Námskeið um hinsegin bókmenntir

Það er ekki á hverjum degi sem kona fær að búa til námskeið á háskólastigi um áhugamál sín og rannsóknarsvið – en allir dagar eru slíkir dagar hjá mér þetta haustið. Ég kenni nefnilega námskeið á BA-stigi í íslensku um hinsegin bókmenntir sem ber titilinn „Ergi, usli og duldar ástir“ og eyði því allri haustönninni í að ræða hinsegin bækur og fræði við nemendur, sem virðast allavega enn sem komið er vera spenntir, áhugasamir og ánægðir – eins og ég.

Hilla námskeiðsins á námsbókasafni Landsbókasafns. Fögur, ekki satt?

Að mörgu er að hyggja við undirbúning svona verkefnis. Hvaða fræði á að kynna og hvernig á námsmatið að vera? En kannski ekki síst – hvaða skáldverk á að lesa? Ég reyndi að velja bæði texta sem ég þekki vel og minna, gæta að kynjahlutföllum, fjölbreytni í viðfangsefnum og bókmenntagreinum og velja texta frá ólíkum tímabilum og ég vona að mér hafi tekist það sæmilega. Við förum aftur til miðalda og skoðum meykónga og ergi, stöldrum við á 18. öld en dveljum lengst á 20. og 21. öld; lesum smásögur, skáldsögur, ljóð og leikrit og horfum á kvikmynd. Mörg þessara verka hafa sjaldan eða aldrei verið rædd (opinberlega) frá hinsegin sjónarhorni svo ég viti til, önnur hafa verið þáttur í slíkri umræðu en ekki verið sett í stærra samhengi hinsegin bókmennta eða bókmenntasögu á Íslandi.

Það er því af nógu af taka og ég er sannfærð um að á næstu vikum munu verða til fjölmargar nýjar tengingar í hugum okkar sem tökum þátt í námskeiðinu; hugmyndir sem vonandi verða síðar að pistlum, greinum og ritgerðum og uppspretta skemmtilegra umræðna um bókmenntir. Því um það snýst málið: það er gaman að lesa en enn skemmtilegra að tala saman um bækur og glíma við að koma hugsunum sínum og vangaveltum um þær í orð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s