Að búa eða búa ekki til homma

Fyrir nokkrum árum síðan var ég stödd á háskólaviðburði í Reykjavík og hitti mann sem spurði mig út í doktorsverkefnið, eins og gengur. Ég nefndi íslenskan miðaldatexta (sem varð þó á endanum ekki hluti af minni rannsókn) og að ég væri að skoða tvær karlpersónur og náið samband þeirra. Viðbrögðin sem ég fékk voru:

„Nú já, ætlarðu að fara að gera þá að hommum?“

Þessi athugasemd er lýsandi fyrir þá stöðu sem bókmenntarýnar sem skoða samkynja ástir og þrár í bókmenntaverkum eru oft í, það er að þurfa að velta fyrir sér hvort þeir eigi á hættu að verða gagnrýndir fyrir að oftúlka eða lesa „of mikið“ í verkin og í framhaldi af því hvort þeir séu jafnvel að móðga höfundinn eða minningu hans með því að bendla hann við samkynhneigð. Hér finnst mörgum mikilvægt að stíga varlega til jarðar en ég er á þeirri skoðun að það sé – eða ætti í það minnsta að vera – algjör óþarfi. Og ég skal segja ykkur af hverju.

Vinaást

Tökum sem dæmi ljóð eftir eitt virtasta skáld þjóðarinnar, Stephan G. Stephansson, sem Stephanssérfræðingurinn og öðlingurinn Viðar Hreinsson benti mér á. Ljóðið heitir „Frá æskudögunum“ og er ort árið 1882 þegar Stephan var 29 ára gamall og fluttur vestur um haf. Þar ávarpar ljóðmælandi æskuvin sinn sem hann hefur ekki séð lengi en saknar mjög. Hann fer fögrum orðum um vininn, traust hans og hreina sál og þær sterku tilfinningar sem hann ber í brjósti. „Langt er síðan nú við fundumst fyrst. / – Fyrri þú mér réttir vinarhendi, / svo er okkar ástasaga styzt, / elska þig sem bróður mér það kenndi, –“ segir hann og heldur áfram:

Screenshot 2015-10-09 09.12.58

(Andvökur, IV. bindi, 1958, bls. 148–152)

Stöldrum aðeins við hér og spyrjum nokkurra spurninga.


1) Eru ljóðmælandinn og vinur hans hommar?

Nei, það er hægt að fullyrða að þeir séu ekki hommar ef við göngum út frá því að samkynhneigð sé hugmynd og/eða orðræða sem er samfélags- og menningarlega mótuð frekar en eðlisþáttur mannsins sem hefur alltaf verið til. Þegar um er að ræða hugtök eins og samkynhneigð í sögulegu samhengi takast með öðrum orðum á, eins og svo oft, mótunarhyggja og eðlishyggja og um þetta er fólk alls ekki sammála. Mótunarhyggjan hefur þó undanfarið yfirleitt orðið ofan á, held ég að megi segja, meðal þeirra sem vinna á sviði hinsegin fræða og rannsókna og ég fylgi henni, sér í lagi kenningu Foucaults um að samkynhneigði einstaklingurinn hafi „fæðst“ eða orðið til í vestrænni orðræðu undir lok 19. aldar.

Ég skal reyna að orða þetta á mannamáli: Foucault og þeir sem honum fylgja líta svo á
að þótt fólk hafi stundað kynlíf með aðilum af sama kyni frá alda öðli varð hugmyndin um samkynhneigða einstaklinginn sem sérstaka „tegund“ af manneskju – sem sefur ekki bara hjá heldur hefur ákveðin persónueinkenni og sjálfsmynd og skilgreinir sig eða er skilgreind á ákveðinn hátt – ekki til fyrr en seint á 19. öld og hún breiddist mishratt út. Á Íslandi var hún ekki komin inn í hugarheim almennings fyrr en á 3. áratug 20. aldar í fyrsta lagi – líklega síðar. Þess vegna er mjög vafasamt að nota orð eins og samkynhneigð, hommi og lesbía um fólk og persónur fyrir þennan tíma, þar sem í því felst að þröngva hugmyndum og hugsunarhætti síðari hluta 20. aldar upp á fortíðina og það býður upp á misskilning og mistúlkun.

2) En þeir kyssast og faðmast og ljóðmælandinn segist elska vin sinn. Sýnir það ekki að þeir séu elskhugar?

Nei, ekki endilega. Kannski.

Við lifum í vestrænum heimi 21. aldar þar sem fólk er oftast flokkað sem gagnkynhneigt og samkynhneigt* þar sem hið fyrrnefnda er normið og hið síðarnefnda er í besta falli pínulítið öðruvísi og í versta falli óæskilegt, hættulegt eða ógeðslegt. Hómófóbía er hræðsla við samkynhneigð og hún felur í sér sterka þörf til að draga skýrar línur milli þess gagnkynhneigða og þess samkynhneigða, vegna þess að ef línurnar eru skýrar er minni hætta á að lenda „vitlausu megin“ og auðveldara að halda þeim samkynhneigðu í öruggri fjarlægð. Þessar línur snúast mikið til um að skilgreina hvað sé kynferðislegt og hvað ekki. Þess vegna gilda víða ákveðnar óskráðar reglur í samskiptum fólks af sama kyni. Mörgum karlmönnum finnst til dæmis óþægilegt eða rangt að kyssa vini sína, faðma þá alúðlega eða tjá þeim tilfinningar sínar – af því að þá eru þeir komnir hættulega nálægt línunni sem ekki má fara yfir án þess að vera talinn samkynhneigður.

Aftur á móti er hómófóbía ekki til (eða mun áhrifaminni) í heimi þar sem tvískiptingin í gagn- og samkynhneigð er ekki ríkjandi (eða jafnvel ekki til) og þar af leiðandi eru reglurnar um ásættanlega hegðun öðruvísi. Ef þú veist ekki að þú stendur á bjargbrún ertu ekki hrædd við að detta fram af, er það? Og þá er engin ástæða til að hegða sér á ákveðinn hátt til að forðast að detta. Að sama skapi má álykta að ljóðmælandinn í ljóði Stephans G. árið 1882 hafi ekki þurft að óttast að segja frá ást sinni eða kossum því það var lítil hætta á að hann yrði fordæmdur fyrir það. Það eru til mýmörg dæmi um ljósmyndir frá þessum tíma þar sem karlmenn stilla sér upp í mjög innilegum stellingum og þessar myndir benda til þess að reglurnar eða mörkin í samskiptum vina af sama kyni hafi verið aðrar en í dag.** Þá má færa rök fyrir því að það hafi ekki verið þörf á því að draga skýra línu á milli þess kynferðislega og þess ókynferðislega – milli elskhuga og „bara vina“ – því önnur hliðin á þessum peningi var ekki til í hugum fólks.

(Þessi mynd er úr bók eftir John Ibson, Picturing Men: A Century of Male Relationshipsin Everyday American Photography, 2006)

Það er sérlega áhugavert við lokalínurnar í erindinu sem ég vitnaði í hér að ofan að ljóðmælandinn tekur fram að kyn vinarins skipti máli hvað varðar hvernig hegðun þeirra er túlkuð. Hann segir sem sagt að ef vinurinn hefði verið kona hefðu kossar þeirra og faðmlög verið túlkuð sem ósiðlegt athæfi eða í það minnsta verið tilefni til slúðurs. Þetta styður að mínu mati þá kenningu að hugmyndin um tvo karla sem elskhuga hafi ekki verið möguleg í hugarheimi ljóðmælandans og þess vegna var ekki ástæða til að óttast hana.

Screenshot 2015-10-09 09.18.23Ekkert af ofangreindu útilokar hins vegar að ljóðmælandinn og vinurinn hafi verið elskhugar. Það er allt undir túlkun lesandans komið.

3) Er ég að oftúlka ljóðið ef ég segi að það fjalli um samkynja ást eða þrá?

Nei, ekki að mínu mati. Þótt ekki sé viðeigandi að tala um homma fyrr á öldum og við komumst að þeirri niðurstöðu að ljóðmælandinn og vinurinn hafi líklega verið „bara vinir“ og ekki elskhugar má samt sem áður vel tala um samkynja ást í þessu samhengi. Því það er það sem þetta er, ekki satt? Tveir karlar sem elska hvor annan.

Hugtakið samkynja félagsþrá*** (e. homosocial desire) sem Eve Kosofsky Sedgwick þróaði og setti fram í bókinni Between Men er hjálplegt í þessu samhengi. Hún lagði til að öll sambönd og tengsl aðila af sama kyni væru hugsuð út frá skala frekar en flokkum. Á öðrum enda skalans eru þá kynferðisleg tengsl (homosexual) og á hinum tengsl sem eru félagsleg en ekki kynferðisleg (homosocial). Öll þessi tengsl falla undir samkynja félagsþrá eða þrá fólks eftir samskiptum og samböndum við aðila af sama kyni. Ef unnið er út frá þessum hugmyndum er hægt að tala almennt um sambönd aðila af sama kyni án þess að skilgreina hvort þau séu kynferðisleg eða ekki. Það er nefnilega oftar en ekki sambandið sjálft sem er áhugavert en ekki hvort það er „bara vinátta“ eða „eitthvað meira“. Skiptir það til dæmis einhverju máli varðandi upplifun og túlkun lesandans á ljóði Stephans? Skiptir máli hvort þeir kysstust á munninn eða kinnina? Með tungu eða ekki? Hvort þeir struku hvor öðrum um vangann eða hvort þeir höfðu samfarir? Er ekki mun áhugaverðara að einblína á tilfinningarnar, söknuðinn, ástina, sektarkenndina, nándina, fjarlægðina?

Ég kýs að nota hugtakið eða orðalagið „samkynja ástir og þrár“ í svipuðum skilningi og Sedgwick talar um samkynja félagsþrá og ég geri ekki þá kröfu að þessar ástir og þrár séu kynferðislegar. Stundum er kynlífið hluti af rannsóknarefninu og stundum ekki en það á ekki að þurfa að vera atriðið sem sker úr um það hvort ákveðinn bókmenntatexti er valinn sem viðfangsefni eða ekki.

4) Ef ljóðið fjallar um samkynja ást, var Stephan G. þá hommi eða fyrir karlmenn?

Það ætti að vera óþarfi að svara þessari spurningu en þetta er engu að síður algeng hugsun. Svo höfum eitt á hreinu: það er engin bein eða sjálfgefin tenging milli umfjöllunarefnis ljóðs og skáldsins sjálfs. Það að ljóð fjalli um samkynja ástir gefur okkur ekki ástæðu til að draga ályktun um kynhneigð höfundarins. Það getur vakið upp hugsanir og vangaveltur, vissulega, og oft er tenging þarna á milli en ljóð eru ekki ævisögur. Ég hef enga ástæðu til að ætla að Stephan G. hafi verið fyrir karlmenn en það getur vel verið – það kemur bara málinu lítið sem ekkert við.

Lokaorð

Í fyrsta lagi: Bókmenntarýnar sem skoða hinsegin bókmenntir eru ekki að fara gera neina að hommum, því það er ekki á okkar færi (sem betur fer). Í öðru lagi: Hræðslan við að fjalla um samkynja ástir og þrár í bókmenntum og „oftúlka“ þær er að mínu viti sprottin af sama meiði og hómófóbía – gott ef hún er ekki bara ein tegund af hómófóbíu. Ég sé hins vegar enga ástæðu til að stíga varlega til jarðar þegar fjallað er um samkynja ástir og þrár í bókmenntum af þeirri einföldu ástæðu að það er ekkert að hræðast.

– – –

*Þetta er reyndar að breytast og hinsegin aktívismi er farinn að hafa þau áhrif að fólk er í auknum mæli flokkað í marga flokka en ekki bara tvo, þ.e. sú hugmynd að það séu ekki bara til tvær kynhneigðir heldur margar og að fólk eigi að fá að skilgreina sig sjálft er orðin útbreiddari en áður.

**Ég hef heyrt af mjög áhugaverðri lokaritgerð um kossa karlmanna á Íslandi í kringum 1900 sem verður unnin upp í grein von bráðar. Fylgist með.

***Þessi þýðing er til bráðabirgða en ekki fullmótuð. Aðrar tillögur eru vel þegnar.

Meðal þess lesefnis sem byggt er beint og óbeint á þessum pistli:

Foucault, Michel. The Will to Knowledge. La Volonté de savoir, 1976. Þýð. Hurley, Robert. The History of Sexuality. Vol. 1. London: Penguin, 1978.

Halperin, David M. One Hundred Years of Homosexuality and Other Essays on Greek Love. New York: Routledge, 1990.

Sedgwick, Eve Kosofsky. Between Men: English Literature and Male Homosocial Desire. New York: Columbia University Press, 1985.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s