Kynvilla?

Kynvilltur og kynvilla eru orð sem voru notuð í áratugi um það sem við köllum í dag samkynhneigð og samkynhneigt, trans eða intersex fólk.* Þessi orð voru yfirleitt þrungin neikvæðri og gildishlaðinni merkingu, enda notuð á tímum þegar fordómar í garð þessara þjóðfélagshópa voru miklir. Orðin lifðu ágætu lífi fram undir 1990 en eru nú yfirleitt talin álíka viðeigandi og „negri“ eða „júði“ – sem sagt óviðeigandi. Á því eru þó undantekningar og á undanförnum árum hafa þau öðru hverju heyrst og sést notuð af hinsegin einstaklingum og þá í jákvæðri merkingu, líklega oft í gríni eða léttum dúr. Það er löng hefð fyrir því að minnihlutahópar taki niðrandi orð sem hafa verið notuð í þeirra garð og snúi þeim upp í andhverfu sína – orðið hinsegin og enska orðið queer eru lýsandi dæmi um það. Ég nota orðið kynvilltur hér í og með í slíkri jákvæðri merkingu – sem glaðlegan uppásnúning og orðaleik (hver er ekki kyn-villtur þegar upp er staðið?). Þó kýs ég ekki síður að nota þetta orð af því að þegar um er að ræða bókmenntatexta frá fyrri hluta 20. aldar og fram yfir miðja öld er það einfaldlega mun meira viðeigandi heldur en orðið samkynhneigð þar sem kynvilla var hugtakið sem notað var á þeim tíma (og kynvilla og samkynhneigð merkja ekki alltaf nákvæmlega það sama – en um það get ég skrifað annan pistil). Kynvilltar bókmenntir eru með öðrum orðum hér í þessu bókmenntahorni bókmenntatextar sem fjalla um samkynja ástir og þrár og ýmiss konar kynusla fyrr og nú.

Til að flækja málin enn frekar fer það hvað telst vera hinsegin eða kynvillt algjörlega eftir því um hvaða tíma við erum að tala og hvaða viðmið við notum hverju sinni. Eru kynmök tveggja karla á þjóðveldisöld til dæmis hinsegin? Eða kynvillt? Samkynhneigð? Samkvæmt samfélagsviðmiðum 10. aldar eða 21. aldar? Hvað með frásagnir af náinni vináttu (þar með talið kossum, faðmlögum og ástarjátningum) tveggja karla eða tveggja kvenna á 19. öld, áður en fyrirbærið samkynhneigð var þekkt á Íslandi? Svarið er flókið – þannig er lífið bara stundum.

* Reyndar voru orðin kynvilla og kynvilltur í upphafi 20. aldar notuð á margvíslegan hátt og um ýmis fyrirbæri sem voru bókstaflega kyn-villt, til dæmis orð sem voru notuð í „vitlausu“ málfræðilegu kyni eða þegar „kvennöfn“ voru notuð af körlum og öfugt. Dæmi um þetta má t.d. sjá í dagblöðum (sjá Timarit.is).