Námskeið um hinsegin bókmenntir

Það er ekki á hverjum degi sem kona fær að búa til námskeið á háskólastigi um áhugamál sín og rannsóknarsvið – en allir dagar eru slíkir dagar hjá mér þetta haustið. Ég kenni nefnilega námskeið á BA-stigi í íslensku um hinsegin bókmenntir sem ber titilinn „Ergi, usli og duldar ástir“ og eyði því allri haustönninni í að ræða hinsegin bækur og fræði við nemendur, sem virðast allavega enn sem komið er vera spenntir, áhugasamir og ánægðir – eins og ég.

Hilla námskeiðsins á námsbókasafni Landsbókasafns. Fögur, ekki satt?

Að mörgu er að hyggja við undirbúning svona verkefnis. Hvaða fræði á að kynna og hvernig á námsmatið að vera? En kannski ekki síst – hvaða skáldverk á að lesa? Ég reyndi að velja bæði texta sem ég þekki vel og minna, gæta að kynjahlutföllum, fjölbreytni í viðfangsefnum og bókmenntagreinum og velja texta frá ólíkum tímabilum og ég vona að mér hafi tekist það sæmilega. Við förum aftur til miðalda og skoðum meykónga og ergi, stöldrum við á 18. öld en dveljum lengst á 20. og 21. öld; lesum smásögur, skáldsögur, ljóð og leikrit og horfum á kvikmynd. Mörg þessara verka hafa sjaldan eða aldrei verið rædd (opinberlega) frá hinsegin sjónarhorni svo ég viti til, önnur hafa verið þáttur í slíkri umræðu en ekki verið sett í stærra samhengi hinsegin bókmennta eða bókmenntasögu á Íslandi.

Það er því af nógu af taka og ég er sannfærð um að á næstu vikum munu verða til fjölmargar nýjar tengingar í hugum okkar sem tökum þátt í námskeiðinu; hugmyndir sem vonandi verða síðar að pistlum, greinum og ritgerðum og uppspretta skemmtilegra umræðna um bókmenntir. Því um það snýst málið: það er gaman að lesa en enn skemmtilegra að tala saman um bækur og glíma við að koma hugsunum sínum og vangaveltum um þær í orð.

Stella Blómkvist: hinsegin frumkvöðull

Síðan ég skrifaði inngangsorðin að pistlaröðinni um Stellu okkar Blómkvist hefur ýmislegt gerst. Í fyrsta lagi hafa þau merku tíðindi orðið að tíunda Stellubókin er komin út, Morðið í Snorralaug, og í öðru lagi er Stella rithöfundur orðin vinkona mín á Facebook. Það er gósentíð framundan.

Í þriðja lagi átti Stella stórafmæli því hún er fædd þann merka dag 19. júní 1969, kvenréttindadaginn árið 69 – enda sjálfstætt kjarnakvendi og mikið fyrir kynlíf. Það eru engar tilviljanir til þegar hún er annars vegar. Til hamingju Stella!

Þessi tvö atriði, kjarnakvendið og kynlífið, eru líka með því hressilegasta við bækurnar um Stellu og marka þeim ákveðna sérstöðu. Í upphafskafla fyrstu bókarinnar, Morðsins í Stjórnarráðinu (1997), er Stella timbruð og hundfúl því næturgagnið, folinn sem hún tók með heim kvöldið áður, sofnaði í miðju kafi og stóðst alls ekki gæðakröfur. (Hér er reyndar rétt að setja vávörun og varnagla: hún beitir manninn ofbeldi, sem er vitanlega mjög vafasamt og verðskuldar nánari umfjöllun síðar.) Næsta bók, Morðið í sjónvarpinu (2000), hefst svo á þessum orðum:

„Aaaah!“
Heitur straumurinn spýtist af ofsakrafti út um örmjóu kringlóttu götin á silfurgráa handfanginu og þrýstir sér inn. Lengra og lengra. Harður og mjúkur í senn. Krefjandi, Gælir við hungrað holdið eins og fingrafimur foli.
„Ummmm! “
Ég legg aftur augun, slaka á og opna upp á gátt fyrir þessum freka, heita, vota elskhuga. Leyfi honum að leika sér að vild. Kveikja æsilega elda. Magna upp ástríðufullt bál sem rís hærra og hærra. Allt þar til hámarkinu er náð.
Næstum því.

Betri sjálfsfróunarsena en vandfundin í íslenskum bókmenntum, leyfi ég mér að slengja fram, og fáar bækur byrja á svo hressilegum kynlífslýsingum (Mánasteinn eftir Sjón skákar þessari reyndar. Það keppir fátt við það upphaf.)

Stella er sem sagt mikil kynvera og í hinsegin samhengi er hún frumkvöðull. Hún er bæði með körlum og konum og lýsingarnar á ástríðum hennar í garð kvenna og kynlífi með þeim eru dálítið magnaðar þegar hugað er að því að svo opinská og ítrekuð umfjöllun um þau málefni var fremur sjaldséð á þessum tíma.

Þegar fyrsta bókin kom út leit samt ekki út fyrir að neitt hinsegin væri þar á ferð. Morðið í Stjórnarráðinu var kynnt svo:

Hér er á ferðinni ný íslensk spennusaga úr samtímanum sem fjallar um lögfræðinginn Stellu, sem er orðheppin og harðsoðin, nokkuð upp á karlhöndina og finnst viskísopinn góður. Hún brynjar sig með spakmælum frá mömmu og sérhæfir sig í að innheimta skuldir sem hún hefur keypt.

Hér er Stella í fyrsta skipti kynnt fyrir íslenskum lesendum og helstu eiginleikum hennar er lýst, sem margir einkenna hana í gegnum allar bækurnar: hún er góð í að koma fyrir sig orði, lætur ekki valta yfir sig, safnar grimmt í Stellusjóðinn (bankareikninginn), finnst fátt betra en að drekka viskí og vitnar oft í spakmæli mömmu sinnar. Hins vegar er hér ein öskrandi þögn: Stella er sannarlega upp á karlhöndina en kvenhöndina líka – það vitum við núna. Umfjöllunin um kvennaástir Stellu í Morðinu í Stjórnarráðinu er varfærin og líta má á hana sem eins konar formála að þeim söguþræði. Undir lok bókarinnar sefur hún í fyrsta skipti hjá konu og eitthvað vaknar innra með henni:

Eiginlega verð ég ekki einu sinni hissa. Það er engu líkara en að é ghafi innst inni búist við þessu. Bara neitað að hugsa um það. (180)

Engar lýsingar á kynlífinu fylgja í þetta skiptið, sem er óvenjulegt, og mögulega er þetta í fyrsta og eina skipti sem Stella leyfir bólfélaganum að ráða förinni, því yfirleitt er það hún sem stýrir – harðri hendi. Eftir þetta verður svo ekki aftur snúið; í bókunum sem á eftir koma er hún bæði með körlum og konum en áhuginn á konum er jafnan ástríðufyllri og tilfinningaríkari. Sérstaða Stellu í íslenskri hinsegin bókmenntasögu felst ekki síst í því hversu hreinskilin og opinská hún er með sínar þrár og langanir – hræðsla eða efasemdir um réttmæti samkynja ásta og kynlífs eru ekki til í hennar hugarheimi.

Stella okkar Blómkvist

Ég er dálítið í því þessa dagana að taka fyrir bókaseríur. Um daginn las ég Múmínálfabækurnar í tímaröð; nú er það flokkur sem er vissulega dálítið öðruvísi en engu minni snilld: bækurnar um Stellu Blómkvist. Þessi lestur er verkefni sem ég lofaði sjálfri mér að takast á við fyrir nokkrum mánuðum síðan eftir frábært kvöld með bókmenntaklúbbi Samtakanna ’78 (sem er öllum opinn og tekur fagnandi á móti nýjum lestrarhestum). Þar var Stelluþema; allar viðstaddar höfðu valið sér eina eða fleiri af Stellubókunum níu og svo ræddum við þær af miklum ákafa í tvo tíma – svo æstar vorum við að við fórum heim með metnaðarfull áform um Stelluinnblásið ritunarverkefni og stofnuðum (lokaðan og leynilegan) Facebook-hóp helgaðan Stelluást. Afraksturinn kemur mögulega í ljós einhvern tímann við gott tilefni, þegar vel liggur á okkur.

Upplýsingar um Stellu eru ekki alltaf sérlega aðgengilegar.

Verkefnið felur sem sagt í sér að lesa níu glæpasögur eftir Stellu Blómkvist, sem er ekki til nema sem dulnefni óþekkts íslensks rithöfundar, um Stellu Blómkvist, sem er harðsoðið lögfræðingskvendi sem elskar kynlíf, mótorhjól og viskí og er nokkuð sama um kyn þeirra sem hún sefur hjá – bara að þau séu sexí og standi sig í rúminu.

Nei, þetta er reyndar ekki alveg rétt, því nú rétt áðan komst ég að því að verkefnið hefur stækkað að umfangi. Haldið ykkur fast, tíunda Stellubókin er á leiðinni:

Já, Stella rithöfundur er nefnilega á Facebook og búin að vera í mörg ár, líklega lengur en ég. (Við erum ekki vinir, sem útskýrir af hverju ég var fyrst núna að sjá þessa merku frétt. Ég var hins vegar rétt í þessu að mana mig upp í að senda vinabeiðni og bíð með hjartað í buxunum.) Hún hegðar sér þar eins og hver annar höfundur, póstar viðtölum við sjálfa sig, dómum um bækur og fréttum af metsölulistum, skrifum, útgáfusamningum og sjónvarpsþáttaaðlögunum. Hún elskar Sinéad O’Connor, Sylviu Plath og John Lennon – já og svo hefur hún gert okkur þann greiða að safna saman „spakmælum mömmu“ úr fyrstu bókunum. Þau eru betri en flestir málshættir og þurfa að rata inn í páskaegg ekki síðar en árið 2020. Morgundagurinn byrjar ekki fyrr en á morgun. Sagði mamma.

Vonda málshætti er gott að Stella svolítið upp. Sagði mamma.

En Stella rithöfundur er samt engin Stella Blómkvist og ber fá persónueinkenni hennar – hún er skapari hennar fyrst og fremst. Þetta kemur vel fram í viðtölum sem mjög oft snúast um stóra leyndarmálið, nafn höfundarins, frekar en bækurnar sjálfar og efni þeirra. (Druslubókadömurnar tóku reyndar fantafínt viðtal við Stellu um árið og spurðu mun áhugaverðari spurninga, á borð við með hvaða íslenska rithöfundi hún vildi helst deila viskíflösku. Svarið var auðvitað Vigdís Gríms.) Netið er líka fullt af spjallþráðum sem bera fyrirsögnina „Hver er Stella Blómkvist?“ En ég er sem sagt orðin frekar þreytt á þeirri umræðu og gladdist mjög í fyrrnefndum bókaklúbbi því þar ræddum við lítið sem ekkert um manneskjuna á bak við dulnefnið. Það var ekki planað eða skipulagt markmið, umræðan þróaðist bara þannig. Það kom nefnilega upp úr dúrnum að það voru bækurnar sjálfar, persónusköpunin og stíllinn, sem við vorum hrifnar af. Skítt með höfundinn – er hann ekki dauður hvort sem er?

(Jú, auðvitað er líka gaman að fabúlera um höfundinn en samt aðallega um fabúlasjónirnar sjálfar. Ein af algengum kenningum sem ég hef heyrt undanfarið er að Stella sé Lilja Sigurðardóttir, sem nú er að gera garðinn frægan víða um heim með sínum eigin glæpasögum. Ég er svolítið hrifin af þeirri kenningu, þótt ég hafi reyndar enga trú á að hún sé sönn, því það fer ekki framhjá neinum að Lilja er heitasti aðdáandi Stellu á Facebook, lækar og kommentar með ástarorðum og hjörtum í gríð og erg. Það er eitthvað fallegt við slíkan narsissisma.)

Stella er nefnilega dálítið mögnuð og bækurnar merkilegar. Þær eru skrifaðar í upphafi glæpasagnabylgjunnar á Íslandi, sú fyrsta kom út árið 1997 um leið og fyrsta bók Arnaldar Indriðasonar. Þær hafa verið þýddar á nokkur tungumál, eru vinsælar t.d. í Þýskalandi og sjónvarpsþáttaserían sem gerð var eftir þeim hefur líka gengið vel erlendis. Þessar bækur eru því alveg jafnmikill hluti af íslenska glæpasagnavorinu og -sumrinu og bækur Arnaldar. Þær hafa samt verið talaðar dálítið niður, eða kannski er frekar eins og það sé ekki tekið almennilegt mark á þeim. Þetta segi ég án þess að hafa lagt á mig að lesa ritdómana alla og kannski er þetta byggt á mínum eigin fyrirframgefnu (rang)hugmyndum. Lausleg leit að skrifum um Stellubækurnar, öðrum en ritdómum, leiddi fátt í ljós annað en eina ágæta BA-ritgerð og það er auðvelt að bölsótast yfir slíku, en svo mundi ég eftir því að forsætisráðherra vor skrifaði um Stellu og fleiri í lokaritgerðum sínum um íslenskar glæpasögur, svo líklega er ekki yfir miklu að kvarta.

En hvað um það. Alltaf má gott bæta. Á næstunni munu birtast hér misalvarlegir pistlar um Stellubækurnar, ekkert endilega í tímaröð eða neinni lógískri röð. Áherslan verður væntanlega oft, en ekki alltaf eða endilega, lögð á aðalpersónuna en persónusköpunin – Stella sjálf – er jú það sem gerir bækurnar einstakar. Hún er aðalmálið.

Það er ekki öllum gefið að ljúga með stæl. Sagði mamma.

Að læra að skilja veturinn, eða múmínálfurinn sigrast á fordómum

Á síðustu vikum hef ég dundað mér við að lesa allar bækurnar um múmínálfana sem komnar eru út á íslensku, það er að segja textabækurnar en ekki myndasögurnar (ég á þær eftir). Innblásturinn var ný múmínbók sem kom út hjá Máli og menningu í fyrra en í henni eru þrjár sögur, Halastjarnan og Pípuhattur galdrakarlsins, sem komu fyrst út í þýðingu Steinunnar Briem 1971 og 1968, og svo fyrsta sagan, Litlu álfarnir og flóðið mikla, sem birtist þarna í fyrsta skipti á íslensku í þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Þessi nýja bók er bæði frábær og falleg og ég hlakka mjög til að fá í hendurnar næsta bindi en í Kiljunni á miðvikudagskvöldið var sagði Þórdís að það væri væntanlegt. Í því verða Örlaganóttin og Vetrarundur í Múmíndal, sem komu út í þýðingu Steinunnar 1970 og 1969, og svo glæný þýðing Þórdísar á Endurminningum múmínpabba.

Það er skemmst frá því að segja að ég er hugfangin og upprifin – þetta eru einfaldlega bestu bókmenntir sem ég hef lesið mjög lengi. Þetta eru kannski gamlar fréttir, vita ekki allir að Tove Jansson var snillingur og þessar bækur eru ódauðlegar? Jú, líklega, nóg er látið með þær og allt persónugalleríið, en samt, hversu oft verðum við ekki fyrir vonbrigðum þegar við endurlesum barnabækur æskunnar?

Ég las bækurnar líklega flestar (allavega eru þær til á bókasafninu í Mývatnssveit og ég las flest sem þar var) en var samt alltaf hrifnari af japönsk-hollensku teiknimyndaþáttunum. Ég man til dæmis vel daginn þegar fyrsti þátturinn var sýndur á RÚV, ég átti afmæli og allir gestirnir hlupu inn í stofu að horfa, með mig í fararbroddi. Þetta hefur líklega verið í byrjun tíunda áratugarins.

Núna er þessu þveröfugt farið. Þegar kona á fertugsaldri fellur fyrir barnabók er nokkuð óhætt að slá því föstu að bókin sé í fyrsta lagi vel skrifuð og í öðru lagi á fleiri en einu plani og með fleiri en einn innbyggðan lesanda, það er hún sé skrifuð fyrir bæði börn og fullorðna. Þótt sagan og persónurnar í slíkum bókum séu einfaldar og höfði til barna eru þær líka flóknar og kalla á dýpri túlkun. Múmínbækurnar eru einmitt þannig – í þeim er gríðarmikil heimspeki, pólitík og tilvistarlegar pælingar. Já, og þær eru heilmikið hinsegin.

Tove Jansson átti í ástarsamböndum við konur og lífsförunautur hennar var kona, Tuulikki Pietilä. Þetta er staðreynd sem lengst af var ekki mikið rætt um en er þekkt í dag, ekki síst eftir að ævisaga Tove, skrifuð af Boel Westin kom út árið 2007 og í enskri þýðingu 2014: Tove Jansson: Life, Art, Words. Boel, sem er bókmenntafræðingur, ræðir þar opinskátt um ástir og sambönd Tove og nefnir til dæmis hvernig ýmsar persónur í Múmíndal eiga sér ákveðnar fyrirmyndir í fjölskyldu hennar og vinum. Hún fléttar líka umfjöllun og greiningar á myndverkum og textum Tove inn í frásögnina sem dýpkar ævisöguna mjög.

Þórdís Gísladóttir hefur skrifað afskaplega skemmtilega grein um litlu verurnar sem birtast allt í einu í Múmíndal í Pípuhatti galdrakarlsins og bera gælunöfn Tove og ástkonu hennar, Vivicu Bandler, Tofslan og Vifslan, eins og kemur fram í ævisögunni. Á íslensku heita verurnar reyndar talsvert minna krúttlegum nöfnum, Þöngull og Þrasi, auk þess sem þær eru ótvírætt karlkyns. Í frumútgáfunni eru þær af óræðu kyni og þær klæðast kjólum á öllum myndum. Ég get ekki annað en grátið þá möguleika sem hér fóru forgörðum hjá Steinunni, þeim annars ágæta múmínþýðanda. Tófsla og Vífsla eða Tósla og Vísla – hvort tveggja passar vel við „sla-tungumálið“ þeirra. (Reyndar heita þessar elskulegu verur Thingumy og Bob á ensku – má ég þá frekar biðja um Þöngul og Þrasa). En hvað um það, grein Þórdísar, „Litbrigði ástarinnar – um samkynhneigð í heimi múmínálfanna“, birtist í tímaritinu Börn og menning árið 2008 og var síðar birt á bloggsíðu Druslubóka og doðranta svo það er ekki eftir neinu að bíða – lesið hana!

Þöngull og Þrasi / Tósla og Vísla gleðja múmínsnáðann með því að sýna honum leyndarmálið sitt: konungsrúbíninn sem er ótvírætt tákn ástarinnar, ekki síst þeirrar ástar sem þarf að fela.

Vetrarundur í Múmíndal er önnur bók með hinsegin undirtexta en í henni segir frá því þegar múmínsnáðinn vaknar af vetrardvalanum langt á undan áætlun og þarf að takast á við líf um miðjan vetur; eitthvað sem hann hefur aldrei upplifað áður. Hann er einmana, því fjölskyldan og vinirnir eru sofandi, og pirraður og reiður út í þennan nýja og framandi heim: snjóinn, myrkrið og kuldann og ekki síst þá staðreynd að Múmíndalur er fullur af ókunnugum verum sem gera sig heimakomnar þar. Þessar verur eru skrýtnar og skilja hann ekki, hafa engan áhuga á að heyra um sólina og sumarið, sundferðir og epli sem vaxa á trjánum, heldur láta eins og veturinn sé eðlilegt ástand. „Hérna ráfar maður inn í eitthvað alveg nýtt og hittir ekki eina einustu lifandi veru sem hefur áhuga á að spyrja hvers konar heimi maður hafi lifað í hingað til. Meira að segja Mía litla hefur enga löngun til að tala um alvöruheiminn,“ kvartar hann. (Mía vaknaði sem sagt líka en hún hefur vitanlega enga samúð með múmínsnáðanum.) Við þessu fær hann mikilvægt svar, sem hann reyndar er ekki tilbúinn að taka alvarlega (strax). Það kemur frá Tikku-tú, konunni í rauðröndóttu peysunni sem býr í því sem áður var baðhús múmínálfanna: „Og hvernig er hægt að vita hvor heimurinn er alvöruheimur?“ (bls. 40)

Tikka-tú, múmínálfurinn og snjórinn.

Tikka-tú er vetrarvera sem lítur ekki svo á að baðhúsið sé eign múmínálfanna – á veturna á hún það. Á veturna gilda nefnilega aðrar reglur og önnur viðmið og hún reynir að útskýra fyrir múmínsnáðanum að það sé ýmislegt fleira til en það sem hann þekkir – að það sé fleira „alvöru“ en það sem hann viðurkennir:

Þessi vetrarheimur er hinsegin heimur; veröld þeirra sem ekki passa inn í sumrin, vorin og haustin og lifa því í felum en blómstra þegar þeirra árstíð kemur. Tikka-tú er sú sem hjálpar múmínsnáðanum að skilja að hans viðmið eru ekki þau einu réttu og undir hennar leiðsögn lærir hann að hætta að vera hræddur og reiður út í það sem hann skilur ekki eða er honum framandi. Hann lærir líka að vera gjafmildur og gestrisinn og sigrast á eiginhagsmunasemi; um veturinn fyllist Múmíndalur af flóttadýrum af svæðum þar sem enga fæðu er að fá og eftir langa umhugsun og mikla tregðu býður hann þeim að búa í húsinu og borða sultubirgðirnar í kjallaranum. Múmínsnáðinn lærir sem sagt að elska veturinn og allt sem honum fylgir, rétt eins og aðrar árstíðir, og þegar upp er staðið er hann himinsæll yfir því að hafa öðlast þessa lífsreynslu: „Ég á allt árið. Já, líka veturinn. Ég er fyrsti múmínálfurinn sem hefur lifað í heilt ár samfleytt“ (bls. 107). Vetrarundur í Múmíndal er sem sagt, í þessum skilningi, þroskasaga þess sem horfist í augu við eigin fordóma og lærir að fagna fjölbreytileika lífsins – og ein mikilvægustu skilaboðin eru að við þurfum ekki að fella allt og alla inn í sama mót. Heterónormið er ekki meira alvöru en hvað annað.

Aumingja morrinn, svo misskilinn.

Tikka-tú er líka líklega fyrsta persónan í múmínbókunum sem er ekki hrædd við morrann og bendir á að hann er fyrst og fremst einmana og óhamingjusamur. Í Pípuhatti galdrakarlsins er morrinn á höttunum eftir rúbíninum sem Þöngull og Þrasi gæta eins og sjáaldurs auga síns og hann er þar eins konar óvinur ástarinnar, ískaldur, eyðileggjandi og hættulegur. Í Vetrarundrum í Múmíndal segir Tikka-tú hins vegar múmínsnáðanum að ástæðan fyrir því að morrinn sæki í eld og ljós – sem hann drepur ef hann getur með því að setjast á það og frysta það – sé að honum sé kalt og hann sé einmana. Hann er bara klaufalegur í samskiptum greyið. Seinna á múmínsnáðinn svo eftir að vingast við morrann í Eyjunni hans múmínpabba. Hluti af visku Tikku-tú og þroska múmínsnáðans er því að heimurinn er ekki svart-hvítur, góður eða illur, heldur getur víðsýni og samkennd, einnig með þeim sem virðast hranalegir og ógnandi, kallað fram það besta í fólki.

Skissa af Tikku-tú í bréfi frá Tove til Tuulikki sumarið 1956. Boel Westin –Tove Jansson: Life, Art, Words, 11. kafli.

Í bók Boelar Westin (11. kafla) kemur fram að Vetrarundur í Múmíndal var skrifuð veturinn sem Tove varð ástfangin af Tuulikki og samband þeirra hófst. Rómantísk saga fylgir: á ísköldu vetrarkvöldi í Helsinki í mars 1956 drukku Tove og Tuulikki vínflösku og hlustuðu á tónlist og ekki varð aftur snúið, Tove gekk ástfangin heim og „ferðalag hennar um Helsinki varð að ferðalagi um vetrarundur í Múmíndal.“ Persónan Tikka-tú er skilgetið afkvæmi þessara kynna; „sambandið milli konunnar Tuulikki og persónunnar Tikka-tú er augljóst öllum þeim sem geta og vilja sjá það,“ segir Boel. Hún vitnar í bréf Tove til hennar sjálfrar árið 2000 þar sem segir:

„Rétt eins og í bókinni kenndi hún [Tuulikki] mér að skilja veturinn. Ég yfirgaf hina skelfilega hversdagslegu sumarverönd múmínfjölskyldunnar og hætti að skrifa um það sem var elskað heitt og myndi ávallt verða eins, og reyndi að skrifa bók um hversu helvítlegir hlutirnir geta orðið.“

Boel greinir Vetrarundur í Múmíndal reyndar ekki með hinsegin gleraugu á nefinu, líkt og ég hef gert hér, en það er ljóst að upprunasaga bókarinnar og ævisaga Tove mælir í það minnsta ekki gegn slíkri túlkun, þvert á móti. Slíkt skiptir þó ekki öllu máli – bækur má vitanlega greina óháð höfundi og samhengi. Hinsegin þemu og undirtextar í bókum Tove Jansson eru sannarlega til staðar – og eru miklu fleiri en hefur verið rakið hér – jafnvel þótt við vissum ekkert um hana sjálfa eða skyldleika persóna hennar og ástkvenna.

Kynvillta bókmenntahornið er vaknað …

… og nú á nýju heimili. Og með Instagram-reikning!

Glöggir lesendur muna að þessu bókmenntahorni er gjarnt á að vakna endurnært, setja sér fögur og fullkomlega óraunhæf fyrirheit og sofna svo mjög fljótlega aftur og sofa lengi, dálítið eins og múmínálfur. Við skulum því stilla öllum væntingum í hóf en gott kaffi er allavega ágætis byrjun.

Næsta færsla mun mögulega fjalla um eitthvað af því sem sést á þessari mynd.

Mundu, líkami

Í lok október varð ég fyrir hýrri hugljómun og ákvað að hella í mig kaffi og vekja Kynvillta bókmenntahornið til lífsins. Síðan hefur ekkert gerst á þessum vettvangi en ég hef þó drukkið ótæpilega mikið kaffi og skrifað ýmislegt annað. Ég er líka komin á þá skoðun að það sé óáhugavert og stundum óþægilegt að taka þátt í umræðu um bókmenntir á Íslandi í nóvember og desember. Jólabókaflóðið er ágætt að mörgu leyti en álagið og áreitið á útgefendur, höfunda, gagnrýnendur og lesendur þessar fáu vikur er fáránlegt og áherslan á stjörnugjöf og söluvænlegar setningar í ritdómum sem hægt er að slá upp í auglýsingum og á bókakápum fer vægast sagt í taugarnar á mér. Það er því ekki leti sem hefur valdið þögninni á þessari síðu heldur miklu fremur mótþrói og fýla, þótt ég búist reyndar ekki við að neinn hafi áhuga á að vitna í þessi amatöraskrif mín. En nú er kominn janúar, sem betur fer, og við getum farið að tala um eitthvað skemmtilegt.


mundulikamicopy
Mundu, líkami. Óritskoðuð grísk og rómversk ljóð – Útgefandi: Partus, 2016 – Þýðandi: Þorsteinn Vilhjálmsson

Mundu, líkami er safn þýðinga Þorsteins Vilhjálmssonar á grískum og rómverskum ljóðum sem fæst hafa birst áður á prenti á íslensku, enda eru þau þess eðlis að þau hafa oft orðið ritskoðun að bráð. Þetta eru, með öðrum orðum, ljóð sem hafa á síðustu tveimur árþúsundum og rúmlega það gjarnan þótt ósæmileg og höfundunum til ósóma. Sum eru níðkvæði, önnur hugljúf ástarljóð og nokkrum er líklega best lýst sem gredduljóðum en öll eiga þau sameiginlegt að fjalla opinskátt um ýmsar hliðar kynferðislífsins – til dæmis samkynja ástir og kynlíf.

Ég heyrði og sá Þorstein lesa upp úr bókinni tvisvar fyrir jól og skemmti mér mjög vel. Í fyrsta lagi þekkir hann ljóðin auðvitað inn og út (hoho), kann að taka listrænar, merkingarþrungnar pásur og hlær ekki þótt áheyrendur flissi eða frussi yfir dónaskapnum. Ég mæli sem sagt með Þorsteini og ljóðunum ef einhver ykkar vantar skemmtiatriði í afmæli eða við önnur tækifæri – það mun ekki klikka.

Í öðru lagi heillaðist ég af því hvað þetta er hressandi og gott framtak: að þýða eldgömul dónaljóð eftir grísk og rómversk skáld sem sum hafa verið tekin í kanónutölu, kannski ekki síst af því að það hefur tekist að ýta dónaljóðunum til hliðar og fela þau fyrir heiminum. Þorsteinn byrjaði að þýða ljóðin þegar hann var að kenna í Menntaskólanum í Reykjavík og fannst skorta áhugavert lesefni á íslensku handa nemendunum. Í stað þess að gefast upp og nota það sem til var þýddi hann einfaldlega það sem hann vildi kenna. Þetta er algjör snilldarhugmynd – ég get ekki ímyndað mér betri aðferð til að vekja áhuga syfjaðra menntaskólanema á klassískum fræðum og forngrískri og rómverskri ljóðlist. Ímyndið ykkur drungalegan mánudagsmorgun og kennslan hefst á þessu:

Þú þrýstir rassinum sem allir voru að glápa á upp að veggnum.
Elsku drengur! Af hverju freistarðu steinsins? Hann getur ekkert gert.

(Straton frá Sardis, AG 12.213, bls. 45)

Í þriðja lagi er þessi bók svo auðvitað áhugaverð í mínum augum af því að þar birtast á íslensku ljóð um kvenna- og drengjaástir sem eru ómetanlegar heimildir um samkynja ástir og kynferðislíf til forna – hugmyndaheim sem er gjörólíkur samtímahugmyndum okkar um samkynhneigð en hefur engu að síður haft mjög mikil áhrif á það hvernig við hugsum um kynferðisleg samskipti fólks. Sögu- og menningarlegt gildi þessara þýðinga er því mikið.*

1024px-wallpaintingtomb_paestum_italy_greekcolony_sm
Veggmynd í forngrísku grafhýsi í bænum Paestum á Ítalíu

Í inngangi að bókinni fjallar Þorsteinn stuttlega um drengjaástir að fornu og þann grundvallarmun sem var á þeim og ástum karla til kvenna. Samkvæmt hefðum og hugmyndaheimi þessa tíma voru ástir fullorðinna karla og ungra drengja samþykktar og í raun upphafnar en um þessi sambönd giltu mjög ákveðnar reglur, tengdar til dæmis aldri og samfélagslegri stöðu, og þau eru ekki nema að hluta til sambærileg við samkynhneigð og samkynja sambönd 20. og 21. aldar. Um ljóðahefðir tengdar ástum karlskálda til drengja og kvenna segir Þorsteinn (bls. 10):

Drengjaástirnar eru okkur afar framandi í dag, en þær voru hefðbundinn hluti hins forna feðraveldis og fóru fram eftir ákveðnum óskrifuðum leikreglum sem sumar eru kunnuglegar, aðrar ekki. Karlskáldið átti að eltast við sér yngri dreng, sem var æsandi og fagur eingöngu á hinu stutta tímabili frá kynþroska og fram að skeggvexti. Drengurinn átti að láta elta sig en ekki láta of auðveldlega undan skáldinu; það var til vitnis um lauslæti. Skáldaástir karla til kvenna fylgdu öðrum reglum. Þær beindust að konu sem átti að vera gift öðrum og fjölluðu ljóðin jafnan um þau brögð og brellur sem þurfti til að leyna sambandinu.

Á öðrum tímum og í samfélögum þar sem kynferðisleg sambönd karla eru litin hornauga, ólögleg eða fordæmd hafa grísku og rómversku ljóðin um drengjaástirnar gjarnan orðið ritskoðun að bráð. Dæmi um það eru ljóð Catullusar frá 1. öld f.kr. en Þorsteinn greinir frá því að þeim hafi oft verið ýtt til hliðar í rannsóknum á verkum hans – til dæmis þessu hugljúfa standpínuljóði um unglinginn Juventinus (bls. 25):

48.

Hunangssæt augu þín, Juventinus –
ef mér væri leyft að kyssa þau enn oftar –
þrjúhundruðþúsund sinnum oftar –
ég held að ég yrði samt þá ekki fullsaddur.
Ekki einu sinni ef uppskera kossa okkar
yrði þykkari en fullþroska kornstönglar.

Það sækir óþægileg perralykt á við þennan lestur en samt er líka eitthvað hrífandi við drengjaástaljóðin. Kannski er það hin sögulega fantasía eða draumsýn sem hefur lengi fylgt forngrísku textunum; það er að segja sú staðreynd að ljóðin eru ort í tíma og rúmi sem er okkur fjarlægt og bera vitni um samfélag þar sem ástir karlmanna – af mjög ák800px-pederastic_courtship_louvre_ca3096_n2veðnu tagi, vissulega – voru upphafnar. Sem aftur minnir okkur á að tímarnir breytast og mannfólkið með og það sem einu sinni var litið jákvæðum augum gæti sem best fallið aftur í kramið í framtíðinni þótt það sé fordæmt í augnablikinu. Grísku drengjaástirnar voru, og eru sjálfsagt enn, söguleg fyrirmynd karla sem löðuðust að öðrum körlum og
þangað hafa margir leitað til að fá staðfestingu á því að tilfinningar þeirra og kynlíf eigi rétt á sér. Upphafning þeirra hefur án nokkurs vafa ýtt undir vafasöm sambönd fullorðinna karla og ungra drengja og misnotkun líka – ég ætla ekki að gera tilraun til að líta framhjá því – en hún hefur líka verið haldreipi í hómófóbískum, einmanalegum heimi. Og þá er ég komin í heilan hring með þessa umræðu. Ætli niðurstaðan sé ekki sú að það megi bæði hrífast og hrylla sig yfir sama ljóðinu?

Næsta ljóð eftir Catullus sem birtist í Mundu, líkami er allt annars eðlis og dregur skýrt fram andstæðurnar milli þess sem var samfélagslega samþykkt og þess sem var fordæmt eða niðurlægjandi í samskiptum karla. Það hefst á eftirfarandi línum (bls. 26):

16.

Ég mun ríða ykkur í munn og rass,
Aurelius undirlægja og Furius rassálfur,
sem hélduð – út frá ljóðunum mínum,
því þau eru eitthvað væmin –
að ég væri einhvers konar pervert.

Hér er um að ræða hótanir en ekki ástarorð; kvæðið er níð þar sem ljóðmælandi lýsir því hvernig hann ætlar að niðurlægja andstæðinga sína eða óvini með því að serða þá. Þótt drengjaástir væru samþykktar var mikil niðurlæging fólgin í því fyrir fullorðinn karlmann að verða uppvís að því að hafa verið riðið af öðrum karlmanni. Sá sem var „gerandinn“ í slíkum aðstæðum var aftur á móti í annarri stöðu og ekki endilega bendlaður við öfuguggahátt; til forna og á miðöldum gat það verið til marks um vald og karlmennsku að serða annan karl. Þessi tvö ljóð Catullusar sýna því hversu miklu máli samhengið skiptir þegar um er að ræða samkynja kynlíf, ástir og þrár að fornu.

Með hvað er ég ánægðust í þessu ljóðasafni? Eru það drengjaljóðin eða níðkvæðin, gegnsósa af karlmennsku? Nei, ekki þau.

Eldheit heteróerótík eins og í ljóði Ovidiusar um Corinnu með hvíta hálsinn í efnislitla náttkjólnum (bls. 31–32)? Ekki heldur.

Þýðingarnar sjálfar? Nei, þótt þær séu skemmtilegar og, að því ég best fæ séð frá mínu sjónarhorni sem skil ekki staf í grísku, vel gerðar. Mér fannst við fyrstu sýn Þorsteinn nota fremur nútímalegt orðalag sem ég hélt að væri í mótsögn við aldur ljóðanna en þegar ég fór að kanna málið og leita að dæmum um þetta nútímaorðfæri fann ég fátt. Ég er helst á því að það sem orkaði á mig sem nútímalegt og óvenjulegt við þessar þýðingar hafi verið skortur á tepruskap. Þorsteinn notar einfaldlega orð eins og ríða, graður, píka, typpi og drusla; orð sem við erum ekki vön að sjá í gömlum ljóðum (eða ljóðum yfirhöfuð?) en eru líklega einmitt nákvæmar þýðingar á því sem ort var í upphafi.** Og það er vel.

saffo
Saffó

Uppáhaldið mitt í þessari bók, og skyldi kannski engan undra, eru ljóðabrotin fjögur eftir Saffó; skáldkonuna sem bjó á eynni Lesbos á 7.–6. öld f. kr. Hún orti meðal annars ástarljóð til kvenna, sem hún er einna best þekkt fyrir, en þau hafa ekki verið til í íslenskum þýðingum nema hið svokallaða brot 31. Um það brot og þýðingasögu þess hefur Þorsteinn ritað grein sem birtist í greinasafni um hinsegin sögu sem er væntanlegt síðar á þessu ári.*** Ég ætla ekki að segja neitt um brot 31 – því þið eigið að lesa greinina þegar þar að kemur – annað en að það hefur orðið fyrir barðinu á hinu íslenska gagnkynhneigða og hómófóbíska regluveldi og þær samkynja ástir og þrár sem birtast í frumtextanum hafa í sumum tilfellum verið þurrkaðar út eða gerðar gagnkynhneigðar. Viðhorf þýðenda, samfélagsleg gildi á þeim tíma þegar texti er þýddur og aðferðir við þýðinguna hafa gríðarleg áhrif á viðtökur texta og hugmyndir lesenda um þá og höfunda þeirra og því er mjög mikilvægt að fá íslenskar þýðingar á ástarljóðum Saffóar sem leitast ekki við að fela að þau eru ort til kvenna.

saffohandrit
Brot úr ljóði eftir Saffó, varðveitt á Altes Museum Berlin. Mynd: Masur – CC BY-SA 2.5, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=2648372

Eitt af því áhugaverða við ljóð Saffóar er að þau eru aðeins varðveitt í brotum og stundum vantar inn í þau orð eða heilar línur, jafnvel margar, af því að sandormar nöguðu sig í gegnum papýrushandritin (sjá inngang að kaflanum um Saffó bls. 13). Það er fátt eins táknrænt og ormur sem étur ljóð eftir konu um kvennaástir – þetta er ritskoðun hins gagnkynhneigða feðraveldis í hnotskurn! En afleiðingarnar eru sem sagt þær að lesendur þurfa að nota ímyndunaraflið til að búa til það sem er horfið eða ósagt og það er alls ekkert slæmt – jafnvel enn betra. Í Mundu, líkami eru eyðurnar táknaðar með bilum, til dæmis í þessum lokalínum brots 94 (bls. 16):

og á mjúku rúminu
mjúku
svalaðirðu þrá þinni
og ekki finnst nokkur        né nokkuð
hof
sem við heimsóttum ekki
eða laut         dans

Dramatískari lok á ljóði eru vandfundin. Hvað gerist í lautinni? Eða milli hennar og dansins? ÉG VIL VITA MEIRA UM DANSINN!

Í ástarljóðum Saffóar er enginn eltingaleikur í gangi eða (augljóst) valdamisræmi milli ljóðmælanda og ástarviðfangsins heldur tjá þau heita ástarþrá og oft söknuð vegna þess að konan sem ljóðmælandi þráir er ekki lengur nálægt henni. Og það er verulega magnað að lesa 2700 ára gamlan texta sem fjallar um djúpar tilfinningar sem við þekkjum svo vel og getum tengt við.

Þráin skók hjartað
í brjósti mér, eins og vindur sem skellur á fjallaeik.

(Saffó, brot 47, bls. 15)


* Ég ætla ekki að þykjast vita sérlega mikið um forngríska eða -rómverska menningu eða sögu. Það sem ég tel mig vita um drengjaástir að fornu hef ég til dæmis úr síðari tveimur bindum Michel Foucaults um sögu kynverundarinnar, The Use of Pleasure (L’Usage des plaisirs, 1984) og The Care of the Self (Le Souci de soi, 1984), og bókinni One Hundred Years of Homosexuality and Other Essays on Greek Love (1990) eftir David Halperin.

** Ég ítreka að þegar kemur að þýðingunum hef ég ekki hugmynd um um hvað ég er að tala þar sem ég skil ekki grísku. Þorsteinn hefði alveg eins getað ort þetta allt sjálfur, otað að mér grískum Eurovision-söngtexta til samanburðar og ég hefði samt trúað því að hann hefði verið að þýða forngrísk ljóð. Þetta er spurning um traust, gott fólk.

*** Greinasafnið um hinsegin sögu verður gefið út af Sögufélagi og er ritstýrt af Írisi Ellenberger, Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur og undirritaðri. Það verður fyrsta greinasafnið á sviði hinsegin rannsókna í hugvísindum.

Sölvi og álfarnir

 

Sökum anna er bókmenntahorn dagsins bæði seint á ferðinni og endurunnið en ég fékk leyfi til að endurbirta hér grein sem ég skrifaði fyrir hið merka rit Spássíuna fyrir þremur árum síðan. Ástæðan fyrir því að þessi grein, eða efni hennar, leitaði á mig núna var umræða um álfa og álfakynlíf sem spratt upp úr kennslustund um vistrýni með íslensku- og bókmenntafræðinemum í síðustu viku (allt mjög eðlilegt við það). En hér er sem sagt um að ræða umfjöllun um eina hómóerótískustu senu sem ég hef komið auga á í íslenskum bókmenntatextum – og að sjálfsögðu er annar aðilinn álfur.

Höfundarréttur á þessari grein tilheyrir Spássíunni og allar tilvísanir skulu vísa í þá útgáfu, hausthefti 2012, bls. 22–25.

– – – – – –

Það var sem undraeldur brynni: Um mögulega hinsegin skáldsögu

Íslensk skáldverk sem kalla má hinsegin bókmenntir eru sundurleitur og illa afmarkaður hópur.[1] Á síðustu árum hefur umfjöllunarefnið orðið æ algengara en fátt er aftur á móti vitað um hinsegin bókmenntir á íslensku fyrir 1970. Það þýðir þó ekki að þær séu ekki til. Ástæðurnar fyrir þögninni sem ríkir um þær eru margar; umræðuefnið var tabú, erfitt var að fá gefnar út bækur um efnið og höfundar þurftu því ýmist að gefa út bækur undir dulnefni,[2] fela viðfangsefnið milli línanna – eða hreinlega sleppa því að skrifa um það. Ef þeir skrifuðu of opinskátt um samkynja ástir og þrár áttu þeir á hættu að vera fordæmdir eða, sem var jafnvel líklegra, þaggaðir. Allt veldur þetta því að telja má líklegt að í íslenskum bókahillum og kössum leynist bækur sem hingað til hafa ekki verið taldar hinsegin en eru það samt.

Eitt umhugsunarefnið varðandi leitina að hinsegin bókmenntum tengist þeim mun sem er á samkynhneigð í nútímaskilningi og þeim hugmyndum sem fólk hafði um kynlíf og ástir fólks af sama kyni fyrr á öldum og fram á 20. öld. Eldri textar, sem nútímalesanda finnst augljóst að fjalla um samkynja ástir, þurfa ekki að hafa verið skrifaðir með slíkt í huga. Við getum því staðið frammi fyrir því að hafa bók í höndunum sem augljóslega fjallar um samkynja ástir í nútímaskilningi en gerir það kannski ekki ef litið er til ritunartímans og þeirrar bókmenntahefðar sem textinn er skrifaður inn í. Hér verður fjallað um eina slíka skáldsögu.

 

Undraeldur

„„Viltu þá yfirgefa mig?“ spurði hann með dýpri tilfinningu en Kjartan hafði grunað, að hann ætti. „Nei, mig langar líka til að vera með þjer, því jeg elska þig, bróðir, meir en nokkurn annan í heiminum […].“ Þá greip Ísvaldur í sárri hugaræsingu utan um Kjartan, og þeir fjellust í faðma, og Kjartan grjet heitum tárum, sem hrundu niður á brjóst Ísvaldi, og hann hjelt honum föstu taki og þrýsti löngum og heitum kossi á varir hans. En þá sleit Ísvaldur sig lausan og stóð eins og agndofa. Hann var eins og sá, sem algjörlega er frá sjer numinn, og yfir andlit hans brá fagnaðarljóma, og óvenjulegur roði kom á vanga hans. Hann tók báðum höndum um brjóst sjer og kallaði upp yfir sig: „Hvað er þetta! Hvað er þetta! Það er eins og sjóðheitur straumur læsi sig um mig allan! Og það er eitthvað, sem berst svo hræðilega um hjerna inni! Og þó líður mjer svo vel.“ Hann stóð grafkyrr, og það var sem undraeldur brynni úr augum hans. „Hvað er þetta! Ætli það sje dauðinn?“[3]

Þessi sena er vissulega bæði dramatísk og hómóerótísk. Vinirnir eru í uppnámi, aðskilnaður er yfirvofandi en um leið og samband þeirra verður líkamlegt birtir til í huga annars þeirra, ástin/girndin flæðir um æðar hans og hann reynir að átta sig á þessum óvæntu tilfinningum sem hann hefur ekki fundið fyrir áður, í það minnsta ekki svo greinilega. Flestir lesendur koma væntanlega auga á hvort tveggja ást og líkamlega þrá milli þessara tveggja karla og flest bendir til þess að þessi texti fjalli um ástir homma. Málið er þó ekki svo einfalt.

serafrikriksegirfra

Sagan um Sölva

Textinn sem hér um ræðir er tekinn úr skáldsögunni Sölvi (1947–1948) eftir séra Friðrik Friðriksson (1868–1961), æskulýðsfrömuð og einn áhrifamesta og virtasta Íslending fyrri hluta 20. aldar.[4] Séra Friðrik var hámenntaður maður, kennari og prestur, og hann helgaði líf sitt félagsstarfi fyrir drengi og unga menn. Hann stofnaði Kristilegt félag ungra manna (KFUM) árið 1899 og raunar einnig Kristilegt stúlknafélag sama ár, sem síðar varð KFUK. Út frá unglingastarfi KFUM stofnaði hann Knattspyrnufélagið Val árið 1911 og seinna átti hann upptök að sumarbúðastarfi, stofnun fyrsta karlakórsins á Íslandi, skátahreyfingar, lúðrasveitar, taflfélags og fleira. Hann var afar virtur og vinsæll maður og var meðal annars sæmdur stórkrossi Hinnar íslensku fálkaorðu.

Sagan um Sölva varð til þegar Friðrik vantaði fundarefni handa unglingadeild KFUM. Í eftirmála að skáldsögunni segist hann hafa skrifað fyrsta kaflann fyrir fund í byrjun nóvember 1926 og lesið kafla á hverjum fundi þar til í febrúar 1930. Hann segist aldrei hafa skipulagt hana fram í tímann og að hann hafi verið jafnspenntur fyrir framhaldinu og drengirnir. Skáldsagan ber þess glögg merki að hafa orðið til á þennan hátt; byggingin er lausleg og útúrdúrar margir, enda sagðist séra Friðrik aldrei hafa ætlast til þess að hún kæmi út.[5] Margir Íslendingar þekktu söguna um Sölva því vel áður en hún kom út og biðu þess með óþreyju að hún birtist á prenti, enda seldist fyrra bindið upp á örstuttum tíma fyrir jólin 1947.

Sölvi er söguleg skáldsaga og gerist á 18. öld. Þar segir frá Sölva, ungum munaðarlausum dreng sem finnst nær dauða en lífi á flótta frá vondum húsbændum og er tekinn í fóstur af góðhjörtuðum manni og syni hans í Kaldárseli, nálægt Hafnarfirði. Sagan fylgir honum fram á fullorðinsár en Sölvi fer í vinnumennsku norður í Skagafjörð þar sem hann finnur móðurfólk sitt, er styrktur til náms, eignast jörð og verður trúnaðarsendimaður biskupsins á Hólum. Hann er loks sendur í nám til Danmerkur, ferðast vítt og breitt um Evrópu og í ljós kemur að hann er hvorki meira né minna en sonur dansks greifa. Sölvi er þannig gerður að allir elska hann og vilja hjálpa honum; hann er óskaplega næmur ungur maður, hrífst af fallegri náttúru og er trúr öllum kristilegum siðferðisgildum. Hann breytir alltaf rétt, fyrirgefur óvinum sínum, er góður við alla, bjargar oftar en ekki fólki úr lífsháska, handsamar glæpamenn og tekur á áfengisvandamáli rektorsins á Hólum, svo fátt eitt sé nefnt. Sölvi er þannig afar dæmigerð söguhetja drengjabóka frá fyrri hluta 20. aldar: fullkomin fyrirmynd ungra drengja og tekst allt sem hann tekur sér fyrir hendur, en er engu að síður einsleitur – og fremur leiðinlegur – karakter.

 

Ástir Sölva

Greinilegt er að Sölvi hefur mun meiri áhuga á körlum en konum og hið sama má segja um söguhöfund skáldsögunnar, því sárafáar konur eru nefndar á þeim 700 blaðsíðum sem skáldsagan telur og þær hafa lítil áhrif á gang mála eða Sölva sjálfan. Sölvi á aftur á móti náinn vin, Sigurð, en þeir deila rúmi, ganga í fóstbræðralag að fornum sið og eru saman öllum stundum áður en Sölvi fer til Danmerkur í skóla. Í upphafi seinna bindis er Sölvi orðinn fullorðinn og kemur aftur heim til Íslands en þá kemst hann að því að Sigurður hefur snúist gegn honum, logið upp á hann og gifst heitkonu hans, Steinunni. Ekki nóg með það heldur kemur Sigurður af stað orðrómi um að Sölvi sé göldróttur, Sölvi verður smám saman óvinsæll og ofsóttur og að lokum kærður fyrir morð. Að lokum sannast þó sakleysi hans og þeir Sigurður sættast fullum sáttum.

Samband Sölva og Sigurðar er annar af tveimur meginspennuvöldum í skáldsögunni[6] og í raun eins upp byggt og sambönd gagnkynja para í hefðbundnum ástarsögum: parið er ástfangið, misskilningur eða rógur verður til að þeim sinnast þótt ástin hverfi aldrei og að lokum kemst sannleikurinn upp á yfirborðið og parið sameinast á ný. Sambönd Sölva og Sigurðar við konur eru aftur á móti fá og fyrirferðarlítil og mun tilfinningasnauðari en vinátta fóstbræðranna. Sölvi og Steinunn tala saman í örfá skipti áður en hann fer út og heitbindast án þess að nokkur snerting hafi átt sér stað. Eftir að Steinunn giftist Sigurði er Sölvi aldrei við kvenmann kenndur og sýnir í raun engan áhuga á konum þar til hann hittir barónsdótturina Agnesi sem hann er trúlofaður í sögulok. Innilegustu samskipti Sölva og Agnesar sem sagt er frá eru þó aðeins eitt faðmlag og samtöl en engir kossar.

Þegar Sölvi er á heimleið eftir skólavistina í Danmörku er Sigurður honum efstur í huga en honum virðist vera nokkuð sama um Steinunni. Þegar hann fréttir svik Sigurðar verður hann ekki reiður heldur sorgmæddur, þráir ekkert heitar en að þeir verði vinir á ný og segir meðal annars við vin sinn:

„Jeg elskaði þig sem drengur heitar en hægt er að elska bróður. Þú varst upphaf hamingju minnar. Þú varst mjer það, sem Jónatan var Davíð, meir mat jeg vináttu þína en konuást.“[7]

Þegar þeir loksins ná sáttum eftir langa mæðu, dómsmál og harkaleg slagsmál, eru tilfinningarnar sterkar:

„Sölvi settist niður og tók höfuð Sigurðar og lagði það upp að sjer. Hann strauk með hendinni um enni hans, og í strokunum lá nákvæmni og ástúð næstum því móðurlegra atlota. Þeir voru í þessum sömu skorðum nokkra stund alveg þegjandi. Hönd Sölva hvíldi ljett á enni Sigurðar, og inni fyrir ómuðu ótöluð orð: „Bróðir minn, vinur minn!“ Báðir voru eitthvað svo undur sælir, án þess að geta gjört sjer grein fyrir tilfinningum sínum. Þeir reyndu ekki til þess einu sinni. […] Loks um miðaptan stóðu þeir upp og tókust í hendur fast og innilega; þeir horfðust í augu, og svo lagði Sölvi hendur um háls Sigurði, og þeir föðmuðust og kysstust bróðurkossi, hinum fyrsta síðan þeir voru unglingar.“[8]

Samband fóstbræðranna er því bæði tilfinningaþrungið og líkamlegt – og gerólíkt samböndum þeirra við konur. Áður en sú ályktun er dregin að Sölvi og Sigurður séu samkynhneigðir er þó nauðsynlegt að glöggva sig á hugmyndum um rómantíska vináttu karla.

 

Rómantísk karlavinátta

Kossar, faðmlög og önnur líkamleg atlot milli karla hafa ekki alltaf verið tengd við samkynhneigð eða kynvillu og í raun er mjög stutt síðan slíkt þótti eðlilegt. Bandaríski sagnfræðingurinn Anthony Rotundo hefur fjallað um rómantíska vináttu karla í Bandaríkjunum á 19. öld og segir að náin – og oft líkamleg – vináttusambönd ungra karla hafi meðal annars þjónað því hlutverki að móta sjálfsmynd þeirra og búa þá undir fullorðinsárin. Þessi rómantíska vinátta átti aftur á móti að vera tímabundin og ljúka þegar mennirnir giftust.[9] Náin og rómantísk vinátta kvenna sem bjuggu jafnvel saman var einnig lengi vel látin óátalin, líkt og meðal annars má lesa um í bók fræðikonunnar Lillian Faderman, Surpassing the Love of Men (1985).

Rotundo segir ýmsa þætti hafa valdið því að náin vináttusambönd karla voru svo algeng á 19. öld en einnig hafi margs konar menningar- og samfélagslegar breytingar orðið undir lok aldarinnar og valdið því að ungir menn sneru sér í auknum mæli til ungra kvenna með tilfinningar sínar og innileika. Eitt af því sem þar skipti máli, segir Rotundo, var orðræðan um samkynhneigð sem hluta af sjálfsmynd og persónuleika sem varð til á síðari hluta 19. aldar. Áður voru hugmyndir um kynvillu fyrst og fremst bundnar við verknaðinn, það er kynmök, en ekki tilveru einstaklingsins í stærra samhengi. Eftir þetta segir Rotundo að rómantísk vináttusambönd karla hafi átt í vök að verjast:

Eftir þessar breytingar á hugsunarhætti var samkynhneigð ekki lengur sett í samband við verknað heldur persónuleika og félagslega sjálfsmynd. Verknaðurinn, einstaklingurinn og sjálfsmyndin var fordæmd og flestir karlmenn reyndu að forðast þetta allt. Hugmyndin um að kyssa annan karlmann eða deila rúmi með honum varð ógnvænleg og hið rómantíska tungumál karlavináttunnar dó út. [10]

Rotundo tekur fram að náin vinátta karla hafi að sjálfsögðu ekki horfið með 19. öldinni, heldur sú tegund sambanda karla sem hann fjallar um undir heitinu „rómantísk vinátta“, það er vinátta sem tjáð er með ástúðlegum orðum og loforðum um tryggð, gefur undir fótinn möguleikanum um líkamlega nánd og veitir öryggi á uppvaxtarárunum.[11] Sömuleiðis segir Faderman að um og upp úr fyrri heimsstyrjöld hafi konur hætt að geta tjáð opinberlega ást sína á öðrum konum.[12]

Hið nána samband Sölva og Sigurðar er nokkuð dæmigert 19. aldar rómantískt vináttusamband, þótt sagan eigi að gerast á 18. öld en sé skrifuð á 20. öld. Orðræðan um samkynhneigð er hvergi nærri og ekkert óeðlilegt virðist vera við kossa og atlot karlanna tveggja, hvorki innan söguheims skáldsögunnar né í raunheiminum á útgáfutímanum, því sögunni var eins og áður segir mjög vel tekið og aldrei leiddar að því líkur að um nokkuð ósiðlegt væri að ræða. Báðir giftast þeir konum og hefja gagnkynhneigt fjölskyldulíf og þótt það komi ekki fram má telja líklegt að þeir segi skilið við hið rómantíska samband. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að áhugi þeirra á konum er hverfandi og hómóerótíkin er vissulega til staðar í sögunni.

 

Hómóerótík

Samskipti Kjartans og Ísvaldar sem vitnað var til fremst í greininni eru úr sögu sem Sölvi semur og segir gestum í jólaboði þegar hann er unglingur. Sagan fjallar um smaladrenginn Kjartan sem villist í stórhríð og er bjargað af ungum, karlmannlegum manni sem fer með hann í stóra höll. Ungi maðurinn reynist vera álfaprins og heita Ísvaldur og þeir Kjartan verða perluvinir. Álfadrottningin, móðir Ísvalds, fagnar komu Kjartans og segist hafa seitt hann til sín því hún vilji fræðast um það sem álfafólkið vantar, nefnilega gleðina sem fylgir kristinni trú og því að hafa sál. Hún vill að Ísvaldur öðlist þessa kristilegu gleði og biður Kjartan að uppfræða hann, sem hann og gerir. Hin dramatíska kveðjustund á sér stað þegar Kjartan vill fara til aftur mannabyggða. Koss hans reynist gæða Ísvald sál og „mannsbjarma“ og þeir vinirnir fara saman til mannabyggða þar sem þeir búa saman í „afhýsi“ á meðan Ísvaldur lærir til prests. Að lokum flytur Ísvaldur þó aftur til álfabyggða og stofnar kirkju en þeir Kjartan eru ávallt vinir.

Boðskapur þessarar sögu er vitanlega fyrst og fremst kristilegur en engu að síður eru ástir Kjartans og Ísvaldar í forgrunni. Þeir búa reyndar ekki saman til æviloka en í sögunni eru tákn um eitthvað annað og meira en rómantíska vináttu, þar sem Kjartan umbreytir lífi Ísvalds með kossi sínum og flytur hann yfir í sinn heim. Álfasagan er „saga inni í sögu“ og líta má á hana sem frásagnarspegil eða mise en abyme, eins konar vasaútgáfu af skáldsögunni sjálfri og lykil að túlkun hennar.[13] Kjartan er líkt og Sölvi hin kristilega fyrirmynd en fær að vera mun erótískari og lifa í nánara ástarsambandi við ástvin sinn en Sölvi; hafa djúpstæð áhrif á líf hans og búa með honum á fullorðinsárum. Þótt Sölvi sé að draga sig saman við Steinunni í þessu sama jólaboði eru það ástir tveggja ungra manna sem fá rúm í sögu hans, sem styður þá tilgátu að álfafantasían sé birtingarmynd þeirra hómóerótísku tilfinninga sem ríkja í huga hans.

Í ljósi þessa er athyglisvert að í eftirmála segir séra Friðrik eftirfarandi um það hvernig sagan af Sölva varð til:

„Það fór sem rafstraumur gegnum mig, jeg sá drenginn fyrir mjer og sagði hátt við sjálfan mig: „Hvað í ósköpunum var drengurinn að gera uppi á háfjöllum um vetur, aleinn!“ Öll þreyta rann af mjer, og jeg sá allt í einu, að þetta gæti verið byrjun að æfintýri. Jeg gæti látið drenginn villast og komast að Helgafelli við Kaldá og finna þar höll álfakonungsins, uppljómaða, lenda þar í veizlu í dýrðlegum sölum. Jeg þóttist hafa fundið efni í álfasögu, sem jeg gæti lesið upp um kvöldið.“[14]

Álfasagan virðist því einnig hafa verið kjarni skáldsögunnar í huga höfundarins.

 

Hinsegin skáldsaga?

Er Sölvi hinsegin skáldsaga? Já og nei. Sú rómantíska vinaást sem þar birtist var ekki endilega tengd samkynhneigð á þeim tíma sem sagan var samin en engu að síður er ljóst að skáldsagan fjallar um samkynja ástir og þrár og að því leyti er hún hinsegin í nútímaskilningi. Séra Friðrik var sjálfur ókvæntur og barnlaus en ól upp tvo fóstursyni og eins og áður segir var hans ástríða í lífinu sú að vinna með drengjum og ungum mönnum. Af viðtölum við hann að dæma hafði hann lítinn sem engan áhuga á stúlkum og uppeldi þeirra og í minningargreinum sem birtust í Bókinni um Séra Friðrik (1968) er aldrei nefnt að hann hafi verið við kvenmann kenndur. Þó skal tekið fram að ekkert bendir heldur til þess að Friðrik hafi átt í kynferðislegu sambandi við neina af drengjunum sem hann starfaði með. Kannski var séra Friðrik samkynhneigður, kannski ekki – en áhugi hans virðist í það minnsta hafa legið hjá körlum fremur en konum og það birtist afar skýrt í skáldsögunni um Sölva.

Vel má velta því fyrir sér hvort eins nánu vináttusambandi tveggja karlpersóna og birtist í Sölva hefði verið tekið öðruvísi ef einhver annar en séra Friðrik hefði skrifað bókina. Hann var eins og áður segir einn virtasti maður Íslands og ímynd hins kristilega siðgæðis – og slíkt samfélagslegt vald hefur oftar en ekki dugað til að breiða yfir ýmislegt. Á sama tíma gaf Elías Mar út skáldsöguna Man eg þig löngum árið 1949, sem er mjög hreinskilin um samkynhneigð aðalpersónunnar. Bókin fékk lítil sem engin viðbrögð og viðfangsefnið var þagað í hel. Af því má dæma að íslenskt samfélag hafi ekki verið tilbúið til að viðurkenna eða ræða samkynhneigð í bókmenntum um miðja síðustu öld og því verður að telja líklegt að fáum hafi dottið í hug að ræða slíkt í tengslum við skáldsögu séra Friðriks. Sú þögn sem ríkti um hinsegin málefni langt fram eftir 20. öld veldur því að oft er fátt hægt að fullyrða en það er á ábyrgð bókmenntaáhugafólks 21. aldar að geta í eyðurnar og fylla þannig smátt og smátt inn í íslenska hinsegin bókmenntasögu.

– – – – – –

[1] Hér verður gengið út frá afar víðri skilgreiningu á hinsegin bókmenntum, það er að það séu bókmenntir sem fjalla á einhvern hátt um reynsluheim homma, lesbía, tvíkynhneigðra, transfólks eða annarra sem hafa kynvitund eða kynverund sem fellur ekki að hinu gagnkynhneigða regluveldi.

[2] Nýlega kom í ljós að ljóðabókin Kirkjan á hafsbotni, sem kom út árið 1959 undir höfundarnafninu Arnliði Álfgeir og inniheldur meðal annars ástarljóð til kvenna, er í raun eftir konu. Sjá: Ásta Kristín Benediktsdóttir. 2012. „Bókin sem kom út úr skápnum.“ Dagskrárrit Hinsegin daga í Reykjavík, bls. 16–18.

[3] Friðrik Friðriksson. 1947. Sölvi I. Bókagerðin Lilja, Reykjavík. Bls. 195.

[4] Höfundur vill þakka Þorvaldi Kristinssyni fyrir að benda henni á séra Friðrik og skáldsöguna Sölva, sem og yfirlestur og góð ráð.

[5] Friðrik Friðriksson. 1948. „Raunverulegur eptirmáli.“ Sölvi II. Bókagerðin Lilja, Reykjavík. Bls. 312–314.

[6] Hinn er óvissan um faðerni Sölva sem ekki gefst tækifæri til að fjalla nánar um hér.

[7] Friðrik Friðriksson. 1948. Sölvi II. Bókagerðin Lilja, Reykjavík. Bls. 30. Frá Jónatani og Davíð segir í Biblíunni í fyrri Samúelsbók en þeir voru afar nánir vinir og ýmsir hafa síðar bent á erótískar hliðar sambands þeirra. Þegar Oscar Wilde sat fyrir rétti árið 1895 og var spurður að því hver hún væri, „ástin sem ekki vogar að nefna nafn sitt“, svaraði hann: „[Það er] sú djúpa ást fullorðins manns til ungs manns, er var milli Davíðs og Jónatans, sú sem Plató grundvallaði heimspeki sína á og sem finna má í sonnettum Michelangelos og Shakespeares.“[7] Þótt Wilde hafi einungis dregið fram tilfinningaleg hlið þessarar forboðnu ástar er vitað mál að hún var í huga hans einnig erótísk. Hvort séra Friðrik hafði ummæli Wildes í huga skal ósagt látið en vísunin í Jónatan og Davíð styrkir þá túlkun að samband Sölva og Sigurðar sé erótískt.

[8] Sama rit, bls. 186–87.

[9] Á síðustu árum hefur nokkuð verið skrifað um rómantísk vináttusambönd íslenskra karla. Sjá t.d.: Sigrún Sigurðardóttir. 1998. „Tveir vinir. Tjáning og tilfinningar á nítjándu öld.“ Einsagan – Ólíkar leiðir. Ritstj. Erla Hulda Halldórsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon. Háskólaútgáfan, Reykjavík, bls. 145–169; Þorsteinn Antonsson. 1990. „Sveinaást Ólafs Davíðssonar.“ Vaxandi vængir. Aftur í aldir um ótroðnar slóðir. Fróði, Reykjavík, bls. 103–109; og Þorvaldur Kristinsson. 2009. „Loksins varð ég þó skotinn!“ Dagskrárrit Hinsegin daga í Reykjavík, bls. 29­–32.

[10] Rotundo, E. Anthony. 1989. „Romantic friendship. Male intimacy and middle-class youth in the Northern United States, 1800-1900.“ Journal of Social History, 23,1:1-25, hér bls. 20. Þýðing greinarhöfundar.

[11] Sama rit, bls. 21

[12] Faderman, Lillian. 1985. Surpassing the Love of Men. London, The Women’s Press Ltd, bls. 20.

[13] Ítarlega íslenska umfjöllum um frásagnarspegla sjá: Jón Karl Helgason. 2006. „Deiligaldur Elíasar.“ Ritið 6,3: 101–30.

[14] Friðrik Friðriksson. 1948. „Raunverulegur eptirmáli.“ Sölvi II. Bókagerðin Lilja, Reykjavík. Bls. 312.

Varúð – flámælt lesbía!

Texti dagsins er blátt áfram og óheflaður, fullur af gremju og vanlíðan, niðurlægingu og nikótínþörf. Sögukonan er (líklega) einstæð móðir, sögusviðið er Reykjavík á 7. áratugnum, aðfaranótt mánudags, og sagan er texti dagsins af því að í þessum heimi býr lesbía – sjaldséður hvítur hrafn í íslenskum bókmenntum 20. aldar. Höfundurinn er Ásta Sigurðardóttir, eins og glöggum lesendum hefur kannski dottið í hug strax við lestur þessara inngangsorða, en sagan er þó ekki „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ heldur „Eldspýtur“, sem birtist fyrst í Vikunni í ágúst 1967 og síðar í Sögur og ljóð (1985).

Lesbían í „Eldspýtum“ er í litlu aukahlutverki, sem er þó kannski veigameira en virðist við fyrstu sýn, og kemur ekki við sögu fyrr en í sögulok. Aðalpersónan, sem segir söguna, er kona sem þráir ekkert heitar en að kveikja sér í sígarettu en á engar nothæfar eldspýtur. Þar sem það er búið að loka öllum sjoppum, og það hefur ekki borið árangur að nota brauðristina eða eldavélarhelluna, heldur hún út á dimmar götur Reykjavíkur í leit að góðhjartaðri sál sem geti gefið eða lánað henni eld. Og hún er tilbúin að leggja býsna margt í sölurnar.

Screenshot 2015-10-22 12.13.41

Þá tekur við frásögn af bílunum sem hún stöðvar. Þeir eru af ólíkum gerðum og litum en ökumenn þeirra eru allir karlmenn sem ýmist gefa í þegar þeir sjá konuna eða hreyta í hana ónotum. Þar sem sagan er sögð af konunni sjálfri vitum við lesendur ekki hvernig hún lítur út eða ber sig (eða í hvers konar andlegu eða líkamlegu ástandi hún er) en viðbrögðin sem hún vekur hjá þessum mönnum benda til að þeir dragi ákveðnar ályktanir um hana út frá útliti, það er að hún sé róni, mella, veik á geði eða í það minnsta manngerð sem verðskuldar ekki góðvild:

Screenshot 2015-10-22 12.18.58

Nóttin líður, konan er þreytt og sár yfir framkomu mannanna og ennþá þjáist hún af sígarettulöngun og vonleysi – og lesandinn með henni. Henni er líka skítkalt. Þá rennur enn einn bíllinn upp að henni. Ökumaður hans er að mörgu leyti frábrugðinn hinum, því í fyrsta lagi er hann kona og í öðru lagi stoppar hún og bregst betur við (fyrst í stað) en karlarnir:

Screenshot 2015-10-22 12.27.13

Gjörið svo vel, hér er lesbían mætt á svæðið, fögur en flámælt og hljóðvillt. Og að sjálfsögðu er flámæltri konu ekki treystandi. Hún er falleg, það sér sögukonan, en hún er líka dópuð, æst og áfjáð og gengur hreint til verks: „Veltu ekki koma heim með mér?“ spyr hún (já, einmitt, hún er flámælt); „komdu með mér heim – gerðu það“. Þegar sögukonan færist undan ummyndast daman bókstaflega af bræði:

Screenshot 2015-10-22 12.34.19 Screenshot 2015-10-22 12.34.30

Sögunni lýkur á því að sögukonan gefst upp og gengur heim með sársaukatár í augum, eldlaus og miður sín. Samúð sögunnar er með henni, það fer ekki á milli mála – hún er niðurlægð af karllægu smáborgaraveldi sem ríkir á götum Reykjavíkur þessa nótt (og aðrar) og það er undirstrikað að hún eigi heima úti á jaðri samfélagsins.

En skoðum lesbíuna aðeins nánar; það er jú vegna hennar sem þessi pistill er skrifaður. Hún er flámælt, hljóðvillt, árásargjörn, dópuð, klámfengin, bitur og reið og birtist sögukonunni sem eins konar norn. Hún er þar að auki síðasti hlekkurinn í langri röð persóna sem niðurlægja sögukonuna og allar þessar persónur, nema lesbían, eru karlar. Það má því segja að lesbían birtist í þessari sögu annars vegar sem hálfgert skrýmsli eða norn og hins vegar sem hluti af karlaveldinu sem kúgar og niðurlægir þá sem minna mega sín, því þótt hún sé kvenleg í útliti og fögur er hún hættuleg og tekur sér vald, beitir ofbeldi og er kynferðislega krefjandi og aggressíf. Það er sannarlega lítil sögusamúð með henni og kynhneigð hennar; biturleiki hennar og reiði út í gagnkynhneigðar konur sem skilja „ekke sanna ást“ og „velj[a] allar það sama – eitthvað langleitt með hnúð á endanum“ er ekki sympatísk heldur ógeðfelld.

Það að lesbíur birtist í bókmenntum og listum í gervi vera sem eru í senn kynferðislegar og ógnvekjandi er ekki nýtt og alls ekki einangrað við þessa sögu. Fræðikonan Lillian Faderman, sem rannsakað hefur ástir kvenna í vestrænum bókmenntum, hefur til dæmis bent á að fram að fyrri heimsstyrjöld hafi náin sambönd kvenna oft birst á nokkuð fordómalausan hátt en frá og með 3. áratugnum hafi viðhorf til lesbískra ásta sýnilega orðið fordómafyllri og það sjáist einnig í bókmenntunum, þar sem hinsegin konur birtust gjarnan sem sjúkar verur eða skrýmsli og þá oft sem vampírur eða eins konar mannætur:

„These two images – the lesbian as a medical anomaly and the lesbian as a carnivorous flower – dominated openly lesbian literature, particularly fiction, until the 1970’s“ („What is lesbian literature?“ í Professions of Desire (1995), bls. 50)

Líta má á þessar hættulegu og sjúku lesbíur sem birtingarmynd hómófóbíu, það er hræðslu við það sem ekki samræmist gagnkynhneigðum normum og ögrar hefðbundnum hugmyndum um karlmennsku og kvenleika.

Dæmi um þetta má einnig sjá í íslenskum skáldverkum eins og Dagný Kristjánsdóttir hefur bent á í stórgóðri grein, „Hinsegin raddir. Sannar og lognar lesbíur í bókmenntum og listum,“ sem birtist í Skírni haustið 2003. „Það voru gagnkynhneigðir íslenskir karlmenn sem tóku það að sér að skrifa um veruleika íslenskra lesbía,“ bendir Dagný á, og vísar þar helst til Guðlaugs Arasonar og skáldsögunnar Eldhúsmellur (1978) og Feilnótu í fimmtu synfóníunni (1975) eftir Jökul Jakobsson. Í þeirri síðarnefndu er lesbísk hliðarsaga en bókin fjallar um Önnu Dóru sem er að brjótast út úr vonlausu hjónabandi og hrífst meðal annars af Söndru, ungri hippastúlku. Aldrei verður þó úr sambandi þeirra á milli og bókin er því ekki lesbísk ástarsaga; þráin í sögunni er gagnkynhneigð, segir Dagný, og í henni birtist jafnframt ógeð á konum sem fara út fyrir kvenleikarammann. Sagan inniheldur nefnilega aðra lesbíu, karlmannlega butch týpu sem bæði konur (nema Sandra) og karlar hræðast eða fyrirlíta. Nafn konunnar segir í raun allt sem segja þarf: Volga Fress. Hún er dimmrödduð, situr gleitt, dulbýr sig sem karlmann, tilheyrir undirheimunum og sögukonunni býður við henni – og því á hún ýmislegt sameiginlegt með lesbíunni í „Eldspýtum“.

Gildran (2015) eftir Lilju Sigurðardóttur er ný bók með lesbíska aðalpersónu – sú fyrsta í þríleik meira að segja!

Grein Dagnýjar er gott og fróðlegt yfirlit yfir lesbíur og birtingarmyndir þeirra í íslenskum skáldverkum fram að síðustu aldamótum. Það er ekki tæmandi, enda var því örugglega ekki ætlað að vera það, og það væri vel þess virði að gera aðra ítarlega rannsókn á þessu efni og reyna að þefa uppi fleiri verk. Eins er verðugt viðfangsefni að skoða ástir kvenna í 21. aldar verkum en ég held að það megi fullyrða að birtingarmyndir lesbía hafa breyst frá því fyrir aldamót með breyttum samfélagsviðhorfum og aukinni umræðu um hinsegin málefni. Svo ekki sé talað um hve mikið þeim hefur fjölgað! Mér finnst næstum eins og það sé hinsegin kona í annarri hverri bók sem ég fletti þessa dagana.

Ég auglýsi hér með eftir rannsókn á ástum kvenna í samtímabókmenntum okkar. Býður sig einhver fram?