Stella Blómkvist: hinsegin frumkvöðull

Síðan ég skrifaði inngangsorðin að pistlaröðinni um Stellu okkar Blómkvist hefur ýmislegt gerst. Í fyrsta lagi hafa þau merku tíðindi orðið að tíunda Stellubókin er komin út, Morðið í Snorralaug, og í öðru lagi er Stella rithöfundur orðin vinkona mín á Facebook. Það er gósentíð framundan.

Í þriðja lagi átti Stella stórafmæli því hún er fædd þann merka dag 19. júní 1969, kvenréttindadaginn árið 69 – enda sjálfstætt kjarnakvendi og mikið fyrir kynlíf. Það eru engar tilviljanir til þegar hún er annars vegar. Til hamingju Stella!

Þessi tvö atriði, kjarnakvendið og kynlífið, eru líka með því hressilegasta við bækurnar um Stellu og marka þeim ákveðna sérstöðu. Í upphafskafla fyrstu bókarinnar, Morðsins í Stjórnarráðinu (1997), er Stella timbruð og hundfúl því næturgagnið, folinn sem hún tók með heim kvöldið áður, sofnaði í miðju kafi og stóðst alls ekki gæðakröfur. (Hér er reyndar rétt að setja vávörun og varnagla: hún beitir manninn ofbeldi, sem er vitanlega mjög vafasamt og verðskuldar nánari umfjöllun síðar.) Næsta bók, Morðið í sjónvarpinu (2000), hefst svo á þessum orðum:

„Aaaah!“
Heitur straumurinn spýtist af ofsakrafti út um örmjóu kringlóttu götin á silfurgráa handfanginu og þrýstir sér inn. Lengra og lengra. Harður og mjúkur í senn. Krefjandi, Gælir við hungrað holdið eins og fingrafimur foli.
„Ummmm! “
Ég legg aftur augun, slaka á og opna upp á gátt fyrir þessum freka, heita, vota elskhuga. Leyfi honum að leika sér að vild. Kveikja æsilega elda. Magna upp ástríðufullt bál sem rís hærra og hærra. Allt þar til hámarkinu er náð.
Næstum því.

Betri sjálfsfróunarsena en vandfundin í íslenskum bókmenntum, leyfi ég mér að slengja fram, og fáar bækur byrja á svo hressilegum kynlífslýsingum (Mánasteinn eftir Sjón skákar þessari reyndar. Það keppir fátt við það upphaf.)

Stella er sem sagt mikil kynvera og í hinsegin samhengi er hún frumkvöðull. Hún er bæði með körlum og konum og lýsingarnar á ástríðum hennar í garð kvenna og kynlífi með þeim eru dálítið magnaðar þegar hugað er að því að svo opinská og ítrekuð umfjöllun um þau málefni var fremur sjaldséð á þessum tíma.

Þegar fyrsta bókin kom út leit samt ekki út fyrir að neitt hinsegin væri þar á ferð. Morðið í Stjórnarráðinu var kynnt svo:

Hér er á ferðinni ný íslensk spennusaga úr samtímanum sem fjallar um lögfræðinginn Stellu, sem er orðheppin og harðsoðin, nokkuð upp á karlhöndina og finnst viskísopinn góður. Hún brynjar sig með spakmælum frá mömmu og sérhæfir sig í að innheimta skuldir sem hún hefur keypt.

Hér er Stella í fyrsta skipti kynnt fyrir íslenskum lesendum og helstu eiginleikum hennar er lýst, sem margir einkenna hana í gegnum allar bækurnar: hún er góð í að koma fyrir sig orði, lætur ekki valta yfir sig, safnar grimmt í Stellusjóðinn (bankareikninginn), finnst fátt betra en að drekka viskí og vitnar oft í spakmæli mömmu sinnar. Hins vegar er hér ein öskrandi þögn: Stella er sannarlega upp á karlhöndina en kvenhöndina líka – það vitum við núna. Umfjöllunin um kvennaástir Stellu í Morðinu í Stjórnarráðinu er varfærin og líta má á hana sem eins konar formála að þeim söguþræði. Undir lok bókarinnar sefur hún í fyrsta skipti hjá konu og eitthvað vaknar innra með henni:

Eiginlega verð ég ekki einu sinni hissa. Það er engu líkara en að é ghafi innst inni búist við þessu. Bara neitað að hugsa um það. (180)

Engar lýsingar á kynlífinu fylgja í þetta skiptið, sem er óvenjulegt, og mögulega er þetta í fyrsta og eina skipti sem Stella leyfir bólfélaganum að ráða förinni, því yfirleitt er það hún sem stýrir – harðri hendi. Eftir þetta verður svo ekki aftur snúið; í bókunum sem á eftir koma er hún bæði með körlum og konum en áhuginn á konum er jafnan ástríðufyllri og tilfinningaríkari. Sérstaða Stellu í íslenskri hinsegin bókmenntasögu felst ekki síst í því hversu hreinskilin og opinská hún er með sínar þrár og langanir – hræðsla eða efasemdir um réttmæti samkynja ásta og kynlífs eru ekki til í hennar hugarheimi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s