skilgreina sig sjálft er orðin útbreiddari en áður.

**Ég hef heyrt af mjög áhugaverðri lokaritgerð um kossa karlmanna á Íslandi í kringum 1900 sem verður unnin upp í grein von bráðar. Fylgist með.

***Þessi þýðing er til bráðabirgða en ekki fullmótuð. Aðrar tillögur eru vel þegnar.

Meðal þess lesefnis sem byggt er beint og óbeint á þessum pistli:

Foucault, Michel. The Will to Knowledge. La Volonté de savoir, 1976. Þýð. Hurley, Robert. The History of Sexuality. Vol. 1. London: Penguin, 1978.

Halperin, David M. One Hundred Years of Homosexuality and Other Essays on Greek Love. New York: Routledge, 1990.

Sedgwick, Eve Kosofsky. Between Men: English Literature and Male Homosocial Desire. New York: Columbia University Press, 1985.

Kirkjan á hafsbotni

Bók vikunnar á sér frekar dramatíska sögu. Hún er kristaltært dæmi um það að kynvilltar bókmenntir leynast mun víðar en við höldum, einmitt vegna þess að áratugum og öldum saman var hvorki samfélagslega samþykkt að lesa né skrifa bækur um ástir og þrár aðila af sama kyni og þess vegna voru þær mjög oft skrifaðar í felum, undir rós – eða undir dulnefni.

Kirkjan á hafsbotni

Ljóðabókin Kirkjan á hafsbotni barst óvænt inn á borð til mín, bókstaflega, morgun einn veturinn 2011 er ég sat svefndrukkin við eldhúsborðið hjá þáverandi tengdaforeldrum mínum og var að byrja að slafra í mig seríósi áður en ég hæfist handa við verkefni dagsins: að leita að fleiri textum til að setja á listann minn yfir íslenskar hinsegin bókmenntir. Þá rak ég augun í að Fréttablaðið var opið og búið var að draga hring utan um litla grein (það fór ekki framhjá neinum á þeim tíma við hvað ég var að fást; doktorsverkefni hafa jú tilhneigingu til að taka yfir heil heimili). Þetta var innsendur pistill frá manni að nafni Freyr Þórarinsson, sem hafði fundið sig knúinn til að bregðast við umfjöllun í sjónvarpsþættinum Kiljunni stuttu áður um ljóðabók sem kom út árið 1959 og var eftir óþekktan höfund sem skrifaði undir dulnefninu Arnliði Álfgeir. Í Kiljunni hafði komið fram að höfundur bókarinnar væri sennilega faðir Freys, Þórarinn Guðnason, en Freyr hafði aðra sögu að segja.

Screenshot 2015-09-29 21.14.58

Ég hafði aldrei heyrt um Kirkjuna á hafsbotni eða Arnliða Álfgeir en ýmsir sem eru betur að sér í ljóðasögu en ég hafa sagt mér að þeir hafi þekkt til ljóðanna. Enginn vissi þó hvert skáldið var og engum hafði dottið í hug að bókin væri kynvillt á nokkurn hátt – fyrr en Freyr skrifaði pistilinn í Fréttablaðið.

Í stuttu máli sagt kom í ljós þarna í desember fyrir tæpum fjórum árum síðan að Kirkjan á hafsbotni er að öllum líkindum skrifuð af konu en ekki karli eins og flestir höfðu gefið sér.  Arnliði Álfgeir er sem sagt dulnefni sem kona nokkur tók sér þegar hún ákvað að gefa út ljóðasafn sitt en treysti sér ekki til að koma fram undir réttu nafni, þar sem ljóðin eru mörg hver ástarljóð ort til konu og árið 1959 var slík ást ekki bara forboðin heldur líka ómöguleg í huga margra.

Sú vitneskja að ljóðskáldið sé kona breytir öllu varðandi það hvernig mörg ljóðanna eru lesin. Allt í einu hætta þau að vera ljúf og sakleysisleg ástar- og ástarsorgarljóð og verða „skápaljóð“ – í ljós kemur sársauki, þöggun og ýmiss konar angist sem tjáð er af konu sem aldrei gat afhjúpað hver hún var í raun og veru eða hverja hún elskaði. Um þetta og ýmislegt annað varðandi ljóðin má lesa í stuttri grein sem ég skrifaði um bókina og birtist í dagskrárriti Hinsegin daga árið 2012.

Screenshot 2015-09-29 21.11.42

Kirkjan á hafsbotni er áhugavert ljóðasafn fyrir margra hluta sakir, sér í lagi þó vegna sögunnar á bak við bókina. Ljóðin sjálf eru misjöfn, sum eru dálítið klaufaleg en önnur fáguð, mörg áhrifarík en önnur minna, eins og gengur. Þau verðskulda þó tvímælalaust greiningu og ítarlegri umfjöllun, til dæmis um textatengsl við samnefnt píanóverk eftir Debussy og hina fornu sögn um prinsessuna Dahut. Einnig er vert að skoða ljóðin í sögulegu og samfélagslegu samhengi og í tengslum við viðhorf og orðræðu í garð samkynhneigðra og annars hinsegin fólks á þeim tíma.

Saga konunnar óþekktu sem samdi ljóðin og kom þeim í hendur Þórarins, sem síðan fór með handritið til útgefanda, er og verður óráðin gáta. Tilviljanir lífsins (og litla Íslands) réðu því að við Freyr, sem þekktumst ekkert áður, lentum óvænt saman í fimm daga gönguferð um Hornstrandir sumarið eftir að ég uppgötvaði þessa kynvilltu bók yfir seríósskálinni. Við ræddum að sjálfsögðu ýmislegt og veltum vöngum yfir Arnliða vinkonu okkar og höfum síðan grúskað saman og sitt í hvoru lagi en ekki komist að neinu sem hægt væri að skrifa um bitastæðan pistil. Það bíður betri tíma og annarra rannsakenda – eða kannski ekki. Það þurfa ekki allir endilega að koma (eða vera dregnir) út úr skápnum.

Man eg þig löngum

Það er vel við hæfi að fyrsta bókin í kynvillta bókmenntahorninu, í þessari alþjóðaviku tví- og pankynhneigðra, sé eftir Elías Mar – manninn sem oft er skrifaður fyrir „fyrstu sögunni“ um samkynhneigð sem skrifuð hafi verið á íslensku (hvort það er satt eða ekki skal látið liggja milli hluta, því ég hef ekki lesið allar íslenskar bækur). Elías skilgreindi sig sem tvíkynhneigðan, eða „bísexúal“, og var býsna opinn með það í viðtölum á síðustu æviárum sínum en hann lést árið 2007. „Ég held að það sé vísindalega sannað að flestir séu tvíkynhneigðir, bara í misjöfnum hlutföllum,“ sagði hann til dæmis í viðtali sem tekið var við hann nokkrum árum fyrir andlátið (og mun vonandi birtast í væntanlegri heimildarmynd frá Krummafilms) og bætti við að hann hefði sjálfur alltaf verið „að minnsta kosti 15–20% hómósexúal“.

15. desember 1999, Elías Mar.

Frá því að bókmenntafræðingar fóru fyrst að skrifa um samkynhneigð sem viðfangsefni í íslenskum bókmenntum um miðjan 10. áratug síðustu aldar hefur nafn Elíasar alltaf verið fremst (eða framarlega) í flokki, sérstaklega í tengslum við smásögu sem kom út árið 1960 og nefnist Saman lagt spott og speki. Elías sjokkeraði þjóðina þegar hann skrifaði og gaf út þessa sögu í samstarfi við útgefanda sinn, Ragnar í Smára, því hún var jú, vissulega, líklega fyrsta íslenska sagan sem kom fyrir almennings sjónir og fjallaði algjörlega opinskátt og ögrandi um kynvilltan mann og langanir hans. Um þessa sögu hefur ýmislegt verið skrifað og hún er verðugt viðfangsefni – en þó ekki viðfangsefni þessa bókmenntahorns.

Eins og Jón Karl Helgason hefur rakið í ítarlegri og flottri grein um Elías Mar, viðtökur verka hans og stöðu hans í íslensku bókmenntasamhengi í upphafi 21. aldar breyttist umfjöllun um verk Elíasar dálítið á árunum 2006–2007. Þá birtist m.a. grein eftir Jón Karl sjálfan („Deiligaldur Elíasar: Tilraun um frásagnarspegla og sjálfgetnar bókmenntir“) í Ritinu þar sem hann benti á samkynhneigða spennu eða undirtóna í fyrstu skáldsögu Elíasar, Eftir örstuttan leik (1946) og í viðtalsbók Hjálmars Sveinssonar við Elías, Nýr penni í nýju lýðveldi, kemur fram að önnur skáldsaga Elíasar, Man eg þig löngum (1949) fjallar beinlínis um samkynhneigðan dreng. Við þetta bættist svo grein eftir Dagnýju Kristjánsdóttur árið 2009 („Sýnt en ekki gefið. Um skáldsöguna Eftir örstuttan leik eftir Elías Mar,“ í Heimtur. Ritgerðir til heiðurs Gunnari Karlssyni sjötugumþar sem fjallað er ítarlegar um hinsegin þemu í Eftir örstuttan leik. Þorsteinn Antonsson hefur líka verið duglegur að skrifa um Elías og verk hans og gefa út áður óbirta texta. Frá árinu 2006 hefur umfjöllun um Elías Mar og verk hans sem sagt bæði aukist og breyst og nú er, held ég, almennt vitað og viðurkennt að hann skrifaði ekki bara eina kynvillta sögu heldur margar. Niðurstaða mín eftir nokkurra ára vinnu á þessu sviði er að Elías Mar sé líklega eini íslenski rithöfundurinn sem gerði samkynja ástir og þrár að miðlægu viðfangsefni í höfundarverki sínu (þ.e. fleiri en einni útgefinni bók) áður en Vigdís Grímsdóttir, Guðbergur Bergsson og Kristín Ómarsdóttir stigu fram á sjónarsviðið á 9. og 10. áratugnum.

En víkjum þá loks að bók vikunnar: Man eg þig löngum. Í stuttu og einföldu máli fjallar hún um piltinn Halldór Óskar Halldórsson sem flytur úr sjávarþorpi úti á landi til Reykjavíkur til að fara í skóla. Hann leigir herbergi á háalofti hjá gamalli konu og lengi vel er hún eina manneskjan sem hann hittir reglulega og talar við, því Halldór er afskaplega feiminn, vandræðalegur, kvíðinn og vinafár – og í virkilegum vandræðum með kynhneigð sína sem hann skilur ekki fyllilega og veldur honum ýmiss konar angist. Hann þráir skólasystur sína úr fjarlægð en þorir aldrei að nálgast hana. Á sama tíma á hann í nánu sambandi við vininn Bóas, sem er fatlaður og því utangarðs eins og Halldór, og heillast af skáldinu Ómari, vill vera eins og hann en samt líka fá hann… eða það má allavega lesa á milli línanna. Samband Halldórs og þessara tveggja vina er hlaðið nánd og spennu sem ekki er skilgreind og lesandinn getur túlkað að vild. Samkynhneigð (eða tvíkynhneigð?) Halldórs fer þó ekki á milli mála og hann er að lokum þvingaður til að horfast í augu við hana. Sú hugsun hræðir hann þó svo mjög að hann bælir hana niður aftur og engin lausn eða hamingjusamari framtíð blasir við honum í sögulok – þvert á móti. Öll hans háleitu markmið um að öðlast menntun og pluma sig í borginni fara smátt og smátt út um þúfur og á síðustu blaðsíðunni skilur lesandinn við Halldór þar sem hann ráfar um einn og yfirgefinn, peningalaus og heimilislaus og almennt týndur í lífinu.

Þetta er stórmerkileg bók en samt hafa afskaplega fáir lesið hana og enn færri auðvitað skrifað um hana. Aðeins tveir ritdómar virðast hafa birst um hana eftir að hún kom út árið 1949, báðir eftir félaga Elíasar. Bjarna Benediktssyni frá Hofteigi fannst bókin hundleiðinleg en skrifaði þó um hana ritdóm á heilsíðu í Þjóðviljanum sem reyndist vera ítarlegasta umfjöllunin um þessa afskiptu skáldsögu sem skrifuð var í meira en hálfa öld. Kristmann Guðmundsson vék líka að henni nokkrum mánuðum síðar og sagðist hafa verið orðinn spenntur að lesa þessa bók sem honum skildist að væri „alveg óvenjulega slæm“. Hann var þó mildur í garð höfundarins og sagði að bókin væri „ekki verri en margt annað, sem út hefur komið á síðari árum“ og að hann væri viss um að Elías myndi gera betur næst (sem hann og gerði, því næsta bók var Vögguvísa og hún sló í gegn). Hvorugur þessara ritdómara nefnir kynvillu í tengslum við bókina en þó má mögulega greina í skrifum Bjarna að hann hafi skilið hvað klukkan sló þótt hann hafi ekki þorað eða viljað hafa beinlínis orð á því.

Man eg þig löngum féll algjörlega milli þils og veggjar og enginn virtist vilja tala um hana eða vita af henni yfirhöfuð. Í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur sem birtist í Degi árið 1999 virðist Elías vera orðinn þreyttur á þessu og grípur fram í fyrir blaðakonunni þegar hún spyr um hina sívinsælu Vögguvísu:

Screenshot 2015-09-23 11.36.18

Það er ýmislegt áhugavert við þetta framígrip Elíasar. Þarna treður hann bókstaflega Man eg þig löngum að í umfjölluninni og segir að þótt mörgum hafi þótt hún leiðinleg hafi aðrir (lesist: Guðbergur Bergsson) sagt að hún sé hans besta bók. Hann minnist ekki á að bókin fjalli um samkynhneigðan pilt, enda var samfélagsumræðan kannski ekki alveg orðin nógu opin til þess árið 1999 (og þó?) og kynvilla aðalpersónunnar er  þrátt fyrir allt ekki alveg uppi á yfirborði textans þótt hún blasi við flestum nútímalesendum. Guðbergur og Elías hafa aftur á móti vafalaust rætt um kynhneigð Halldórs Óskars, enda voru þeir nánir vinir á 6. áratugnum, og kannski var Elías að ýja að því með því að nefna Guðberg í þessu viðtali, hver veit?

Átta árum síðar birtist hins vegar fyrsta umfjöllunin um Man eg þig löngum og hinn kynvillta Halldór Óskar í viðtalsbókinni Nýjum penna í nýju lýðveldi. Þar spjalla Hjálmar og Elías um tilurð sögunnar og Elías greinir frá því að hún hafi upprunalega átt að verða tvö bindi og í því síðara (sem aldrei var skrifað) átti Halldór ekki bara að verða skáld eins og Ómar og taka upp nafn hans (Halldór Óskar Halldórsson Ómar = HÓMÓ – þessi orðaleikur er alls engin tilviljun), heldur líka að koma út úr skápnum. Hjálmar segir í því samhengi að það hafi ekki verið tilviljun að sú bók var aldrei skrifuð: „Piltur sem kom út úr skápnum í íslenskri skáldsögu haustið 1946 var áreiðanlega 40 árum of snemma á ferðinni“ (bls. 54). Kannski er það rétt, líklega hefði verið of áhættusamt fyrir ungan rithöfund að skrifa svo róttæka bók á þeim tíma, en tilhugsunin um það sem hefði getað gerst – að við hefðum getað fylgst með HÓMÓ finna sjálfan sig – er svo kitlandi að það er ekki annað hægt en gráta seinna bindið sem aldrei varð til.

Halldór Óskar er með eindæmum þunglyndur og óhamingjusamur drengur og það er líklega meginástæða þess að bókin er vissulega dálítið leiðinleg. Það er erfitt að finna til gleði við lestur tæplega 300 blaðsíðna sem fjalla eingöngu um þunglyndan ungling og vonbrigði hans í lífinu. En í því liggur samt aðalkostur bókarinnar sem ég tel fullkomlega vanmetinn: þetta er verulega áhrifarík – og ég held nokkuð raunsönn – lýsing á þunglyndi og kvíða og ekki síst þeirri líðan sem oft vill sækja á fólk sem er inni í hinum margumtalaða skáp. Líðan sem verður til þegar persónan finnur sig ekki, passar ekki inn í umhverfið, er öðruvísi, en veit samt kannski ekki alveg af hverju. Ég sá í það minnsta sjálfa mig í Halldóri og fann oft sterka samkennd með honum og það eitt og sér segir mér að þessi bók sé góð, þótt hún sé kannski ekki fullkomin.

Man eg þig löngum er ein allra fyrsta – kannski fyrsta – íslenska skáldsagan þar sem aðalpersónan er samkynhneigð (eða tvíkynhneigð) og það eitt gerir hana merkilega. Hún á fyrir þær sakir skilið að fá stærri sess í íslenskri bókmenntasögu og -umfjöllun en hún hefur hingað til fengið. Til þess að það verði þarf samt að lesa hana og skrifa um hana, því það hefur alls ekki verið gert. (Já, ég veit, ég ætti bara að skrifa um hana sjálf, það kemur að því!) Því lýkur þessu bókmenntahorni dagsins með fyrirmælum: Farið á bókasafn, finnið bókina, lesið hana, talið um hana og skrifið um hana ef þið viljið og kjósið svo. Ekki seinna en núna.

Andvökulestur – Við Jóhanna

við jóhanna

Í upphafi vikunnar var ég andvaka langt fram á nótt. Það gerist sem betur fer eiginlega aldrei (líklega hef ég drukkið of mikið koffín) og mikið fjandi er það leiðinlegt. Í þetta skiptið var ég þó heppin, því á náttborðinu lá ósnert bók sem við Helga fengum í innflutningsgjöf frá íslenskum gestum. Ég náði að lesa hana alla áður en svefninn sótti á mig en þá tóku við draumar um efni hennar sem entust þar til vekjaraklukkan hringdi.

Bókin var Við Jóhanna eftir hina ágætu kunningjakonu mína Jónínu Leósdóttur – bók sem margir höfðu beðið eftir með óþreyju. Það kæmi mér ekki á óvart þótt hún ætti eftir að verða langsöluhæsta bók Jónínu og þýdd á mörg tungumál. Raunar spái ég því að þessi bók eigi eftir að verða ein víðlesnasta íslenska bókin á alþjóðavettvangi á næstu árum og áratugum – allavega ef útgefandinn stendur sig. Ástæðan er sú að þótt í grunninn sé „bara“ um að ræða ástarsögu tveggja Reykvíkinga er efnið sögulegt þótt sumum Íslendingum þyki lítið til þess koma, því bókin fjallar um fyrstu samkynhneigðu og kvenkyns forsætisráðherrahjón sögunnar.

Jónína er þrælfínn rithöfundur en í þetta skiptið er það ekki frásagnarstíll eða fagurfræðilegar hliðar bókarinnar sem laða að lesendur heldur  fyrst og fremst efnið: sagan af því hvernig tvær konur urðu ástfangnar hvor af annarri en þurftu að halda sambandinu meira og minna leyndu í áratugi, að hluta til af því að önnur þeirra var stjórnmálakona og ráðherra en þó fyrst og fremst vegna þess að þær voru báðar konur. Þær eru núna árið 2013 í fyrsta skipti að upplifa það sem flest gagnkynhneigð pör – þjóðþekkt eður ei – hafa ávallt getað gert án þess að hugsa sig um: að láta taka myndir af sér saman og tala hvor um aðra opinberlega. Sagan endar því vel, sem betur fer, og ég vona að þær spúsur eigi mörg hamingjurík og frjálsleg ár fram undan.

Eftir lesturinn sitja í huga mér ýmiss konar vangaveltur um bakgrunn sögunnar um Jóhönnu og Jónínu, það er að segja þær lagalegu, samfélags- og viðhorfsbreytingar sem hafa orðið á Íslandi og víða á Vesturlöndum á síðustu þrjátíu árum. Ég fyllist stundum vanmætti og hálfgerðri skömm þegar ég hugsa um þessa sögu, ekki af því að hún sé skammarleg heldur af því að ég tók ekki þátt í henni. Ég tilheyri kynslóð sem ég kalla í bili þúsaldarkynslóðina, það er að segja hvítu samkynhneigðu millistéttarfólki sem kom út úr skápnum eftir að mannréttindabaráttan var komin af stað, hefur notið góðs af baráttu fyrri kynslóða og ekki þurft að berjast fyrir eigin tilverurétti á sama hátt og fólk af kynslóð Jónínu og Jóhönnu.

Eitt af því sem gerðist á síðustu áratugum liðinnar aldar er að hugrakkt og atorkusamt fólk stóð upp, hristi af sér mótlæti og fordóma og krafðist þess að samkynhneigðir fengju lagaleg réttindi og yrðu viðurkenndir sem fullgildir þjóðfélagsþegnar. Við höfum fengið að kynnast sögu sumra úr þessum hópi, til dæmis ævisögum Harðar Torfasonar og Margrétar Pálu Ólafsdóttur, Tabú og Ég skal vera Grýla, sem komu út árið 2008. Einnig má finna viðtöl við Þorvald Kristinsson og fleiri sem birst hafa í dagblöðum og tímaritum á Timarit.is. Án þessa fólks og allra hinna sem börðust hefði lítið gerst, það er nokkuð ljóst.

Bók Jónínu og Jóhönnu er ólík þessum ævisögum að því leyti að hún er saga þeirra sem börðust ekki á opinberum vettvangi heldur fyrst og fremst heima hjá sér – við sjálfa sig og eigin tilfinningar, fjölskyldu og nánasta samfélagið. Fólks sem aldrei hefði dottið í hug að flagga kynhneigð sinni opinberlega, hvað þá að berjast fyrir réttindum, því það hafði nóg að gera við að halda höfði í einkalífinu og lifa í sæmilegri sátt við sjálft sig og aðra. Þessi þögli hópur hefur sjaldan sagt sína sögu á prenti á Íslandi enn sem komið er en saga þeirra er þó síst ómerkilegri en baráttufólksins. Að mínu mati er þessi þáttur bókar Jónínu og Jóhönnu einn sá allra áhugaverðasti og vonandi koma fleiri slíkar sögur í bókabúðir á næstu árum.

Jónína nefnir í bókinni að eftir að Jóhanna varð forsætisráðherra hafi þær fundið fyrir pressu frá sumum Íslendingum að Jóhanna tæki afstöðu og beitti sér fyrir réttindum hinsegin fólks. Að það væri eins konar skylda hennar sem lesbíu í þessari valdamiklu stöðu. Mig minnir að ég hafi líka hugsað á þennan veg einhvern tímann; að Jóhanna ætti nú að sýna dug og hætta að „svíkja málstaðinn“ með þögninni. Þegar bók Jónínu og Jóhönnu er lesin er ekki annað hægt en að skammast sín fyrir slíkar hugsanir. Það er hrokafull krafa af lesbíu á þrítugsaldri að ætlast til þess að tæplega sjötug kona sem er að reyna að stýra heilu ríkisbatteríi standi upp á opinberum vettvangi í fyrsta skipti á ævinni, segi „ég er lesbía“ og gerist fyrirmynd sem slík. Hér rekast á tvær kynslóðir; þúsaldarkynslóðin sem hefur fengið að blómstra eftir „mannréttindabyltinguna“ í byrjun 21. aldar og sú sem þurfti að glíma við allt annan veruleika í áratugi fyrir þann tíma. Ég vil ekki kalla þá fyrrnefndu forréttindakynslóð, því því fylgja svo sannarlega engin forréttindi að vera hinsegin, hvorki í dag né áður fyrr. Mín kynslóð af samkynhneigðu fólki býr engu að síður við þægindi og öryggi sem gerir okkur kleift að vera hrokafull og dómhörð ef við pössum okkur ekki.

Mest sláandi er þó að hugsa um hversu hratt þessar laga-, samfélags- og viðhorfsbreytingar hafa orðið. Þrjátíu ár eru stuttur tími og enginn getur verið viss um að þróunin haldi áfram á sömu braut. Það þarf ekki annað en að horfa til meginlands Evrópu til að sjá að refsilöggjöf er víða að verða harðari og opinber viðhorf fordómafyllri í garð samkynhneigðra. Á Íslandi vaða fordómafullir sleggjudómar um hinsegin fólk uppi í athugasemdakerfum og tvíkynhneigðarfóbía og transfóbía eru alvarleg samfélagsmein. Þar að auki má nefna að hatursorðræðan sem viðgengst gagnvart múslímum er afar óþægileg. Hver veit hvað mun gerast á næstu þrjátíu árum? Enginn.

Við sem tilheyrum þúsaldarkynslóðinni höfum efni á að vera þakklát en ekki hrokafull. Við búum ekki við forréttindi heldur mannréttindi og þessi mannréttindi duttu ekki af himnum ofan. Fyrir þeim var barist og það er okkar að berjast fyrir því að þeim verði við haldið. Fyrir svo utan alla baráttuna sem eftir er, sér í lagi hvað varðar réttindi annarra hópa sem allt of oft gleymast – til dæmis tvíkynhneigðra og transfólks – en einnig samfélagsleg viðhorf, fordóma og ýmiss konar mismunun sem ekki stríðir gegn lögum.

Þótt saga Jónínu og Jóhönnu sé persónuleg ástarsaga er hún líka innlegg í sögu hinsegin fólks á Íslandi og á alþjóðavísu og afar mikilvæg sem slík. Sé hún lesin með þar til gerðum gleraugum má þar að auki sjá í henni áminningu til yngri kynslóða um að halda vel á spilunum og vera á verði, passa mannréttindin sem í gildi eru og berjast fyrir þeim sem ekki eru í höfn, og vinna að auknu jafnrétti og minni fordómum í samfélaginu. Ég óska engum þess að þurfa að fela ást sína fyrir umheiminum í eins og Jónína og Jóhanna en ég er þeim þakklát fyrir að hafa deilt sinni ljúfsáru sögu með okkur hinum.