Merkjaskipt greinasafn: ævisaga

Andvökulestur – Við Jóhanna

við jóhanna

Í upphafi vikunnar var ég andvaka langt fram á nótt. Það gerist sem betur fer eiginlega aldrei (líklega hef ég drukkið of mikið koffín) og mikið fjandi er það leiðinlegt. Í þetta skiptið var ég þó heppin, því á náttborðinu lá ósnert bók sem við Helga fengum í innflutningsgjöf frá íslenskum gestum. Ég náði að lesa hana alla áður en svefninn sótti á mig en þá tóku við draumar um efni hennar sem entust þar til vekjaraklukkan hringdi.

Bókin var Við Jóhanna eftir hina ágætu kunningjakonu mína Jónínu Leósdóttur – bók sem margir höfðu beðið eftir með óþreyju. Það kæmi mér ekki á óvart þótt hún ætti eftir að verða langsöluhæsta bók Jónínu og þýdd á mörg tungumál. Raunar spái ég því að þessi bók eigi eftir að verða ein víðlesnasta íslenska bókin á alþjóðavettvangi á næstu árum og áratugum – allavega ef útgefandinn stendur sig. Ástæðan er sú að þótt í grunninn sé „bara“ um að ræða ástarsögu tveggja Reykvíkinga er efnið sögulegt þótt sumum Íslendingum þyki lítið til þess koma, því bókin fjallar um fyrstu samkynhneigðu og kvenkyns forsætisráðherrahjón sögunnar.

Jónína er þrælfínn rithöfundur en í þetta skiptið er það ekki frásagnarstíll eða fagurfræðilegar hliðar bókarinnar sem laða að lesendur heldur  fyrst og fremst efnið: sagan af því hvernig tvær konur urðu ástfangnar hvor af annarri en þurftu að halda sambandinu meira og minna leyndu í áratugi, að hluta til af því að önnur þeirra var stjórnmálakona og ráðherra en þó fyrst og fremst vegna þess að þær voru báðar konur. Þær eru núna árið 2013 í fyrsta skipti að upplifa það sem flest gagnkynhneigð pör – þjóðþekkt eður ei – hafa ávallt getað gert án þess að hugsa sig um: að láta taka myndir af sér saman og tala hvor um aðra opinberlega. Sagan endar því vel, sem betur fer, og ég vona að þær spúsur eigi mörg hamingjurík og frjálsleg ár fram undan.

Eftir lesturinn sitja í huga mér ýmiss konar vangaveltur um bakgrunn sögunnar um Jóhönnu og Jónínu, það er að segja þær lagalegu, samfélags- og viðhorfsbreytingar sem hafa orðið á Íslandi og víða á Vesturlöndum á síðustu þrjátíu árum. Ég fyllist stundum vanmætti og hálfgerðri skömm þegar ég hugsa um þessa sögu, ekki af því að hún sé skammarleg heldur af því að ég tók ekki þátt í henni. Ég tilheyri kynslóð sem ég kalla í bili þúsaldarkynslóðina, það er að segja hvítu samkynhneigðu millistéttarfólki sem kom út úr skápnum eftir að mannréttindabaráttan var komin af stað, hefur notið góðs af baráttu fyrri kynslóða og ekki þurft að berjast fyrir eigin tilverurétti á sama hátt og fólk af kynslóð Jónínu og Jóhönnu.

Eitt af því sem gerðist á síðustu áratugum liðinnar aldar er að hugrakkt og atorkusamt fólk stóð upp, hristi af sér mótlæti og fordóma og krafðist þess að samkynhneigðir fengju lagaleg réttindi og yrðu viðurkenndir sem fullgildir þjóðfélagsþegnar. Við höfum fengið að kynnast sögu sumra úr þessum hópi, til dæmis ævisögum Harðar Torfasonar og Margrétar Pálu Ólafsdóttur, Tabú og Ég skal vera Grýla, sem komu út árið 2008. Einnig má finna viðtöl við Þorvald Kristinsson og fleiri sem birst hafa í dagblöðum og tímaritum á Timarit.is. Án þessa fólks og allra hinna sem börðust hefði lítið gerst, það er nokkuð ljóst.

Bók Jónínu og Jóhönnu er ólík þessum ævisögum að því leyti að hún er saga þeirra sem börðust ekki á opinberum vettvangi heldur fyrst og fremst heima hjá sér – við sjálfa sig og eigin tilfinningar, fjölskyldu og nánasta samfélagið. Fólks sem aldrei hefði dottið í hug að flagga kynhneigð sinni opinberlega, hvað þá að berjast fyrir réttindum, því það hafði nóg að gera við að halda höfði í einkalífinu og lifa í sæmilegri sátt við sjálft sig og aðra. Þessi þögli hópur hefur sjaldan sagt sína sögu á prenti á Íslandi enn sem komið er en saga þeirra er þó síst ómerkilegri en baráttufólksins. Að mínu mati er þessi þáttur bókar Jónínu og Jóhönnu einn sá allra áhugaverðasti og vonandi koma fleiri slíkar sögur í bókabúðir á næstu árum.

Jónína nefnir í bókinni að eftir að Jóhanna varð forsætisráðherra hafi þær fundið fyrir pressu frá sumum Íslendingum að Jóhanna tæki afstöðu og beitti sér fyrir réttindum hinsegin fólks. Að það væri eins konar skylda hennar sem lesbíu í þessari valdamiklu stöðu. Mig minnir að ég hafi líka hugsað á þennan veg einhvern tímann; að Jóhanna ætti nú að sýna dug og hætta að „svíkja málstaðinn“ með þögninni. Þegar bók Jónínu og Jóhönnu er lesin er ekki annað hægt en að skammast sín fyrir slíkar hugsanir. Það er hrokafull krafa af lesbíu á þrítugsaldri að ætlast til þess að tæplega sjötug kona sem er að reyna að stýra heilu ríkisbatteríi standi upp á opinberum vettvangi í fyrsta skipti á ævinni, segi „ég er lesbía“ og gerist fyrirmynd sem slík. Hér rekast á tvær kynslóðir; þúsaldarkynslóðin sem hefur fengið að blómstra eftir „mannréttindabyltinguna“ í byrjun 21. aldar og sú sem þurfti að glíma við allt annan veruleika í áratugi fyrir þann tíma. Ég vil ekki kalla þá fyrrnefndu forréttindakynslóð, því því fylgja svo sannarlega engin forréttindi að vera hinsegin, hvorki í dag né áður fyrr. Mín kynslóð af samkynhneigðu fólki býr engu að síður við þægindi og öryggi sem gerir okkur kleift að vera hrokafull og dómhörð ef við pössum okkur ekki.

Mest sláandi er þó að hugsa um hversu hratt þessar laga-, samfélags- og viðhorfsbreytingar hafa orðið. Þrjátíu ár eru stuttur tími og enginn getur verið viss um að þróunin haldi áfram á sömu braut. Það þarf ekki annað en að horfa til meginlands Evrópu til að sjá að refsilöggjöf er víða að verða harðari og opinber viðhorf fordómafyllri í garð samkynhneigðra. Á Íslandi vaða fordómafullir sleggjudómar um hinsegin fólk uppi í athugasemdakerfum og tvíkynhneigðarfóbía og transfóbía eru alvarleg samfélagsmein. Þar að auki má nefna að hatursorðræðan sem viðgengst gagnvart múslímum er afar óþægileg. Hver veit hvað mun gerast á næstu þrjátíu árum? Enginn.

Við sem tilheyrum þúsaldarkynslóðinni höfum efni á að vera þakklát en ekki hrokafull. Við búum ekki við forréttindi heldur mannréttindi og þessi mannréttindi duttu ekki af himnum ofan. Fyrir þeim var barist og það er okkar að berjast fyrir því að þeim verði við haldið. Fyrir svo utan alla baráttuna sem eftir er, sér í lagi hvað varðar réttindi annarra hópa sem allt of oft gleymast – til dæmis tvíkynhneigðra og transfólks – en einnig samfélagsleg viðhorf, fordóma og ýmiss konar mismunun sem ekki stríðir gegn lögum.

Þótt saga Jónínu og Jóhönnu sé persónuleg ástarsaga er hún líka innlegg í sögu hinsegin fólks á Íslandi og á alþjóðavísu og afar mikilvæg sem slík. Sé hún lesin með þar til gerðum gleraugum má þar að auki sjá í henni áminningu til yngri kynslóða um að halda vel á spilunum og vera á verði, passa mannréttindin sem í gildi eru og berjast fyrir þeim sem ekki eru í höfn, og vinna að auknu jafnrétti og minni fordómum í samfélaginu. Ég óska engum þess að þurfa að fela ást sína fyrir umheiminum í eins og Jónína og Jóhanna en ég er þeim þakklát fyrir að hafa deilt sinni ljúfsáru sögu með okkur hinum.